Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um staðfestingu samnings um Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum sem er á þskj. 173.
    Alþjóðastofnun um notkun gervitungla í siglingum, International Maritime Satellite Organization, venjulega skammstafað INMARSAT, er alþjóðasamtök sem stofnuð voru til að annast rekstur gervitungla til þess að bæta fjarskipti við skip og að því leyti sem hagkvæmt kann að reynast einnig fjarskipti við flugvélar. Markmið samtakanna er að þjóna öllum þeim svæðum á jarðarkringlunni sem hafa þörf fyrir fjarskipti við skip eða flugvélar. Samningurinn um stofnunina var undirritaður í London 3. sept. 1976 en tók gildi 16. júlí 1979.
    INMARSAT veitir talsíma-, telex-, telefax- og gagnasendingarþjónustu um gervitungl, þar með taldar neyðar- og öryggissendingar. Þjónustan er fyrst og fremst ætluð skipum og mannvirkjum meðfram ströndum. Fyrir þessa starfsemi hefur INMARSAT leigt tvö gervitungl en mun í framtíðinni nota sín eigin gervitungl.
    Það er frá því að segja að nokkur íslensk kaupskip hafa þegar búnað til þess að eiga fjarskipti um gervitungl. Slíkur búnaður er hluti af framtíðarkerfi neyðarfjarskipta fyrir skip sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur samþykkt.
    INMARSAT hefur líka komið á þjónustu við loftför en með gervitunglanotkun er unnt að bæta núverandi sambönd og m.a. gefa flugfarþegum kost á símaþjónustu.
    Hagur Íslands af aðild að stofnuninni er ótvíræður. Með slíkri aðild verður auðveldara að fylgjast með á þessu sviði og tryggja að íslenskir notendur eigi kost á nýjustu og bestu möguleikum til fjarskipta. Ekki síst skiptir það máli að Íslendingar eigi aðild að framtíðarkerfi fjarskipta fyrir siglingar í neyðartilfellum.
    Aðild Íslands er fjárhagslega viðráðanleg og að mínu áliti áhættulítil eða áhættulaus. Íslandi verður gert að eignast lágmarkshlut í samtökunum sem er 0,05%. Þessi upphæð nam um síðustu áramót nálægt 8,5 millj. ísl. kr. Á næstu árum mun INMARSAT fjárfesta í gervitunglum og til þess mun þurfa að auka hlutaféð nokkuð. Reiknað er með að framlag Íslands nái hámarki á árinu 1993 og verði þá samtals um 18,3 millj. kr. Eftir það mun arður og endurgreiðsla á fyrri framlögum nema hærri fjárhæð en ný framlög. Á árinu 1997 mun greiðslustraumurinn snúast Íslandi í hag. Það mun vera stefna INMARSAT-samtakanna að greiða 14% arð af því fé sem liggur bundið hverju sinni. Með hliðsjón af þessu fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samningsins fyrir hönd Íslands.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að till. þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.