Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við þessa till. til þál. Ég held að hún sé mjög svo tímabær og harma nú reyndar að hæstv. viðskrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu þó hér sé um að ræða kennslu í skólum. Ég held að þetta sé svo nátengt öllu efnahagsástandi þjóðarinnar að það hefði verið ástæða til þess að eiga við hann orðastað um ástandið í þeim málum.
    Þegar hv. alþm. taka ákvarðanir um ýmis mál í þjóðfélaginu hefur það óneitanlega oft áhrif á afkomu fjölskyldnanna í landinu. Í umræðu í gær um embætti umboðsmanns barna vitnaði ég í sálfræðing hér í bæ sem lýsti því yfir að hún hefði séð merkjanlega breytingu á ástandi barna og unglinga í bænum eftir að launavísitalan var tekin úr sambandi. Og hún heldur því fram að þau börn sem þá urðu fyrir þeirri upplausn sem því fylgdi séu nú vandamálaunglingar hér í landinu.
    Ég var tiltölulega nýr þingmaður þegar greiðslukort hófu starfsemi sína hér á landi. Ég stóð hér í þessum stól og varaði við því að þessu yrði hleypt af stað án þess að það hefði stoð í lögum. Enn eru ekki til lög um notkun greiðslukorta. Hér liggur að vísu nú frammi frv. til laga um greiðslukortastarfsemi, en vegna þess að engin lög hafa verið í gildi hefur þessi notkun auðvitað farið úr öllum böndum og trúa útlendingar satt að segja ekki þeim lýsingum sem maður neyðist til að gefa á notkun slíkra korta hér. Það t.d. telst til undantekninga að hægt sé að kaupa matvöru með greiðslukortum erlendis og því síður er hægt að biðja kaupmenn að geyma greiðslukortanótur. Menn eru farnir að taka lán --- yfirleitt að lifa á lánum í fyrsta lagi, og jafnvel að draga greiðsluna enn lengur en ætlast er til þegar þessi kort eru annars vegar.
    Það er alveg laukrétt hjá hv. flm. þessarar tillögu að ungt fólk í þessu landi veit ekkert um peningamál almennt og yfirleitt. Mér hefur skilist að sá unglingur finnist ekki yfir 17 -- 18 árum sem ekki er með greiðslukort upp á vasann og notar það á börum bæjarins og hvar sem er. Það getur auðvitað hver heilvita manneskja séð að þetta nær ekki nokkurri átt. Vissulega væri full ástæða til þess að setja einhverja lágmarksupphæð sem leyfilegt sé að greiða með greiðslukortum. Unglingar nota þetta, skrifa út 250 -- 300 kr. hvar og hvenær sem er og það segir sig auðvitað sjálft að þessir unglingar hafa ekkert yfirlit yfir það hverju þeir eyða. Því held ég að svo sannarlega sé ástæða til þess að hefja reglulega kennslu í meðferð peninga hér á landi.
    Varðandi það sem sagt er um gjaldþrot í greinargerð vil ég aðeins segja það að ég skil í raun og veru ekki lengur hvað þarf til að verða gjaldþrota. Ég tek undir það með hv. flm. að þegar við vorum að alast upp heyrði það til undantekninga að einhver yrði gjaldþrota, og þá var það einhver sem hafði haft einhvern rekstur með höndum. Á það var litið mjög alvarlegum augum. Ég minnist í mínum fæðingarbæ að

það hvíldi skuggi yfir nokkrum einstaklingum þar, og þeim örfáum raunar, sem höfðu orðið fyrir þeim ósköpum að verða gjaldþrota. Þessir menn voru allt lífið að reyna að vinna fyrir þeim skuldum sem þeir urðu að skilja eftir við gjaldþrotið. Nú sýnist mér að ungt fjölskyldufólk geti lýst sig gjaldþrota ef það er í greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðismála og oft og ekki síst vegna einkaneyslu. Það er allt gert til þess að fá fólk til þess að eyða peningum umfram það sem það ræður við. Menn geta farið til útlanda í sumarleyfisferðir út á krít til allt að því eins árs, skilst mér. Menn geta bókstaflega keypt hvað sem er ef þeir hafa þetta litla kort í veskinu sínu. En það segir sig sjálft að það hugsar enginn til enda hvernig fólk eigi að standa straum af þessu. Það er því svo sannarlega góðra gjalda vert að reyna að fara að koma einhverju viti í þessa hluti. En það dugir auðvitað skammt ef þetta verður látið ganga eins og verið hefur, að menn geti fengið lán svo langt umfram það sem þeir hugsanlega geta greitt miðað við tekjur sínar, þá er auðvitað til lítils að ætla að fara að kenna unga fólkinu meðferð fjár ef það sér svo allt í kringum sig að foreldrarnir og aðrir ættingjar eyða langt umfram það sem þeir hafa möguleika á að greiða nokkru sinni.
    En þessi till. til þál. er svo sannarlega þakkarverð og eins og ég segi, ég harma að hæstv. viðskrh. skuli ekki vera hér vegna þess að ég hefði gjarnan viljað eiga við hann orðastað um hvort ekki sé ráð að lagfæra þá hluti enn. --- Og nú kemur hæstv. ráðherra í salinn sem ég saknaði svo mjög.
    En til þess að endurtaka ekki það sem ég hef áður sagt, þá fagna ég þessari tillögu hv. 9. þm. Reykn. en ég óttast að í þeirri fjármálaóreiðu sem er í þessu þjóðfélagi kynni að vera dálítið erfitt að ætla að fara að kenna unga fólkinu að eyða ekki meiru en það hefur hugsanlega möguleika á að greiða. Og ég rakti aðeins margítrekaðar kröfur mínar um löggjöf um greiðslukortanotkun, og er nú með í höndunum hér frv. til laga um þá notkun, loksins. Ég spáði því hér fyrir mörgum árum, og þótti ekki með reyndari þingmönnum þá, að þessi hömlulausa notkun greiðslukorta mundi stórhækka vöruverð og leggja fjárhag fjölskyldna landsins í rúst og það hefur komið á daginn. Þessi gjaldþrot, sem nú virðast vera næstum því einn sjálfsagður kostur fjölskyldu sem er í greiðsluerfiðleikum, eru að verulegu leyti ofneysla og of miklar lántökur sem eru úr öllu samhengi við mögulega fjárhagsgetu fjölskyldnanna. Það hlýtur auðvitað að vera verkefni hæstv. viðskrh. að koma einhverju viti hér í.
    Menn kaupa hér allt á kortum, taka lán eftir lán, kaupmenn leika sér með greiðsludaga kortanna. Þetta veður áfram hömlulaust og auðvitað getur þetta ekki endað í neinu nema einu allsherjar gjaldþroti. Fyrst væri nú kannski þörf að koma einhverju viti í þessi mál en það er jafnnauðsynlegt að gera tilraun til að kenna unga fólkinu að svona getur þetta ekki gengið. Og ég vil þess vegna þakka hv. 9. þm. Reykn. fyrir að hafa borið fram þessa tillögu.