Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa um að mörkun ferðamálastefnu er bæði tímabær og nauðsynleg í landi sem a.m.k. í öðru orðinu er rómað sem ferðamannaland framtíðarinnar. En það eru nokkur atriði varðandi ferðamál sem mér finnst nauðsynlegt að komi fram við þessa umræðu. Auk þess vænti ég þess að fá tækifæri til að fylgjast með málinu í hv. atvmn. þar sem ég er áheyrnarfulltrúi. Fyrst vil ég þó lýsa þeirri skoðun minni að ferðaþjónusta sé sú atvinnugrein og sú gjaldeyrisöflun sem ástæða er til að binda hvað mestar vonir við í framtíðinni verði rétt að málum staðið. Á ferðamálaráðstefnu á Egilsstöðum í febrúar sl. kom fram að gjaldeyristekjur okkar af ferðaþjónustu hafi verið 9 -- 10 milljarðar á sl. ári. Ársverkum í ferðaþjónustu fjölgar sífellt.
    Til þess að ferðaþjónusta verði atvinnugrein framtíðarinnar í reynd þarf að gæta vel að ýmsum atriðum. Umhverfismálin koma þar fyrst upp í hugann. Ég vil sérstaklega vísa til þeirra upplýsinga sem fram komu sl. vor er hv. 6. þm. Vesturl. Danfríður Skarphéðinsdóttir bar fram fsp. um skipulegar hópferðir erlendra aðila um hálendi Íslands. Þar kom fram hve alvarlegt ástand er víða á hálendi Íslands, einkum á fjölsóttum og viðkvæmum stöðum. Þessu máli skyldur er sá mikli innflutningur matvæla sem verið hefur með erlendum ferðamönnum sem fara á sínum vel búnu bílum yfir viðkvæmar slóðir og skilja ekki einu sinni eftir gjaldeyristekjur í landinu. Þetta mál hefur raunar hlotið nokkuð mikla umfjöllun nú á haustþingi og vissulega er það fagnaðarefni að til stendur að minnka þann matarskammt sem erlendum ferðamönnum er heimilt að taka með inn í landið. Ég held að ég muni það rétt að það sé úr 10 kg í 3 kg, en eftir stendur það að það er fyrst og fremst hátt verðlag á matvöru sem veldur þessum gífurlega innflutningi á matvörum og ekkert eftirlit, og því er raunar víða ábótavant, kemur í stað þeirrar aðgerðar að lækka verð á matvöru með niðurfellingu matarskatts. Ég fagna því að heyra hæstv. samgrh. taka undir það sjónarmið. En orð ein duga skammt. Lækkun matarverðs er öllum til hagsbóta og ekki síst bráðnauðsynleg aðgerð í vaxandi ferðamennsku.
    Fram kom í störfum nefndarinnar og ræðu hæstv. samgrh. að menntun starfsfólks í ferðaþjónustu er eitt brýnasta verkefni sem blasir við nú. Ég fagna þeim tillögum sem fram koma í þáltill. um ferðamannastefnu en sakna þess að sjá ekki fastmótaðri hugmyndir um framhaldsnám í ferðaþjónustu. Mér er m.a. kunnugt um að við Háskólann á Akureyri er áhugi á að koma á laggirnar ferðamálanámi. Mig langar því að vekja athygli á því hér í þessari umræðu.
    Einnig finnst mér brýnt að tekið verði sérstaklega tillit til hinna sérstöku aðstæðna á Íslandi, tiltölulega ósnortinnar náttúru, í ferðamálanámi á Íslandi. Við stöndum frammi fyrir því nú að margir sækja framhaldsnám í ferðamálum til annarra landa þar sem e.t.v. eru að einhverju leyti aðrar aðstæður en á Íslandi þótt margt megum við vissulega læra af því sem gert er

þar og þar vil ég m.a. nefna Bandaríkin eins og fram kemur í fylgiskjölum með þáltill. Skortur á vel menntuðu fólki í ferðaþjónustu getur orðið okkur dýrt spaug þegar fram í sækir.
    Á hverju ári stendur fjvn. frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu til fjárveitingabeiðna frá heilsárshótelum víða úti um landið sem eiga í miklum rekstrarvanda vegna erfiðra aðstæðna og rekstrarskilyrða og oft þarf að bregðast við og veita þeim neyðarhjálp. Því fé sem varið er í björgunaraðgerðir væri án efa betur varið í aðstoð við markaðsöflun, sölu og til aðstoðar við rekstur og skipulagningu rekstrar og sú aðstoð mundi áreiðanlega nýtast fleirum en þeim sem nú hafa leitað hjálpar.
    Mig langar til að gera eitt enn að umtalsefni. Það er sá þáttur ferðaþjónustu sem ég held að væri mjög æskilegt að Íslendingar huguðu sérstaklega að en það er uppbygging heilsuræktar - og heilsuverndarhótela. Hér er um að ræða mjög sérhæfða ferðaþjónustu sem hentar mjög vel á Íslandi. Íslenski jarðhitinn er vel nýtanlegur í þessu skyni og nægir að nefna Bláa lónið í því sambandi. Þrátt fyrir að margt hafi verið gert þar nú þegar hefur verið þar erfiður rekstur og það gefur auga leið að þörf er á átaki í markaðssetningu, góðri menntun og skipulagðri uppbyggingu ef við eigum að geta nýtt okkur þennan mjög svo ákjósanlega kost í ferðamálum.
    Að lokum vil ég nefna þau lög um ferðamál eða þá löggjöf sem nú mun vera til skoðunar hjá þingflokkum. Ég vænti þess að þar sé um að ræða þingflokka stjórnar en ekki stjórnarandstöðu.
    Oft hefur borið á því að stjórnarandstöðuþingmenn frétti fyrst af slíkri umfjöllun í fjölmiðlum. Það er þó alla vega nær lagi að slíkt skuli þó koma til tals á Alþingi, en ákjósanlegast væri auðvitað að stjórnarandstaðan gæti einnig fengið tækifæri til að fjalla um og skoða og móta sér skoðun á því sem hugsanlega verður lagt fram í formi lagafrv. síðar. Ég vek athygli á þessu sérstaklega vegna þess að þetta kom hér fram í umræðu áðan, en þetta er svo sannarlega ekki eina tilfellið sem þarna er á ferðinni og kannski ekki einu sinni það versta því að oft er það þannig að stjórnarandstöðuþingmenn hafa orðið að fara ýmsar krókaleiðir til að afla sér þeirra gagna sem fjölmiðlamenn virðast hafa í höndunum svo og ýmsir aðilar úti í þjóðfélaginu. Ég vil bara koma þessari ábendingu hér á framfæri að gefnu tilefni.