Sérprentun á húsnæðislögunum
Mánudaginn 26. nóvember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég skildi ummæli hæstv. ráðherra húsnæðismála svo að félmrn. hefði með vilja gefið út þessa sérprentun í samræmi við hugsanlegar breytingar á lögunum síðar. Var það rétt tekið eftir? ( Félmrh.: Útúrsnúningur.) Ha, útúrsnúningur? ( Gripið fram í: Það þarf einstaka nefnd í það.) Mér heyrðist það vera þannig.
    Ráðuneytinu er kunnugt um að þessi sérprentun er villandi. Hún gefur því fólki sem fær sérprentunina í hendur rangar upplýsingar um hvað séu lög í landinu. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem vakti máls á þessu fyrir hans frumkvæði og vil vænta þess að forseti Alþingis geri ráðstafanir til þess að dreifing þessarar sérprentunar verði stöðvuð og Alþingi geri ráðstafanir til þess að knýja á framkvæmdarvaldið að dreifa annarri sérprentun þangað sem framkvæmdarvaldinu er kunnugt að þetta plagg hefur farið.
    Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti í sögu Alþingis sem ráðherra lýsir því yfir að hann láti sig engu gilda hvað séu lög í landinu og ósvífni hæstv. ráðherra húsnæðismála hér áðan er náttúrlega slík að engu tali tekur. Ef ég man rétt, þá starfar ríkisstjórnin í umboði Alþingis. Það minnir raunar á annað. Ég hef heyrt einstaka þingmenn úr stjórnarherbúðunum tala um það að kosningar verði ekki fyrr en í maímánuði. Þó er það svo samkvæmt stjórnarskrá að kosningar ber að halda í aprílmánuði. Nú er forsrh. ekki hér viðstaddur, og væri fróðlegt kannski að fá umræður um það líka nú, en auðvitað hlýtur landskjörstjórn að auglýsa kjördag ef ríkisstjórnin lætur það undir höfuð leggjast. Eins er það um ráðherra húsnæðismála. Hann verður að sætta sig við hvað eru lög í landinu og ég mælist til þess við forseta að hann sjái um að dreifing þessarar sérprentunar verði stöðvuð og félmrn. knúið til þess að hlíta landslögum.