Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. flm. þeirrar tillögu sem hér er til umræðu að þingmenn hafa auðvitað heimild til þess að flytja hvaða mál sem þeir óska inn á Alþingi, hvort sem það er í frumvarpsformi eða formi þáltill. Hins vegar er svo með það mál sem við ræðum nú að í fyrsta lagi er það með öllu óþinglegt að Sþ. vísi því til umboðsmanns Alþingis. Það dæmi gengur bara ekki upp. Fyrir því eru rök sem ég ætla ekki að fara með. Ég vil þó benda hv. þm. á það að embætti umboðsmanns Alþingis er fyrst og fremst fyrir almenning í landinu til þess að leita réttar síns gagnvart lögum, gagnvart framkvæmdarvaldinu o.s.frv. Ég hygg að það yrði býsna mikið aðhlátursefni ef Alþingi Íslendinga, sameinað þing, þyrfti að vísa máli til umboðsmanns Alþingis til þess að fá úrskurð hans á því.
    Í öðru lagi, og það sem í mínum huga vegur enn þyngra, er þetta mál fyrir bæjarþingi Reykjavíkur og er rekið þar sem dómsmál. Það er gersamlega útilokað að umboðsmaður Alþingis geti gefið út úrskurð sinn í máli sem nú er fyrir dómstólum þessa lands. Það gengur alls ekki upp.
    Ég vildi benda hv. þm. á það að í 41. gr. þingskapa er heimild fyrir þingmanninn til að draga þetta mál til baka. Og ég vildi nú gjarnan að hann hugsaði það áður en frávísunartillagan kemur til atkvæða að hann dragi þetta mál til baka. Í 41. gr. þingskapa segir:
    ,,Frv., hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og till. til þál. og brtt. má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill.``
    Ég geri það að tillögu minni, svo ekki þurfi að ganga atkvæði í Sþ. um þessa þáltill., að hv. 6. þm. Norðurl. e. dragi hana til baka. Ég hygg að það væri langsamlega besta lausnin á þessu máli og þá færu menn allir nokkuð heilskinnaðir frá þessum leik.