Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um þessa till. og þær undirtektir sem hún hefur fengið í máli velflestra ef ekki allra ræðumanna. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við að bæta þá framsöguræðu sem ég flutti hér fyrir till. áðan en vil drepa á fáein atriði sem hv. ræðumenn nefndu og e.t.v. væri unnt að skýra örlítið.
    Hv. 2. þm. Vestf. vék m.a. í máli sínu að því að verðlag á bílaleigubifreiðum væri hér mjög hátt og það kynni að fæla frá jafnvel í verulegum mæli væntanlega eða mögulega ferðamenn sem spyrðust fyrir um ferðamöguleika til Íslands en hrykkju frá þegar þeir fréttu um verðlag á bílaleigubílum. Ég held að ekki sé annað að gera en viðurkenna að nokkuð er til í þessu. Vel að merkja ferðast ekki nema hluti ferðamanna sem hingað koma með bílaleigubílum, mikill meiri hluti nýtir sér væntanlega aðra ferðamöguleika, fer með flugvélum, áætlunarbifreiðum o.s.frv. En það hentar ýmsum að nýta sér þann möguleika að leigja bíl og sjá sjálfur um akstur á sér og sínum um landið. Og ekki síst gæti það átt við einmitt um þann hóp sem hv. þm. vitnaði til að gæti hugsað sér að eiga viðskipti við aðila eins og Ferðaþjónustu bænda. Ég held að það sé tvennt sem rétt sé að athuga þegar verðlag á bílaleigubílum er til umræðu. Það er auðvitað annars vegar sú almenna staðreynd, sem við verðum að læra að venja okkur við og ekki verða alltaf jafnhissa á og er ósköp einföld staðreynd sem er gegnumgangandi í okkar þjóðlífi og efnahagslífi, að Ísland er dýrt land. Hér er almennt frekar hátt verðlag á hlutum hvort sem eru vörur eða þjónusta. Við erum í hópi dýrari landa hvað þetta snertir og það er í raun sama hvar borið er niður. Þess misskilnings gætir allt of oft að það séu bara matvæli eða bara leigubílar eða bílaleigubílar eða aðrir hlutir sem séu hér dýrir. Sönnu nær er að viðurkenna að við erum almennt með hátt verðlag á vörum og þjónustu. Og undantekningarnar eru miklu færri hygg ég á þessari reglu frekar en hitt að hið háa verðlag sé undantekning.
    Hitt er svo örugglega rétt, að í ýmsum öðrum löndum eru miklu meiri ívilnanir á ferðinni gagnvart rekstri bílaleiga. Þar er sums staðar um að ræða jafnvel algera niðurfellingu á öllum aðflutningsgjöldum og tollum þannig að bílaleigur eiga kost á að kaupa nýja bíla til sinnar starfsemi nánast á verksmiðjuverði, án nokkurra opinberra gjalda. Þetta hygg ég t.d. að skýri það óvenjulága verð sem er á þjónustu bílaleigufyrirtækja í smáríkinu Lúxemborg, sem við höfum talsverð samskipti við á þessu sviði. Síðan er þetta misjafnt og sjálfsagt er það rétt að hér á Íslandi séu minni ívilnanir frá hinum almennu skattareglum hvað snertir rekstur bílaleigufyrirtækja en víða annars staðar.
    Hv. 2. þm. Vestf. nefndi einnig stöðu mála á hálendinu og inn á það komu fleiri og nauðsyn þess e.t.v. að setja þar einhverjar takmarkandi reglur. Það

hef ég áður rætt og það hefur verið til skoðunar á vegum ferðamálaaðila með aðild ráðuneytisins. Það kann vel að fara svo að sérstaklega stærri ferðaskipuleggjendum, þeim sem hafa á sínum snærum hópferðir, fjölmenna hópa, verði að setja einhver takmörk um atriði eins og t.d. náttun á hálendinu og beina stærri hópum frekar í gistingu í byggð eða a.m.k. frá hinum viðkvæmustu stöðum á hálendinu. Með slíkum aðgerðum má hafa áhrif á umferðina án þess beinlínis að takmarka aðgang manna. Svo er það líka í þessu sambandi, sem kemur inn á það sem hv. 4. þm. Vesturl. o.fl. ræddu um tengsl ferðaþjónustu og byggðamála, mikilvægt af þessum sökum einnig að dreifa álagi ferðaþjónustunnar um landið.
    Þegar hafa nú í raun komið fram svör við því hvers eðlis sú vinna hefur verið sem hér er til umræðu. Það er annars vegar þáltill. og hins vegar endurskoðun laga og frv. sem fram er komið og er til skoðunar hjá þingflokkum stjórnarliðsins. Ég hygg að með einum eða öðrum hætti megi tengja alla stjórnmálaflokka eða flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi við það starf sem þarna hefur verið unnið. Þess vegna sé ekki mikil ástæða til að kvarta yfir því að að þessu starfi hafi verið þannig staðið að menn hafi ekki haft sæmilega möguleika til að fylgjast með því og hafa áhrif á það. En ástæðan fyrir því að þetta var sent stjórnarflokkunum er að sjálfsögðu sú að ætlunin er að leggja þetta frv. fram sem stjfrv. samkvæmt venju þegar um vinnu á vegum ráðuneytis er að ræða. Þá er málsmeðferðin að sjálfsögðu sú að senda það fyrst þingflokkum stjórnarliðsins til umfjöllunar.
    Hér var líka margt réttilega sagt af hv. 4. þm. Vesturl., 1. þm. Vesturl. o.fl., um tengsl samgöngumála, byggðamála og ferðaþjónustu. Ég vísa í það sem ég áður sagði, ég tel að í ferðaþjónustunni felist kannski einhverjir vænlegustu möguleikar atvinnulífsins á næstu árum, ekki síst úti um landsbyggðina. Og staðreynd er, sem ástæða er til að vekja athygli hv. þm. á, að ferðaþjónustan er ein fárra atvinnugreina sem á undanförnum árum og yfirstandandi ári hefur verið í vexti og hverrar vöxtur hefur hlutfallslega farið fram ekki síður og reyndar í meira mæli á landsbyggðinni. Ég held að það sé nokkuð borðleggjandi ef tölur eru skoðaðar um það að hlutfallslega hefur vöxtur ferðaþjónustunnar á hinum síðari árum verið meiri á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan væntanlega fyrst og fremst sú að hér varð uppbyggingin fyrr á ferðinni að ýmsu leyti og hefur farið hægar hin síðari ár en mjög hröð uppbygging átt sér stað víða úti um landið á undanförnum árum, til að mynda í Austfirðingafjórðungi eins og hv. 3. þm. Austurl. nefndi.
    Hv. 11. þm. Reykn. fór hér í smáæfingar í sambandi við fjárveitingar til samgöngumála og ferðamála. Ég ætla ekki að taka tíma undir lok þessarar umræðu til að rökræða framlög til vegamála við hv. 11. þm. Reykn. Ég get tekið undir með honum og öðrum sem það rökstyðja að þessi framlög séu ekki nóg, þau þyrfti enn að auka. Það er auðvitað alveg augljóst mál. Og það sem hv. 4. þm. Vesturl. vék að

er rétt, að það vantar enn nokkuð upp á að framlög séu í samræmi við upphafleg markmið langtímaáætlunar um vegagerð. Þau hafa hins vegar heldur aukist nú tvö sl. ár frá því sem var árin þar næst á undan og eru nokkuð meiri að raungildi en þau voru t.d. góðærisárið mikla 1987, en þá hafa framlög til vegamála á hinum síðari árum orðið lægst að raungildi í landinu.
    Ef skoðuð eru framlög til ferðamála sést að þau hafa aukist milli ára. Ef skoðað er yfirstandandi ár borið saman við árin 1988 og 1989 mun láta nærri að skil af mörkuðum tekjum til Ferðamálaráðs, sem vera skulu samkvæmt lögum 10% af vörusölu í Fríhöfninni, hafi farið niður í 2 -- 3% í stað þessara 10% sem þarna á að skila. En árið 1990 lætur nærri að þetta hlutfall sé u.þ.b. 3,5% og miðað við þá tölu sem nú er í fjárlagafrv., sem til umfjöllunar er í fjvn., yrði framlagið á næsta ári samkvæmt áætlun nálægt 5%. Þar er þó verið að þoka málinu í rétta átt þó sannarlega þurfi að gera betur og ná alla leið í mark á sem allra stystum tíma.
    Hv. 11. þm. Reykn. hafði ekki mikla trú á því að hér yrðu framfarir í ferðaþjónustu nema til kæmi erlent fjármagn. Ég skildi hann svo að það yrði þá í raun og veru í formi fjármögnunar, ekki bara lántöku, heldur eignaraðildar útlendinga í þessari atvinnugrein. Ég er ekki sammála honum um það. Ég bendi á að ferðaþjónustan hefur verið í örum vexti undanfarin ár án þess að erlend eignaraðild kæmi til sögunnar, án þess. Það merkilega er að íslensk ferðaþjónusta er sennilega ein þeirra greina þar sem hvað minnst fer fyrir erlendu fjármagni í formi eignaraðildar á síðustu árum og hefur þó þessi grein byggst ört upp og vaxið og skilar hér árlega auknum tekjum inn í þjóðarbúið. Það er því greinilega ekki lögmál, þvert á móti því sem skilja mátti af máli hv. 11. þm. Reykn., að ekkert geti gerst í þessum efnum nema til komi erlent fjármagn. Ég er ekki að tala um þetta út frá því að það sé bannorð í mínum huga en ég tel þó að breyttu breytanda að fullt forræði Íslendinga í þessum málum gegnum eignaraðild þeirra sjálfra að atvinnuuppbyggingunni á þessu sviði hafi verið farsælt og ætti að geta reynst okkur farsælt í framtíðinni. Það sýnir sig að vel rekin fyrirtæki á þessu sviði í landinu hafa greiðan aðgang að erlendu lánsfjármagni ef þau þurfa á því að halda til sinna fjárfestinga, svo sem gríðarlegar fjárfestingar Flugleiða á síðustu árum hafa sýnt. Ég held að þegar þannig er ástatt sé ekki ástæða til þess að sækja eftir, umfram það sem hagstætt er talið hverju sinni, aukinni eignaraðild útlendinga að þessari grein. Hér er að mörgu leyti á ferðinni viðkvæm þjónusta sem tengist mjög umhverfismálum og ásýnd landsins og ég held að þar sé farsælast að við Íslendingar sjálfir reynum að hafa sem mest forræði á hlutunum.
    Að lokum þakka ég á ný, hæstv. forseti, umræður sem hér hafa orðið og góðar undirtektir við þessa þáltill. og það starf sem unnið hefur verið að ferðamálum á vegum sérstakrar nefndar undir samgrn. Ég færi þeirri nefnd aftur þakkir mínar svo og öllum

þeim sem þar hafa lagt hönd á plóginn og vona að það verði þeirri atvinnugrein sem hér um ræðir til nokkurs gagns á komandi árum.