Framleiðsla vetnis
Mánudaginn 26. nóvember 1990


     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vona nú að hv. atvmn. fjalli um þessa tillögu og taki afstöðu til hennar, án þess að taka sérstaklega tillit til þeirra orða hæstv. iðnrh. að henni yrði vísað beint til ríkisstjórnarinnar. Ég tel mjög eðlilegt að Alþingi fjalli um þessa tillögu og hún verði samþykkt og vona ég að svo verði.
    Ég vil samt þakka hæstv. iðnrh. fyrir það sem hann talaði um varðandi tillöguna. Ég tel það mjög mikilvægt að tekið verði á þessu máli og því verði sinnt á vettvangi ríkisstjórnarinnar.
    Að sjálfsögðu tel ég mjög mikilvægt að stjórnvöld geri það ekki eingöngu innan ráðuneytisins, heldur að einnig verði höfð samvinna við Háskóla Íslands og við þá vísindamenn sem þar hafa unnið og þeim verði gert kleift að sinna þessum rannsóknum í samvinnu við erlenda háskóla. Auðvitað er mikilvægt að Landsvirkjun og iðnrn. og aðrir komi líka inn í þetta mál en það verður þó að virða sjálfstæði vísindamannanna en styðja þá eins mikið og mögulegt er.
    Ég tel mjög mikilvægt að við verðum þátttakendur í þessum tilraunum og rannsóknum sem verið er að gera varðandi vetnisframleiðslu. Ég tel ekki nægjanlegt að við fylgjumst einungis með hvað verið er að gera. Við þurfum að vera virkir þátttakendur. Í því sambandi langar mig til að minnast á það að þessi tilraun sem verið er að gera í samvinnu Evrópufyrirtækja er fyrst og fremst í Þýskalandi, þótt að sjálfsögðu sé hægt að kalla það Evrópubandalagið því að það hefur styrkt þetta líka. Tilraunin með Hamborg og Kanada er tilraun sem við væntanlega getum ekki komist inn í þar sem búið er að taka svo mikið af ákvörðunum. Mínar heimildir segja að búið sé að semja um kaup á 100 mw. af raforku. Það sé búið að ákveða að fara út í þetta verkefni og þar af leiðandi sé ekki hægt fyrir okkur að taka beinan þátt í því. Hins vegar hafa Þjóðverjar og þau fyrirtæki sem taka þátt í þessari tilraun áhuga á að halda áfram með þetta verkefni og gera tilraunir á þessu sviði eftir að þessu lýkur. Þá getum við mjög gjarnan verið virkir þátttakendur.
    Ég tel að við verðum að taka þátt. Við erum mjög háð innflutningi á eldsneyti fyrir okkar fiskiskipaflota. Breytingar eru mjög skammt undan. Það er ekki spurning um það. Tíu ár er ekki langur tími. Við verðum að vera með. Þetta er bara handan við hornið og við getum ekki beðið með hendur í skauti þangað til eftir tíu til fimmtán ár og sagt: Við erum nú búin að vera að fylgjast með en nú þurfum við e.t.v. að gera eitthvað hér á landi og breyta skipum, bílum og öðru. Við verðum að byrja nú þegar.
    Ég veit ekki hvaða heimildir hæstv. iðnrh. vitnar í þegar hann segir að ekki sé búið að ákveða neitt varðandi þetta verkefni. Þær heimildir sem ég hef segja að þarna sé um tilraun að ræða sem nú þegar er búið að ákveða að fara út í.
    Varðandi sprengihættu af vetni þá er hún auðvitað fyrir hendi, sem og sprengihætta af öðru eldsneyti. Það er auðvitað veruleg sprengihætta einnig af bensíni og öðru eldsneyti sem við notum hér. Það er líka sprengihætta af vetni en hún er ekki talin verulega mikið meiri en af bensíngeymum. Að sjálfsögðu þarf samt að hafa það í huga og það þarf að hafa sterkari geyma til að geyma fljótandi vetni en annað eldsneyti. Það er hluti af kostnaðinum. Bæði þarf að hafa stærri geyma og þá þarf að hafa sterkari.
    Það er alveg ljóst og flestir eru mér sammála um að það sé mjög líklegt að vetni verði eldsneyti framtíðarinnar. Við verðum þar af leiðandi að taka virkan þátt í tilraunum og þó svo að við gætum ekki verið útflytjendur á vetni í miklu magni þá mundi það strax vera mjög hagkvæmt fyrir okkur að geta sparað að flytja inn alla þá olíu og bensín sem við þurfum, bæði á fiskiskipaflotann og bílaflotann.
    Ég tel á allan hátt jákvætt það litla sem ætlað er að gera hér á landi og iðnrn. hefur gert í þessu máli. Ég get ekki annað en lýst ánægju minni með það og endurtek það sem ég sagði áðan að auðvitað er ég ánægð með að sjá að það skuli vera teknar frá fjárhæðir á fjárlögum fyrir rannsóknir varðandi vetni en ég hefði viljað sjá þá upphæð miklu hærri.