Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um könnun á fjárveitingum úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins, sem ég flyt ásamt hv. 11. þm. Reykn.
    Till. var flutt í lok síðasta þings, mælt var fyrir henni en hún fór ekki til nefndar. En till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram könnun á því hvort ákvæði um Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins eða önnur ákvæði heimili fjárveitingar til bættra samgangna, vega, stórbrúa og jarðgangagerðar sem nauðsynlegs hluta varnarkerfis landsins. Jafnframt verði kannað hvort fordæmi eru fyrir fjárveitingum í öðrum ríkjum bandalagsins til samgangna, fjarskipta og flugvallargerðar af hálfu þess.``
    Í till. er fjallað um hluti sem í sjálfu sér verða að teljast til grundvallaratriða í vörnum hvers lands. Það er átt við greiðar og góðar samgöngur. Á það við hvort sem um er að ræða ástand á hættutímum eða í þágu almannavarna landsins, þar sem um er að ræða ráðstafanir sem allar þjóðir álfunnar hafa lagt mikla áherslu á að byggja upp, ekki aðeins vegna hugsanlegs hernaðarástands heldur einnig vegna annarrar almannahættu vegna náttúruhamfara, svo sem jarðskjálfta eða eldgosa sem hætta er á hér á landi öðrum fremur.
    Í umræðunum sem átt hafa sér stað hér á landi um varnir landsins hafa þessir þættir mála legið furðumikið í láginni af einhverjum ástæðum. Er það mjög til vansa hve við höfum vanrækt að koma hér upp öflugu almannavarnakerfi. Með öðrum þjóðum hafa almannavarnir og varnir landsins verið tengdar saman í mun meira mæli en hér á landi. Nægir í því efni að vitna til reynslu Norðmanna og samstarfs þeirra við Atlantshafsbandalagið á þessum sviðum. Þó er það svo, og það er mergurinn málsins, að mikið samstarf hefur átt sér stað milli varnarliðsins og íslenskra aðila á liðnum áratugum varðandi verklegar framkvæmdir. Nægir þar að nefna hina umfangsmiklu starfsemi Aðalverktaka, ríkasta félags landsins sem annast hefur yfirstjórn og framkvæmdir fyrir milljarða króna á hverju ári fyrir varnarliðið. Nýjasta dæmið um það er höfnin í Helguvík, ratsjárstöðvar, olíugeymar, flugskýli og íbúðarbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Leika þær framkvæmdir á 3 -- 4 milljörðum árlega. Slíkt hefur þótt eðlilegt og sjálfsagt enda eru þær framkvæmdir eðlilegur hlekkur í varnarstefnu landsins. Þær framkvæmdir hafa hins vegar verið í höndum fámenns verktakafélags sem einokunaraðstöðu hefur haft á þessum markaði.
    Það skýtur þess vegna mjög skökku við og sýnir málefnalega tvöfeldni, svo ekki sé meira sagt, þegar menn leggja blessun sína yfir slíkar framkvæmdir áratugum saman en kenna hugmyndir um eflingu samgangna, vega, brúa og jarðgangagerðar, sem gagnast almannavörnum og þjóðinni allri, við hermang og annað verra. Erfitt er að sjá rökvísina í málflutningi

þeirra sem þannig tala og lagst hafa á undangengnum árum gegn því að Mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins gangi til samninga við Íslendinga um önnur brýn varnarverkefni en þau sem Aðalverktakar hafa hingað til unnið fyrir varnarliðið. Hér er vitanlega um algjörlega sambærileg mál að ræða og því fásinna ein að kenna þær hugmyndir sem reifaðar eru í þessari till. við það að með því séu Íslendingar að hagnast óeðlilega á varnarliðinu sem hér dvelst í okkar þágu. Í slíkri gagnrýni felst ekkert annað en hræsni og yfirdrepsskapur á sama tíma og grænt ljós er gefið á byggingu nýrra ratsjárstöðva í öllum landsfjórðungum og byggingu hinnar stóru olíubirgðahafnar í Helguvík. Þetta ætti öllum að vera ljóst sem ofstækislaust líta á þessi mál.
    Til ítrekunar þessum orðum og gagnvart þeim rökum að dagar varnarbandalaga séu taldir eftir atburðina í Austur-Evrópu vil ég vitna í grg. till., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Flestir þeir sérfræðingar, sem um alþjóðamál fjalla, eru þeirrar skoðunar að sú mikla og merkilega þróun, sem átt hefur sér stað í ríkjum Austur-Evrópu síðasta missirið, muni ekki leiða til þess að varnarbandalög álfunnar verði lögð niður. Hlutverk þeirra muni hins vegar verða annað og breytt í framtíðinni. Þannig má gera ráð fyrir að með aukinni afvopnun stórveldanna á höfunum verði enn meiri þörf en nú er á virku eftirliti með því að slíkir alþjóðasamningar verði haldnir. Mikilvægi Norður-Atlantshafsins í þessum efnum mun ekki fara minnkandi. Eftir sem áður verður það mikilvægasta birgðaflutningaleiðin milli Ameríku og Evrópu. Hlutverk Íslands mun því að margra dómi verða enn þýðingarmeira en áður við eftirlitsstörf með umsvifum þeirra þjóða sem hér eiga í hlut. Atlantshafsbandalagið fær hér nýtt og aukið hlutverk á þessu sviði og engin ástæða er til að ætla að það hverfi af sjónarsviðinu af þessum sökum um alllanga framtíð. Aðild okkar að því mun áfram tryggja varnar - og öryggishagsmuni okkar í þeirri afvopnunarþróun sem nú er sem betur fer að hefjast.``
    Í grg. með þáltill. er nokkuð fjallað um hlutverk varnarbandalaga svo sem Atlantshafsbandalagsins í framtíðinni.
    Þegar till. var upphaflega flutt á síðasta Alþingi sáum við upphaf mjög merkilegrar þróunar í málefnum Evrópu sem hefur síðan leitt til algjörrar uppstokkunar og endurskipulagningar á því ríkja- og valdakerfi sem þar hefur ríkt allt frá styrjaldarlokum. Austur-Evrópu hefur nú hlotnast frelsi, þýsku löndin tvö eru sameinuð og Varsjárbandalagið hefur liðast sundur í kjölfar þessara merku og mikilvægu atburða. Það er hins vegar ljóst og því hefur verið lýst yfir af forustumönnum vestrænna ríkja að Atlantshafsbandalagið muni hafa áfram mikilvægu öryggishlutverki að gegna. Þá hugsa menn e.t.v. ekki síst um nauðsyn þess að halda friðinn í öðrum hlutum veraldar en Evrópu svo sem átökin við Persaflóa hafa undirstrikað. Ríki álfunnar bæði fyrir austan og vestan, ef svo má að orði komast, þurfa að hafa með sér samtök til þess að gæta slíkra sameiginlegra hagsmuna og eru í raun

túlkun á stefnumiðum hinna Sameinuðu þjóða. Um það hefur verið nokkuð rætt hvort ekki væri skynsamlegra að hverfa frá samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins og leggja þess í stað áherslu á að byggja upp ráðstefnuna og samtökin um öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu, RÖSE, sem þegar eru fyrir hendi. Engar líkur eru þó til þess að svo verði gert þótt þau samtök muni áfram gegna mikilvægu samráðshlutverki í öryggismálum svo sem ráðstefna leiðtoga þeirra í París nú nýverið undirstrikaði.
    Ég hygg að stefnan í þessum málum af hálfu okkar Íslendinga sé vel ljós. Hún kom raunar fram á mjög ótvíræðan hátt í umræðum um skýrslu utanrrh. um utanríkismál sem hér fóru fram þann 8. þessa mánaðar. Þar lýstu bæði fulltrúar ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu þeirri skoðun sinni að Atlantshafsbandalagið mundi áfram hafa mikilvægu hlutverki að gegna, ekki síst sem eftirlitsstöð, og þá yrði hlutverk Íslands ekki minna í þessum efnum en verið hefur. Þess vegna hníga öll rök að því að landið verði áfram aðili að bandalaginu sem fá mun nýtt hlutverk en engu ómerkara en verið hefur. Mikilvægi Íslands sem eftirlitsstöðvar verður ótvírætt og aðstaða bandalagsins hér á landi því íslensku þjóðinni mikilvæg í framtíðinni. Af þessum sökum er eðlilegt að horft sé til framtíðar þegar rætt er um Mannvirkjasjóð bandalagsins og það nýja hlutverk sem hann mun fá í þessum efnum.
    Þessu næst vil ég fara nokkrum orðum um vegamálin. En ástand þeirra gaf mér m.a. tilefni til flutnings þessarar till. Efni þáltill. hefði þó fyrir löngu þurft að vera komið til framkvæmda. Í vegamálum blasir við stórfelldur niðurskurður framkvæmda frá samþykktri vegáætlun þannig að ekki hefur horft eins illa um árabil. Gildir þar einu þó settar séu á blað tillögur um flýtingu á framkvæmdum án þess að nokkurt fjármagn standi þar á bak við. Það eru ný sannindi ef hægt er að stórflýta framkvæmdum í vegamálum á sama tíma og fé er stórskert til framkvæmdanna. Ef horft er aðeins til baka má minnast þess að 1981 sameinuðust þingmenn allra flokka á Alþingi um till. til þál. og að undirbúin skyldi langtímaáætlun í vegagerð. Höfðu legið fyrir þingunum þar á undan tillögur í vegamálum sem náðu nú fram að ganga í einni tillögu. Í henni voru sameinuð sjónarmið stjórnar og stjórnarandstöðu um fjármögnun hennar og þannig lagður góður grunnur að máli sem þingheimur sameinaðist um. Að loknum undirbúningi og á grundvelli fyrrnefndrar till. var lögð fram á þinginu 1982 -- 1983 till. um langtímaáætlun í vegagerð. Skyldi samkvæmt henni varið til vegamála á árinu 1983 2,2% af vergri þjóðarframleiðslu. Á árinu 1984 skyldi þetta hlutfall verða 2,3% en árin 1985 -- 1994 2,4%. Fjármagninu var skipt á þrjú tímabil á árunum 1983 -- 1984. Skipting útgjalda var og tímasett með sama hætti og skipti á verkefnum. Áætlunin skyldi endurskoðuð fjórða hvert ár og þá bætt við nýju fjögurra ára tímabili í stað þess sem lauk.
    Í tillögum sjálfstæðismanna frá 1978, sem tekið var tillit til við samningu langtímaáætlunar, er sett fram það markmið að leggja bundið slitlag á hringveginn,

tengingu í alla fjölbýlisstaði svo og fjölförnustu dreifbýlisvegi á næstu 10 -- 15 árum. Vegna óstöðugleika í stjórnarfari um þetta leyti var langtímaáætlun aldrei afgreidd. Eigi að síður hefur verið höfð hliðsjón af henni eins og hún hefði verið samþykkt.
    Þrátt fyrir þá samstöðu sem náðist um langtímaáætlun hefur brugðist að standa við fjármögnunina. Þannig voru fjárveitingar til vegamála árið 1982 1,76% af vergri þjóðarframleiðslu í stað 2,2% en er nú komið niður undir 1% í stað 2,4%. Þrátt fyrir takmarkað fjármagn til vega tókst þó að leggja á varanleg slitlög þessi árin eins og hér segir: Árið 1986 279 km, 1987 305 km, 1988 256 km, 1989 152 km og í ár, 1990, mun það vera í kringum 100 km. Er þetta slæm þróun síðustu tvö árin.
    Sem dæmi um hvernig að málum þessum hefur verið staðið í tíð núv. stjórnar er að á sl. ári voru 700 millj. kr. sem lagðar voru á umferðina teknar beint í ríkissjóðshítina. Eftir atvikum mátti þó una við framkvæmdir árið 1990 ef það hefði staðið sem samþykkt var í maí fyrir ári síðan. En því er ekki að heilsa. 1 milljarður var skorinn á árinu 1990 og annað eins stendur til að gera fyrir það ár sem í hönd fer.
    Ég vil þessu næst, með leyfi hæstv. forseta, vitna örfáum orðum í erindi sem einn af virtustu embættismönnum landsins, Helgi Hallgrímsson aðstoðarvegamálastjóri, flutti á mannvirkjaþingi árið 1990. Eftir að hafa skýrt frá áætlun um fjármögnun til framkvæmda 1990 segir hann:
    ,,Á föstu verðlagi er þetta heldur minna en var á síðasta ári. Á hinn bóginn er þetta miklu minna en vera átti á þessu ári, 1990, skv. vegáætlun sem samþykkt var á Alþingi sl. vor. Raunminnkun er um 1 milljarður kr. og veldur hún miklum höfuðverk hjá alþingismönnum um þessar mundir, en þeir þurfa að beita hnífnum óspart. Enn fremur veldur þetta miklum vanda hjá þeim sem undirbúa, skipuleggja og framkvæma eiga verkin.``
    Og enn fremur segir Helgi Hallgrímsson: ,,Þrátt fyrir lögboðna tekjustofna gengur ekki allt of vel að skapa festu í fjármálin. Stundum ákveður Alþingi að nota peningana í annað þrátt fyrir lögin, stundum skirrast menn við að hækka stofnana í takt við verðlagsþróun. Þetta skeður þrátt fyrir að vegáætlun sé æ ofan í æ samþykkt með þeirri stefnumörkun að nýta skuli tekjustofna til fulls og ráðast í nýja fjárfreka verkefnaflokka. Ein slík stefnumörkun var samþykkt við afgreiðslu vegáætlunar á Alþingi sl. vor [þ.e. vorið 1989]. Þar var ákveðið að ráðast af auknum krafti í ýmis stórverkefni, svo sem jarðgöng, stórbrýr og vegagerð á höfuðborgarsvæðinu. Miðað var við að fjármagn ykist að því marki að almenn vegagerð og bundin slitlög héldu sínum hlut að mestu. Var það reyndar grundvallaratriði vegna þess hve mikið er þar enn ógert. Þessi aukning skilar sér ekki á þessu ári eins og fram kom hér á undan. Væru tekjustofnar fullnýttir gæfu þeir 500 -- 700 millj. kr. í viðbót við það fjármagn sem nú er til umráða.``
    Í lok máls síns segir Helgi Hallgrímsson: ,,Tilgangur þessa mannvirkjaþings er að fá yfirlit um líklegar framkvæmdir á árinu 1990. Mig langar þó í lokin að skyggnast aðeins lengra. Í Vegagerðinni höfum við reynt að meta þörf fyrir fjárfestingu í vegamannvirkjum á næstu 20 árum. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu vegakerfisins: Höfuðborgarsvæðið 15 milljarðar, jarðgöng 14 milljarðar, stórbrýr og fjarðarþveranir 3 milljarðar, stofnbrautir, önnur verkefni 21 milljarður, þjóðbrautir 16 milljarðar, samtals 69 milljarðar. Sum þessara verkefna eru mjög brýn og öll æskileg. Sé miðað við að ljúka þessu á 20 ára tímabili þarf 3,5 milljarða á ári.``
    Helgi Hallgrímsson heldur áfram: ,,Hafa ber einnig í huga að útgjöld vegna þjónustu í vegakerfinu, reksturs þess og viðhalds mun fara vaxandi á næstu árum. Ljóst er því að nýta verður núverandi tekjustofna til fulls. Jafnframt verður að huga að nýjum tekjuöflunarleiðum. Má þar nefna veggjald eins og verið hefur til umræðu í Hvalfirði eða svæðisbundið bensíngjald eins og rætt hefur verið um í tengslum við jarðgöng á Vestfjörðum. Í hugum okkar Vegagerðarmanna er ekki vafi á því að kröfur til vegakerfisins og þjónustunnar þar munu fara vaxandi á næstu árum. Til að standast þær kröfur þarf verulega aukið fjármagn.``
    Á síðasta vori var samþykkt vegáætlun fyrir 1989 -- 1992 skorin niður um tæpan milljarð. Fyrirhugað er að hafa sama háttinn á fyrir árið 1991, þ.e. að skera hátt í milljarð í viðbót. Sporin hræða og þessi niðurskurður er gerður með einu pennastriki án þess að stjórnarliðar blikni. Að þessu sögðu er ekki ástæða til, nú þegar fyrir liggur að stjórnvöld hafi hálfgefist upp við að leysa fjárhagsvanda samgangna á landi, að horfa til fleiri tekjustofna og þá að minnast þess að með góðum samgönguleiðum um land allt eru raunverulegar varnir og almannavarnir landsins tryggðar.
    Virðulegur forseti. Ég vil að lokum leggja til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. utanrmn.