Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Hér liggur mikil till. frammi um ferðamálastefnu. Það er að vísu svo að það er þykkur pappír sem liggur hér fyrir, fróðlegar upplýsingar, töflur og mörg orð sem standa í þessu og allt er það ágætt út af fyrir sig. En þetta er í rauninni alveg gagnslaust plagg nema fjármagn sé fyrir hendi. Og fjármagnið kemur ekki úr opinberum sjóðum því hæstv. samgrh. hefur sannað það að hann vill draga úr vegamálum, og dregið markvisst úr þeim í tíð þessarar ríkisstjórnar, með minni fjárveitingum til vegamála,
eins og réttilega kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. sem gagnrýndi harðlega stefnu núv. ríkisstjórnar í vegamálum og það er að sönnu rétt.
    Þessi till. hefur þó þann kost að það er settur á blað óskalisti sem þarf að sönnu að setja fram út af fyrir sig en hefur ekki neitt gildi að öðru leyti. Það sem hefur gildi er það að hér verði stofnuð fyrirtæki með fjármagni og samvinnu við erlenda aðila um að setja á laggirnar öfluga ferðamannaþjónustu í landinu. Ég minni á það að hér er alveg óplægður akur t.d. í skíðamálum. Ég minni á sumarskíðamennsku sem fjöldi manns fer til á hverju ári, t.d. til Ástralíu, Nýja - Sjálands og Argentínu og borgar stórfé fyrir. Ef slík aðstaða væri til hér á landi, sem kostar töluvert fjármagn að byggja, þá mundu þeir gjarnan vilja koma hingað. Ég hef sjálfur átt hlut að því að koma með töluvert marga útlendinga til að skoða hér aðstæður og þeir hafa verið mjög ánægðir með þann þáttinn er lýtur að snjónum sem er talinn mjög góður hér á sumrin, en í þetta vantar auðvitað fjármagn. Það verður ekkert úr slíku nema fjármagn sé fyrir hendi.
    Það er alveg ljóst að ferðamálastefna er ágæt í svona pappírsplaggi en gagnslaus ef ekki fylgja peningar með og hæstv. samgrh. hefur nú markvisst unnið að því að draga fjármagnið frá ferðamálunum, úr samgöngumálunum og þannig vegið að rótum ferðamálastefnunnar. Þess vegna er nú hálfankannalegt að hann skuli birta hér ferðamálastefnu í þáltill., sennilega bara til að geta hampað því í kosningunum á vori komanda að það hafi verið lögð fram vönduð og mikil ferðamálastefna.
    Það hefur komið hér fram í ræðum nokkurra þingmanna að þeir eru voðalega óhressir með þessa ferðamenn sem koma hér og kaupa lítinn mat. Má það nú vera að mönnum þyki matur góður, en ef menn vilja fá hina auðugu ferðamenn hingað til landsins, þá kostar það töluvert fjármagn að byggja upp slíka ferðaaðstöðu. Það kostar ekki 100 millj. eða 200 millj., það kostar kannski milljarða að byggja upp slíka aðstöðu og séu menn tilbúnir með það fjármagn þá auðvitað fáum við þá ferðamenn sem vilja borga fyrir slíkt, en meðan við erum með lítið fjármagn og fátæklega aðstöðu fyrir ferðamenn þá fáum við minna af þeim ferðamönnum sem hafa peninga, svo einfalt er það. Hitt er annað mál að slík skýrsla sem þessi er þörf. Menn hafa á einum stað tölulegar upplýsingar um ýmislegt og ýmsar þingsályktanir og margt sem er gaman að hafa svona í riti, en að öðru leyti er þetta vita gagnslaust nema það komi peningar til. Það er náttúrlega ósköp gaman að fletta þessari skýrslu og sjá allar þessar töflur með súluritum o.s.frv. og sitja svo uppi með samgönguráðherra sem hefur markvisst unnið að því að reyna að draga úr ferðamennsku með því að minnka fjármagn til samgöngumála en gott vegakerfi sem er auðvitað grundvöllur fyrir því að menn geti ferðast um landið. Og svo er það líka einn aðalgrundvöllurinn að verðlag sé nokkuð skaplegt til þess að ferðamenn fáist til að koma til landsins. Og núv. ríkisstjórn hefur nú verið allskörp í því að hækka verðlag t.d. á matvælum með matarskattinum fræga sem hæstv. samgrh. barðist með oddi og egg gegn á sinni tíð en samþykkti þegar hann komst í ríkisstjórn. Á því sést að þetta plagg er raunverulega bara markleysa. Það er verið að leggja hérna fram eitthver falleg súlurit, línurit, tölur og hugsanir sem eru frómar út af fyrir sig. En það er alveg gagnslaust ef ekki fylgir fjármagn á eftir. Þess vegna segi ég að það má alveg samþykkja þetta plagg eins og það liggur fyrir vegna þess að það er alveg gagnslaust nema veittir verði miklir fjármunir og tryggt að það komi fjármagn í ferðamál hér á Íslandi. Og þeir hafa yfirleitt komið í gegnum erlenda aðila. Tökum t.d. Flugleiðir. Þeir hafa fengið lán í sínar flugvélar frá erlendum aðilum. Það hefur verið byggt upp á erlendu fjármagni. Ég fagna því auðvitað að samgrh. skuli sjá það að við þurfum meira fjármagn til þessara hluta. Hann vill náttúrlega erlent fjármagn hér inn í landið, þykist ég vita, því að öðruvísi verður ekki byggð upp ferðamálastefna. Svo einfalt er það.