Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Sú þáltill. sem hér liggur frammi um fræðslu í fjármálaumsýslu í skólum frá hv. 10. þm. Reykn. Rannveigu Guðmundsdóttur er mjög merk tillaga og þörf. Ég er algerlega sammála því að það þurfi að fara fram mjög víðtæk fræðsla í skólum um fjármálaumsýslu. Ég þarf ekki að rekja það hér að það er því miður allt of lítið um að fólk geri sér grein fyrir því hvað debet og kredit er. Þess vegna væri nauðsynlegt að hver einasti maður lærði undirstöðu í bókhaldi ásamt fleiru, því að það er eitt af grundvallaratriðum í nútímaþjóðfélagi.
    Ég vil einnig taka undir það sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði hér um almenna þjóðhagfræði. Ég man eftir því að þegar ég átti þess kost í fyrsta skipti að læra almenna þjóðhagfræði og lesa hina kjarngóðu bók Ólafs Björnssonar, fyrrv. þm. Sjálfstfl. og prófessors, um almenna þjóðhagfræði, þá opinberuðust manni nýir heimar. Þessi bók er einhver snilldarlegasta bók á sínu sviði, stutt, auðskilin og öllum auðveld aflestrar. Ég held að það þurfi að taka upp kennslu í almennri þjóðhagfræði því að það muni víkka sjóndeildarhring þeirra sem eru í skólum og gera þeim grein fyrir því að það er nauðsyn að vita svolítið meira en fólk hefur hingað til verið frætt um.
    En ég tel að það hefði líka verið full ástæða til þess að taka bæði þingmenn og ráðherra alveg sérstaklega í kennslustund í þessum málum og kenna þeim grundvallaratriði í þessum fræðum og þá alveg sérstaklega í almennri þjóðhagfræði sem ég held og sýnist að hefði ekki verið vanþörf á hér eins og stjórn landsins er komið í dag. Það hefði kannski verið betri skikkur á fjármálum þjóðarinnar ef svo hefði verið. Þeir hefðu allir gott af því að lesa hina ágætu bók Ólafs Björnssonar um almenna þjóðhagfræði. Það mundi kenna þeim smávegis hvernig á að fara með fjármuni.
    Í gærkvöldi var í sjónvarpinu mjög merk mynd um fjármál. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa horft á þá mynd. En þar kom fram fyrrv. ríkisstjóri, Connally, og var einmitt að ræða um þessi mál, maður sem féll af tindi háum og niður á botninn, varð gjaldþrota. Það var athyglisvert hvað hann sagði og margir viðmælendur í þessari kvikmynd. Og þær tölur sem voru birtar í þessum þætti ríma nokkurn veginn við þessar tölur sem hér eru um gjaldþrotamenn. Þannig að hlutfallið á milli Bandaríkjanna og Íslands virðist vera mjög líkt að þessu leyti og það var einmitt fróðlegt að sjá viðtal við það fólk sem hafði látið greiðslukortin stjórna sínu lífi of mikið, hvernig tekið var á því vandamáli og fólk varð að gera sér grein fyrir því að það varð að lifa af þeim tekjum sem það hafði á milli handanna.
    Ég tel að slíkt námskeið þyrfti einnig að ná til þeirra sem stjórna ríkisfyrirtækjum. Miðað við þá stjórn sem hefur verið á mörgum þeirra á gengnum árum er ég hræddur um að margir af þeim viti bara ekkert um fjármálaumsýslu eða undirstöðuatriði í almennri þjóðhagfærði. Það þyrfti að skikka alla slíka

menn til að fara á námskeið í þessum atriðum og læra eitthvað um fjármál. Ég hef oft velt þeirri spurningu fyrir mér af hverju verið er að lögvernda starfsheiti --- hjúkrunarfræðingur er lögverndaður, læknir er lögverndaður o.s.frv. --- en þegar kemur að því að fara með fjármál og fjármálaumsýslu þá er engin lögverndun. Þá getur bara hvaða maður sem er gengið inn af götunni og sýslað með fjármál, t.d. í ríkisfyrirtækjum. Þar eru menn sem hafa ekkert lært um fjármál og í gegnum þeirra hendur fara jafnvel hundruð milljóna. Ég held að það sé athyglisvert fyrir þingheim að velta fyrir sér hvað sé á ferðinni. Er ekki gerð nein krafa til slíkra manna? Og ekki er síður athyglisvert að sjá hvað gerist þegar menn hafa stjórnað fyrirtækjum illa og þau orðið gjaldþrota því að venjulega er þessum sömu mönnum lyft hærra og þeir fá meiri umsvif og mannaforráð en nokkru sinni áður. Ég tel ástæðu til að þessir hlutir verði skoðaðir. Sérstaklega ættu ráðherrarnir að íhuga þetta.
    Ég vil að lokum segja það að þessi þáltill. er þörf og ég vona að hún fái hraða afgreiðslu í gegnum þingið með þeirri viðbót að menn verði látnir læra almenna þjóðhagfræði og bókfærslu sem er eitt það nauðsynlegasta sem menn læra í dag því að án þessara þátta eru menn ekki starfhæfir í nútímaþjóðfélagi. Þetta er grundvöllur þess að menn geri sér grein fyrir því að debet og kredit verða að standast á.