Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Sú þáltill. sem við flytjum hér, hv. 3. þm. Suðurl. og ég, um könnun á fjárveitingum úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins er löngu þörf tillaga. Það hefði verið mjög áhugavert að hafa hér á Alþingi til umræðu hvaða fjármunum er varið til þessara hluta og hefur verið varið og hvort við hefðum haft aðgang að þeim, sem að sjálfsögðu hefði verið ef við hefðum verið aðilar að Mannvirkjasjóðnum, en ég tel að við séum ekkert verri en Norðmenn. Þeir hafa gert sér ljóst mikilvægi varna á norðurslóðum og vegna smæðar þjóða hefur þessi sjóður m.a. verið settur upp til þess að styrkja mannvirkjagerð á þeim stöðum þar sem ekki eru fjármunir fyrir hendi til að koma slíkum mannvirkjum upp.
    Það var athyglisvert sem hæstv. utanrrh. sagði og það gleður mig að heyra að hann sé að gera því skóna að það sé möguleiki á því að þessi könnun verði gerð og henni verði lokið fyrir þinglausnir í vor. Það væri óneitanlega fróðlegt að sjá hvað hér er á ferðinni og við gætum þá tekið afstöðu til þess hvort Alþingi Íslendinga óskar eftir því að gerast aðili að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Reyndar hef ég orðað það áður í ræðu á Alþingi að það væri nauðsynlegt að vera það. Þar sem við erum fullgildir aðilar að Atlantshafsbandalaginu, þá hljótum við að taka þátt í öllu því starfi sem þar fer fram og við þurfum ekkert að vera hræddir um það. Ef fjármunir eru þar á lausu til að styrkja samgöngur hér á landi, þá eigum við auðvitað að falast eftir því fjármagni og vera óhræddir við það.
    Þessi tillaga fjallar hins vegar fyrst og fremst um könnun á þessum málum og eins að kannað verði fordæmi um fjárveitingar til samgangna almennt í þessu sambandi. Ég tel mjög mikilsvert að ef Ísland er þátttakandi í alþjóðasamstarfi þá tökum við þátt í því heils hugar og án þess að vera hræddir við það að fá fjármuni frá þeim stofnunum ef það á annað borð er okkur til hagsbóta. Við eigum auðvitað að ganga með fullri reisn í slíkt samstarf og ég held að það hefði verið miklu meiri reisn yfir þessu samstarfi í gegnum árin ef við hefðum ráðið okkar mannvirkjagerð sjálfir og stýrt þeim í stað þess að það hefur ávallt verið svo að þau mannvirki sem hér hafa verið byggð hafa farið beint í gegnum bandaríska herinn sem er auðvitað ekki það sem við hefðum óskað eftir.
    Ég vil ekki á þessu stigi segja öllu meira en þetta en þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau orð sem hann lét hér falla og á von á því að hann muni styðja það að þessi könnun verði gerð og lögð fyrir þingið í vor.