Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu snýst kannski fyrst og fremst um það hvort hæstv. forsrh. sagði rétt frá á sl. sumri þegar hann lýsti því yfir við þjóðina að það væri meiri hluti á hinu háa Alþingi fyrir þeim bráðabirgðalögum sem hann ásamt sinni ríkisstjórn hæstv. ákvað að setja þegar fyrir lá dómsniðurstaða félagsdóms vegna máls sem varð til þegar árekstur varð á milli ríkisstjórnarinnar hæstv. og launþegasamtakanna BHMR. Hæstv. forsrh. sagði þá að það væri meiri hluti á hinu háa Alþingi. Sú yfirlýsing hlaut að þýða að það væri meiri hluti í hv. neðri deild. Nú hefur það verið upplýst að tveir hv. þingmenn, annar þeirra er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, hann hefur þegar talað í viðkomandi máli, hinn er hv. þm. Geir Gunnarsson, báðir þessir hv. þm. hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn bráðabirgðalögunum. (Gripið fram í.) Báðir hafa lýst því yfir. Ég sagði báðir hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn bráðabirgðalögunum. (Gripið fram í.) Það er mitt orðalag hér og við það vil ég standa. Það liggur fyrir --- og ég ætla að endurtaka þetta því það virðist hafa farið fram hjá forseta og hv. þm. Geir Gunnarsson heyrir til mín, hann situr hér og getur þá gert athugasemd við þau orð sem ég segi hér. Ég held því fram að þeir tveir hv. þm. sem ég nefndi hafi lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn bráðabirgðalögunum. Ef það er ekki rétt sem ég segi hér þá geta þeir auðvitað leiðrétt það og munu væntanlega gera það ef ástæða er til hér í þessari umræðu. Ef það fer síðan svo að hv. þm. Stefán Valgeirsson greiðir atkvæði gegn þessum bráðabirgðalögum hefur komið í ljós að meiri hluti sá sem hæstv. forsrh. minntist á er ekki fyrir hendi á hinu háa Alþingi og það er það sem skiptir afar miklu máli þegar þetta mál er rætt.
    Hæstv. forseti sameinaðs þings, Guðrún Helgadóttir, hefur flutt hér tillögu sem mér finnst ástæða til að samþykkt verði þegar við þessa umræðu þar sem ég er sammála öllum þeim atriðum sem komu fram í ræðu hæstv. forseta sameinaðs þings. Ég vil bæta því við sem frekari málsástæðu að það mun ekki vera hægt fyrir umboðsmann að taka fyrir mál sem þriðji aðili bendir á að þurfi að taka fyrir því að annaðhvort verður umboðsmaður að taka það mál upp hjá sjálfum sér ellegar að sá sem málið varðar verður að beina því til umboðsmanns Alþingis. Þetta kemur glöggt fram í 5. gr. laganna þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða af sjálfs sín frumkvæði. Kvörtun getur hver sá borið fram við umboðsmann sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum.``
    Þess vegna getur Alþingi ekki beint þessum tilmælum til umboðsmannsins, enda er umboðsmaðurinn sjálfstæður eins og kemur greinilega fram í 4. gr. laganna og hæstv. forseti minntist á. Einu rangindin sem hér gætu hafa átt sér stað er það að hæstv. forsrh. hafi farið rangt með þegar hann var að telja sauðina sína í hv. Nd. og talið hv. þm. Stefán Valgeirsson með í meiri hlutanum. En nú hefur hv. þm. Stefán Valgeirsson lýst því yfir að hann treysti sér ekki til þess að greiða atkvæði með bráðabirgðalögunum nema fyrir liggi umsögn umboðsmanns og sú umsögn verður aldrei lögð fyrir því það er ómögulegt, eins og rakið hefur verið í mjög skýru máli, síðast hjá hæstv. forseta.
    Það er þess vegna alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. og framsögumanni og flm. þessa máls að aðalatriðið er að siðferðilega var rangt að þessum málum staðið. Það sagði hv. þm. sjálfur og hv. þm. getur ekki skotið sér á bak við umboðsmann Alþingis. Þetta mál er fyrir dómstólum og hv. þm. verður að segja það sem einn af hv. þm. stjórnarliðsins sem mun hafa verið talinn með þegar var verið að reikna út meiri hlutann í hv. deild --- og vitna ég þá til hæstv. forsrh. --- hann verður að
segja frá því, helst ekki seinna en við þessa umræðu, hvort hann styður bráðabirgðalögin eða ekki. Það er útilokað fyrir hv. þm. að skjóta sér á bak við umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður Alþingis mun aldrei leggja fram skýrslu í þessu máli því að hann hefur ekki heimild til þess samkvæmt þeim lögum sem Alþingi samþykkti og samkvæmt þeirri reglugerð sem Alþingi samþykkti sem þál. á sínum tíma en var síðan birt sem reglugerð í Stjórnartíðindum.
    Þetta vildi ég, hæstv. forseti, að kæmi fram. Ég vil að öðru leyti taka undir það sem hæstv. forseti Sþ. sagði hér í sínu máli og tel fyllstu ástæðu til þess að styðja þá tillögu sem fram hefur verið lögð um það að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.