Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu neitt. Hins vegar langar mig til að þakka fyrir upplýsingar sem ég fékk nú í sambandi við þá löggjöf sem ég kvartaði undan að ekki kæmi fyrir okkar sjónir. Nú mun verða undantekning á því þar sem við kvennalistakonur eigum fulltrúa í þeirri nefnd. Ég hafði ekki skilið ráðherra svo að það væri sama nefndin sem mótaði þetta og biðst velvirðingar ef þetta er einhver misskilningur hjá mér.
    En eftir stendur að það er ekki að ástæðulausu að stjórnarandstöðuþingmenn eru oft mjög tortryggnir vegna fregna um ýmis lagafrv. vegna þess að svo iðulega hefur það gerst að fyrstu fregnir um ákveðin, mikilvæg lagafrv. fær maður úr fjölmiðlum og það hefur verið vandkvæðum bundið oft og tíðum að afla sér upplýsinga. Þetta á ekki við í þessu tilviki og ég er að sjálfsögðu mjög ánægð með að heyra það.
    Í öðru lagi er það varðandi námið. Ég átti raunar ekki við nám í framhaldsskólum heldur framhaldsnám, sem væntanlega mun þá vera á háskólastigi. Ég las mjög vel það sem stóð í þáltill. um mótun ferðamálastefnu um framhaldsnám og þykir að mörgu leyti mjög gott það sem þar er getið. Það er hins vegar fyrsta nám í ferðamálum sem á sér stað í framhaldsskólum. Framhaldsnám hlýtur að vera á öðru stigi og ég var einungis að vekja sérstaka athygli á að þar þyrfti að gæta þeirrar sérstöðu sem Íslendingar hafa og að byggja þetta upp á einhverjum ákveðnum stað á landinu. Þar af leiðandi fannst mér sérstök ástæða til að geta þess.
    Að öðru leyti vil ég þakka þá umræðu sem hefur orðið hér í dag. Ég tel að hún hafi að mörgu leyti verið upplýsandi og muni koma að gagni í störfum þeirrar nefndar sem um hana fjallar.