Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa til máls um þessa þáltill. og fyrir þau innlegg sem komið hafa í máli þeirra inn í þetta mál.
    Hv. 13. þm. Reykv. spurði einfaldrar spurningar: Hvernig verður fólk gjaldþrota án reksturs? Það er kannski líka það inntak sem var í minni ræðu. Og af því tilefni langar mig að nefna það að sá starfsmaður skiptaréttar sem ég nefndi í framsöguræðu minni sagði mér að honum hefði fundist það einna erfiðast þegar ungt fólk kom inn að borðinu og spurði: Hvernig fer ég að því að láta gera mig gjaldþrota?
    Einnig kom það fram hjá hv. 12. þm. Reykv. að það þyrfti kannski að koma með fleira, meiri almenna fræðslu um það sem lýtur að heimilishaldi utan fjárreiðunnar. Ég get tekið undir það að það sem vantar e.t.v. í okkar kennslufræði í dag er almenn raunveruleg fræðsla um að verða fullorðinn og standa á eigin fótum, hvað bíður og hvers er ætlast til af manni. Ég treysti mér ekki til þegar ég var að fjalla um þessa till. eða valdi að hafa hana afmarkaða, en ég mun koma á framfæri í nefndinni þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram í umræðum, bæði hvað varðar undirstöðuatriði í þjóðhagfræði og eins því sem lýtur að eignamálum og almennri fræðslu í heimilishaldi eða því að standa á eigin fótum.
    Mig langar til þess að undirstrika það, af því að talið barst hér að verðbólgu eða ekki verðbólgu, að auðvitað er það að sumu leyti undirrótin að þessum vanda hjá okkur, vanda gagnvart okkar börnum eða okkar unga fólki, að þau eiga ár að baki þar sem aldrei var kennt að spara fyrir því sem draumurinn stóð til. Ef barn átti að fá reiðhjól þá vissi foreldri að það borgaði sig að kaupa reiðhjól strax og borga það seinna. Og það er sá andi sem þessi börn hafa alist upp við sem hv. 13. þm. Reykv. hefur komið inn á í þessari umræðu og reyndar annarri, nokkurs konar skemmdarsjónarmið sem heil kynslóð hefur e.t.v. alist upp við.
    Mig langar að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, með því að vitna hér örfáum orðum í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Ung kona sem titlar sig nema og rithöfund nefnir einmitt það sjónarmið bankanna að veita sömu einstaklingunum lán á lán ofan þegar sýnt er að viðkomandi hafi enga möguleika á að greiða þau, aðeins ef sá hinn sami getur fengið einhvern ættingja eða vin til að ábyrgjast viðkomandi, oft og tíðum án þess að vita um ástæður skuldarans.
    Á öðrum stað í greininni segir greinarhöfundur: ,,Til þess að lifa í okkar þjóðfélagi í dag þurfa menn helst að vera fjármálasnillingar``. Og enn á öðrum stað: ,,Það er til fullt af fólki, ekki síst ungu fólki, sem aldrei hefur safnað peningum fyrir hlut heldur alltaf keypt fyrir tekjurnar sem afla á á morgun.`` Þetta er merkilegt, þetta er merkilegt fyrir þær sakir að í raun fjallar greinin um allt annað en það sem er til umræðu hér hjá okkur í dag, en þessir litlu partar úr henni er einmitt það sem málið snýst um í framsögu minni í till. minni.