Grunnskóli
Þriðjudaginn 27. nóvember 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. menntmrh. er þetta frv. nú flutt í annað sinn. Frv. til laga um grunnskóla var flutt á síðasta vorþingi og urðu þá mjög ítarlegar umræður um það í 1. umr. hér í þessari hv. deild. Ég get því sagt eins og hv. ráðherra að ég þarf ekki að fara mjög ítarlega ofan í frv., grein fyrir grein. Ég gerði það í langri ræðu í aprílmánuði sl. og tel því ekki ástæðu til að gera það nema í nokkrum atriðum sem ég tel veigamikil.
    Ég vil þó áður en ég ræði um það víkja að því að á vegum Sjálfstfl. hafa verið fluttar hér á Alþingi á þessu kjörtímabili allmargar brtt. við grunnskólalögin. Innan Sjálfstfl. hafur farið fram mjög mikið starf í sambandi við skólamál. Ég minni í því sambandi á samþykktir landsfundar flokksins bæði árið 1987 og 1989. Sem angi af því þá var mjög mikilvægt starf unnið í þessum efnum á vegum sérstakrar nefndar sem Þorsteinn Pálsson, hv. 1. þm. Suðurl., skipaði þegar hann var forsrh. Sú nefnd hét Samstarfsnefnd ráðuneyta um fjölskyldumál og átti að vinna tillögur í samræmi við ítarlegan kafla í málefnasamningi þeirrar ríkisstjórnar um málefni fjölskyldunnar. Formaður þeirrar nefndar var Inga Jóna Þórðardóttir. Nefndin skilaði áfangaskýrslu um skóla- og dagvistarmál. En þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók við völdum var þessi nefnd lögð niður og hefur verið unnið að þessum málum með öðrum hætti síðan. En frá því þessi skýrsla var gefin út hafa þingmenn Sjálfstfl. flutt frumvörp og tillögur um málefni grunnskólans sem eru byggð á þessu nefndaráliti. Helstu atriðin í tillögum sjálfstæðismanna eru eftirfarandi:
    1. Skólaskylda sex ára barna, en um hana voru samþykkt sérstök lög hér á Alþingi á sl. vori, í fullu samkomulagi allra flokka, og var frv. um það sérstaklega flutt af menntmn. neðri deildar.
    2. Lenging daglegrar skólavistar.
    3. Almenn heimild til forskóla fyrir fimm ára börn.
    4. Nákvæmari ákvæði um einkaskóla.
    6. Aukin samvinna foreldra og skóla.
    7. Níu mánaða skóli hjá öllum og samfelldur skóladagur.
    Þetta vildi ég rifja upp áður en ég ræddi frv. sem hér liggur fyrir sérstaklega. Ég gat þess áðan að um þetta mál hefðu farið fram mjög ítarlegar umræður í aprílmánuði og þá kom ég á framfæri athugasemdum við allmargar greinar frv. Ég sé, eftir að hafa farið yfir frv. núna, að það hefur tekið verulegum breytingum og ég vil segja til bóta. Ég sé að það hefur verið tekið tillit til mjög margra þeirra athugasemda sem ég og reyndar ýmsir aðrir hafa gert við frv. og ég tel að hæstv. ráðherra hafi gengið mjög til móts við ýmis þau sjónarmið sem hafa verið reifuð á hv. Alþingi og fagna því. Þó eru enn atriði sem mér finnst rétt að gera nokkuð að umtalsefni.
    Veigamesta breytingin er auðvitað í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ég held að ég hafi sagt eitthvað á þá leið, þegar þetta mál var til umræðu hér í

vor, að svo virtist sem lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefði ekki borist menntmrn. því að mér fannst að í frv., eins og það lá þá fyrir, væri ekkert tillit tekið til þeirrar nýskipunar sem samþykkt var á Alþingi vorið 1989. Nú hefur það hins vegar gerst. Þessi lög hafa greinilega borist ráðuneytinu og það breytt frv. í þá veru að tekið er tillit til hinnar nýju verkaskiptingar.
    Ég ætla aðeins að fjalla nokkuð um einstakar greinar frv. og vek athygli á því að í 3. gr. eru enn orð sem ég felli mig ekki alveg við og tel að ræða eigi sérstaklega hvort halda eigi inni í frv., en það eru orðin ,,Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé heildstæður og einsetinn``. Ég tel að huga eigi dálítið betur að þessu orði, heildstæður, sem þýðir auðvitað að stefnt skuli að því að hver skóli hafi alla aldursflokka innan sinna vébanda. Þetta er greinilega stefna sem hlýtur þá að verða framfylgt, en um þetta eru mjög skiptar skoðanir í hópi skólamanna. Við höfum t.d. smábarnaskóla hér eins og við þekkjum, skóla Ísaks Jónssonar, svo að ég nefni dæmi. Við skulum t.d. líta á eitt af okkar nágrannasveitarfélögum, Garðabæ, þar sem ekki er heildstæður skóli og mér skilst á forráðamönnum þess skóla að þeir eigi erfitt með að hugsa sér að breyta því fyrirkomulagi sem þar er og telji það mjög til bóta að hafa unglingana í sérstöku skólahúsnæði en yngri börnin í öðru. Þetta tel ég að þurfi að ræða nokkuð betur í nefndinni.
    Í 10. gr. er fjallað um samstarfsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga um framkvæmd laga þessara. Þetta er nýmæli, eins og hæstv. ráðherra gat um í sinni ræðu hér áðan, og tel ég það mjög til bóta og auðvitað viðurkenningu á því að þetta er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að reka grunnskólakerfið og því nauðsynlegt að samskipti þar á milli séu eins greið og mögulegt er og aðilar viti hvor af öðrum í þessu sambandi.
    Í 12. gr. er fjallað um fræðsluráðin og hlutverki þeirra er allmikið breytt eins og fram kemur í grg. með frv. Ég vek athygli á því að það þarf auðvitað að kanna sérstaklega þær aðstæður sem eru hér í Reykjavík. Reykjavíkurumdæmi er eitt fræðsluumdæmi, þ.e. eitt fræðsluumdæmi í einu sveitarfélagi, og er það alveg einstakt því að fræðsluumdæmin ná, að Reykjavík undantekinni, yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Þess vegna tel ég að ræða þurfi það sérstaklega hvernig fara eigi með Reykjavík að þessu leyti og vek athygli á að hér í Reykjavík starfar bæði fræðsluráð, sem hefur verið á vegum ráðuneytisins, og svo sérstakt skólamálaráð, sem hefur verið á vegum sveitarfélagsins. Þarf að kanna það við borgaryfirvöld hvort ekki sé hægt að sameina starfsemi þessara ráða.
    Ég fagna því að nú er breytt fyrirkomulag um kosningu í fræðsluráð. Þetta er fyrst og fremst samráðsvettvangur og hlutverki þess hefur verið breytt frá því sem var í frv. áður.
    Í 17. gr. frv. finnst mér að þurfi að huga betur að þeirri sérreglu sem þarna er óneitanlega verið að setja fyrir Reykjavík, þ.e. um skólahverfin. Sú sérregla sem þarna er sett er að sveitarfélag sem rekur tvo eða

fleiri grunnskóla telst eitt skólahverfi séu íbúar færri en 10 þús. Fjölmennari sveitarfélögum skal skipta í skólahverfi og annast viðkomandi sveitarstjórn þá skiptingu með samþykki menntmrn. Miða skal við að íbúar í hverju skólahverfi séu að jafnaði ekki fleiri en 15 þús. Ég hygg að ekkert sveitarfélag annað en Reykjavík muni falla undir þessa reglu og þess vegna þurfi mjög nána samvinnu við Reykjavíkurborg um það hvernig þetta verði framkvæmt.
    Í 19. gr. er fjallað um skólanefndir. Þar hafa orðið á allmiklar breytingar frá því í frv. í vor. Þá voru í frv. flóknar reglur um kjör skólanefndarmanna. Þær hafa nú verið felldar brott og vísað til sveitarstjórnarlaga um kjör skólanefnda. Það tel ég mjög til bóta.
    Ég vil vekja athygli á að í 20. gr. er fjallað um starfsemi eða verkefni skólastjóra og það skilgreint. Það tel ég gott. Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar og ber ábyrgð á starfi hans undir yfirstjórn menntmrn. Hann hefur í starfi sínu samráð við kennara, skólanefnd og fræðslustjóra. Hér er sem sagt um að ræða almenna stefnuyfirlýsingu um að skólastjóra beri að hafa í starfi sínu samráð við kennara, skólanefnd og fræðslustjóra. Ég er alveg sammála þessu orðalagi eins og það er í frv. En ég vek athygli á því að á nokkrum stöðum í frv., og mun nefna dæmi um það á eftir, er hnykkt á þessu, að skólastjóri þurfi sérstakt samráð við kennara um ákveðnar, tilteknar ákvarðanir. Mér finnst það draga úr þessu almenna stefnuákvæði sem þarna er að tilgreina það sérstaklega um vissar ákvarðanir og reyndar draga úr valdi skólastjórans, sem mér finnst ekki ástæða til að gera. Ég tel þvert á móti að við eigum að setja fulla ábyrgð á skólastjóra varðandi þær ákvarðanir sem hann þarf að taka en ekki að draga úr henni.
    Ég vek enn athygli á því sem ég gerði þegar þetta mál var til umræðu hér í fyrravetur, sem er smámál, ég tek það alveg skýrt fram, en það fer óskaplega í taugarnar á mér að menntmrn. skuli þurfa að staðfesta nafngift skóla. Það stendur hér að skólanefnd geri tillögu um nafn skóla, menntmrn. staðfestir nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar. Ef menn eru að hugsa um valddreifingu á annað borð, af hverju eiga skólarnir og sveitarstjórnir ekki að hafa vald til þess að gefa skólum sínum nafn? Hvers vegna þarf að leita til menntmrn. um staðfestingu á því og áskilja með lögum að leita þurfi umsagnar örnefnanefndar? Þetta eiga heimamenn auðvitað að ákveða og þeir eiga að ráða því sjálfir hvort þeir vilja leita til örnefnanefndar. En eins og ég sagði, þetta er auðvitað ekkert stórmál en mér finnst þó mál af þessu tagi stinga nokkuð í augu.
    Í 30. gr. er fjallað um ráðningu skólastjóra. Menntmrn. ræður skólastjóra að fengnum rökstuddum tillögum og umsögnum skólanefnda, kennararáðs og fræðslustjóra sem í hlut eiga. Ég óttast dálítið að kennararáð veiti umsagnir af þessu tagi. Ég held það sé einmitt mjög nauðsynlegt fyrir margar stofnanir að fá stjórnendur að utan og ég held það séu mjög litlar líkur á því að kennararáð í ákveðnum skóla sé reiðubúið að taka við skólastjóra frá öðrum skóla eða

utanaðkomandi ef starfsmaður viðkomandi skóla gefur kost á sér til starfans. Ég held að reynslan sýni þetta. Þess vegna tel ég að vafasamt sé að áskilja umsagnir af því tagi sem þarna er gert ráð fyrir.
    Í 33. gr. er fellt út það ákvæði að menntmrn. staðfesti ráðningu kennara og annarra starfsmanna sem var í fyrra frv. Nú er það fræðslustjóri sem á að staðfesta ráðningu kennara og annarra starfsmanna. En maður spyr auðvitað sjálfan sig: Af hverju ekki að stíga skrefið til fulls? Af hverju þarf slíka staðfestingu? Það er auðvitað sjálfsagt að skólastjóra beri að tilkynna til fræðslustjóra um ráðningar slíkra starfsmanna en mér finnst það ekki í anda valddreifingar að skólastjóri og skólarnir skuli ekki sjálfir alfarið ákveða slíkar ráðningar.
    Í 34. gr. er fjallað um námsráðgjafa. Þetta er nýmæli og tel ég það mjög mikilvægt, ekki síst í efri bekkjum grunnskóla, eins og umræður hafa nýlega farið fram um hér á hv. Alþingi, þar sem ljóst er að úr grunnskólum í framhaldsskóla koma margir nemendur sem þar eru augljóslega á villigötum. Og þá væntanlega vegna þess að þeir hafa ekki átt kost á nægilegri ráðgjöf í sambandi við hvaða kostir henta þeim best í framhaldsskólum.
    Í 36. gr. er fjallað um að fræðslustjóri auglýsi stöður skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna grunnskóla sem teljast ríkisstarfsmenn. Það er auðvitað sjálfsagt að fræðslustjóri auglýsi stöður skólastjórnenda, eins og það heitir, þetta er ekki fallegt orð og vitnar vafalaust til þess að þarna er átt við bæði skólastjóra og svo aðstoðarskólastjóra, en maður spyr sjálfan sig: Hvers vegna þarf fræðslustjóri að auglýsa stöðu kennara og annarra starfsmanna grunnskóla? Af hverju ekki að dreifa þessu valdi til skólanna sjálfra þannig að þeir fara bæði með auglýsinga - og ráðningarvaldið?
    Í 38. gr. er vald skólastjóra skert. Þar er dæmi um það sem ég gat um áðan. Í 20. gr. er almennt ákvæði um samráð við kennara. Það er síðan ítrekað af og til varðandi einstakar ákvarðanir í lögunum en hérna stendur: ,,Fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp í grunnskóla skal skólastjóri velja umsjónarkennara í samráði við kennararáð eða kennarafund.`` Þarna er augljóslega verið að draga úr valdi skólastjóra sem mér finnst vafasamt.
    V. kaflinn fjallar um starfstíma grunnskóla og reglulegur starfstími er níu mánuðir. Það kemur í ljós, eins og fram kemur í greinargerð og hæstv. ráðherra gat um áðan og ég skal ekki ítreka hér, að þessu er nokkuð misjafnt farið. Þó hefur þróunin mjög verið í þá átt að allir skólanemendur fái níu ára skóla en betur má ef duga skal í þeim efnum og þetta ákvæði er í fullu samræmi við sérstaka þáltill. sem við nokkrir þingmenn Sjálfstfl. fluttum um þetta mál á síðasta þingi.
    Í 45. gr. er fjallað um daglegan og vikulegan kennslutíma. Þar er rætt um að kennslutími skuli að lágmarki vera eins og þar greinir. Hér er sem sagt kveðið á um lágmark. Ég vek athygli á að í því frv. sem þingmenn Sjálfstfl. fluttu var notað hugtakið ,,sem

næst`` og nokkuð hærri viðmiðunartölur nefndar. Það finnst mér rétt að athuga dálítið nánar í nefnd.
    VI. kafli frv. fjallar síðan um námsskrá og kennsluskipan og þar hafa verið gerðar nokkrar breytingar, þó fyrst og fremst að því er snertir ákvæði um námsskrána, aðallega breytingar á uppsetningu. Það er fjölgað greinum. Í 47. gr. eru tilgreind áhersluatriði í starfi skóla. Ég minnist þess að í minni ræðu hér í fyrra vakti ég sérstaka athygli á áliti kennslumálanefndar Háskóla Íslands á þessum greinum, þ.e. 47. og 48. gr. eins og númerin eru nú, og kom fram nokkur gagnrýni á þær. Ég rakti þetta nokkuð ítarlega í minni ræðu þá og skal ekki ítreka það hér en tel nauðsynlegt að nefndin athugi það sérstaklega.
    Kennslumálanefndin var enn fremur með ákveðnar breytingartillögur um hvernig þetta ætti að orðast og mér fannst að hennar tillögur eða hennar hugmyndir um orðalag væru betri og skýrari en það sem fram kom í frv. þá og virðist vera endurtekið hér meira og minna óbreytt núna.
    Ég vek sérstaka athygli á því að í 48. gr. fara út úr frv. miðað við núgildandi lög hugtök eins og Íslandssaga, landafræði og mannkynssaga og ég staldra dálítið við þessa breytingu í ljósi þess ágreinings sem varð í íslenska skólakerfinu, t.d. um Íslandssögu og samfélagsfræðina og þessa svokölluðu samþættingu hér fyrir nokkrum árum. Orðalag g - liðs 48. gr. er mjög loðið að þessu leyti. Þar stendur að í aðalnámsskrá skuli setja ákvæði um ,,mannlegt samfélag, samfélagshætti, umheim og umhverfi nær og fjær í fortíð og nútíð, einkum með hliðsjón af Íslandi``. Kennslumálanefnd Háskóla Íslands hefur viljað að sett væri ákvæði um ,,fræðslu um mannlegt samfélag og umhverfi í fortíð og nútíð, um Íslandssögu, mannkynssögu, samfélagshætti, landafræði, kristinfræði, siðfræði og um önnur helstu trúarbrögð``. Mér fellur mun betur þetta orðalag sem þarna kemur fram og tel nauðsynlegt að athuga þetta mál í nefnd.
    Í 50. gr. er síðan vikið að máli sem hefur verið allmikið í opinberri umræðu að undanförnu og hæstv. ráðherra gerði mjög ítarlega grein fyrir í ræðu sinni hér áðan, enda er mjög nákvæmlega farið ofan í þetta mál í greinargerð, þ.e. um námsgögn og hver skuli láta þau í té og hver sé svo niðurstaðan varðandi greiðslur fyrir slík gögn. Í stórum dráttum má segja að í frv. sé það staðfest að Námsgagnastofnun láti nemendum í skyldunámi í té ókeypis námsgögn. Þá er skólum ekki heimilt að krefja nemendur um fé til efniskaupa sem falli undir almennan rekstur skóla. Opinberum aðilum er hins vegar ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota sem eru talin upp hér í greinargerð. Dæmi um slíkt eru stílabækur, reikningsbækur, blýantar o.s.frv.
    Í greinargerð segir: ,,Í samræmi við þessar niðurstöður er tekið af skarið um það í 50. gr. frv. að nemendur í skyldunámi skuli ekki greiða fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem þeim er gert skylt að nota.`` Þetta þýðir í raun að skólar eiga að fá öll námsgögn frá Námsgagnastofnun eða fyrir milligöngu hennar. Þetta finnst mér vera of fortakslaust. Við

þekkjum það að vafalaust í öllum skólum hafa kennarar útbúið námsefni fyrir sína nemendur. Ég held að tvær meginástæður séu fyrir því að kennarar hafa gert þetta. Önnur er sú að vöntun hefur verið á námsefni og þá hafa kennarar hlaupið undir bagga og látið það í té. Við skulum vona að úr því verði bætt. Hin ástæðan er vafalaust önnur og ekki síður mikilvæg og það er sköpunargleði kennaranna. Enginn vafi er á því að kennarar hafa í mjög stórum stíl útbúið efni til uppfyllingar í kennslu og þannig komið sínum persónulegu kennsluaðferðum á framfæri. Ef við erum að tala um valddreifingu í skólakerfinu, ef við erum að tala um sjálfstæði skóla, ef við erum að tala um sjálfstæði kennara í störfum, þá er það afleitt að taka þetta frá kennurunum, að þeir megi ekki undir nokkrum kringumstæðum útbúa námsefni af þessu tagi. Fyrir það er tekið með þessu ákvæði eins og það er orðað þarna í lögunum. Þetta er í raun, ég vil segja ofsaleg miðstýring á námsefni í skólum. Ég tel alveg nauðsynlegt að nefndin fari rækilega ofan í þetta mál því að ég tel að þarna sé verið að ganga, ég vil segja á hefðir í skólanum, ég tala nú ekki um t.d. smábarnaskólanum, ef á alveg að taka fyrir að kennarar geti útbúið námsgögn af þessu tagi.
    Í VII. kafla, virðulegi forseti, er fjallað um réttindi og skyldur nemenda, síðan kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu og um námsmat. Varðandi kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu vara ég aðeins við því að stefnt sé að því að fræðsluskrifstofurnar séu gerðar að miklum báknum. Mér sýnist vera dálítil hætta á mikilli útþenslu í þeirri starfsemi eins og frv. lítur út og mér finnst að menn þurfi að hafa það í huga að kennarar eru sérfræðingar á sínu sviði, eru með sérfræðimenntun í kennslu og við ættum að varast að vanmeta hæfni þeirra og koma upp einhverju flóknu eftirlits - og ráðgjafarkerfi fyrir kennara. Það er nauðsynlegt á sumum sviðum, en ég hygg að við megum ekki ganga of langt í þá átt.
    Í 72. gr. eru ákvæði um einkaskóla. Ég gerði athugasemdir við það ákvæði eins og það var orðað í frv. í apríl og geri enn athugasemdir við það. Ég vek athygli á að það orðalag sem fram kom í frv. þingmanna Sjálfstfl. sem flutt var af Ragnhildi Helgadóttur og fleirum á 112. löggjafarþingi, 27. máli, var miklu betra og skýrara. Það er nýmæli samkvæmt þessu frv. að ráðherra þurfi að samþykkja skólagjöld í einkaskólum. Hann þarf ekki að gera það nú og hefur reyndar engar heimildir til þess samkvæmt núgildandi grunnskólalögum. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að hann eigi að samþykkja skólagjöld, þau séu háð samþykki hans, en jafnframt að einkaskólar eigi ekki kröfu til styrks af almannafé. Í rauninni er ráðherra settur í þá stöðu að geta sett einkaskóla gjörsamlega á kné. Við höfum reyndar dæmi um það, að vísu ekki skóla sem hefur verið starfandi en dæmi um skóla sem sótt var um að setja á stofn, þ.e. svokallaðan miðskóla í Reykjavík fyrir um 1 1 / 2 ári síðan. Þá var skólanum fyrst synjað um framlög úr ríkissjóði. Þar með var skólinn settur í þá stöðu, ef hann ætlaði að geta starfað, að þurfa að hækka sín skólagjöld en þá

var honum synjað um leyfið á þeim grundvelli að skólagjöldin væru of há þannig að þarna var raunverulega búinn til vítahringur sem gengur auðvitað ekki upp. Ákvæði af þessu tagi þarf þess vegna að mínu mati að skoðast betur í nefnd.
    Í 74. gr. eru ákvæði um nemendafjölda í bekk. Ég er í miklum vafa um að rétt sé að setja ákvæði af þessu tagi í lög. Þetta á auðvitað að vera þáttur í sjálfstæði skólanna, að taka ákvarðanir af þessu tagi, hversu margir nemendur séu í hverri bekkjardeild. Aðstæður eru svo ótrúlega mismunandi eftir stöðum og skólum út um allt land að ég hygg að mjög vafasamt sé að setja slík ákvæði í lög. Ég vil þó vekja athygli á að ef á annað borð eru sett ákvæði af þessu tagi í lög, þá held ég að huga þurfi dálítið betur að sex ára börnunum í þessu sambandi. Í leikskóla eru að jafnaði svona þrjár fóstrur á 22 börn. Það gæti verið atriði í framkvæmd að möguleiki sé á að hafa fleiri kennara eða jafnvel fóstrur til aðstoðar í bekkjum sex ára barna. En sjálfsagt er að athuga það mál betur í nefnd.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú farið hér yfir nokkrar greinar frv., greinar sem ég sá ástæðu til að gera athugasemdir við. Sumt af því er ítrekun á því sem ég sagði hér þegar frv. eða sambærilegt frv. var til umræðu í vor. Ég ítreka að frv. hefur tekið breytingum til bóta í mörgum greinum þó að enn sé ástæða til að gera vissar athugasemdir.
    Ég vil að lokum fjalla örlítið um sjálfstæði skóla og valddreifingu. Hæstv. ráðherra hefur lagt mikla áherslu á það í sínu máli, gerði það reyndar strax í vor, að þetta væri frv. valddreifingar, frv. til að færa vald frá ráðuneytinu til sveitarfélaga og skóla. Ég sýndi fram á það í vor að svo var ekki í raun varðandi það frv. sem þá var til umræðu vegna þess að valdinu var ekki dreift heldur haldið hjá ráðuneytinu. Í mesta lagi var það fært út til fræðsluskrifstofa sem nú eru orðnar einhvers konar útibú frá ráðuneytinu þannig að raunverulega var ekki mikið vald fært yfir til sveitarfélaga eða skóla. Þessi útgáfa á frv. er þó betri að þessu leyti en sú útgáfa sem við höfðum í vor.
    Það er hins vegar alveg ljóst að ráðuneytið er mjög hikandi í því hversu langt eigi að ganga í að veita skólum meira sjálfstæði. Í því sambandi vil ég vitna í það rit sem hæstv. ráðherra vitnaði í hér áðan, þ.e. drög að framkvæmdaáætlun menntmrn. í skólamálum til ársins 2000 sem gefin hefur verið út í menntmrn. núna í þessum mánuði og var afhent þingmönnum fyrir nokkrum dögum síðan. Þar er sérstakur kafli um sjálfstæði skóla. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Með auknu sjálfstæði og aukinni ábyrgð skóla er hér m.a. átt við að skólar hafi svigrúm til þess að fara eigin leiðir og skapa sér ákveðna sérstöðu á eigin ábyrgð og öðlast þar með meiri metnað til að gera vel.``
    Þetta eru góð orð og falleg stefnumörkun, en ef maður les áfram sér maður það mikla hik sem er á ráðuneytinu í þessum efnum því síðar í þessum sama kafla segir, með leyfi forseta:

    ,,Það er álit menntmrn. að talsverð miðstýring sé nauðsynleg í grunnskólakerfinu til þess að tryggja öllum nemendum jafna aðstöðu til náms og auðvelda nemendum að fara á milli skóla. Það er engu að síður álit ráðuneytisins að stefna skuli að því að auka sjálfstæði og ábyrgð skóla um framkvæmd og útfærslu daglegs skólastarfs innan laga og aðalnámsskrár í þeim tilgangi að bæta starfið í skólum. Ljóst er að ákveðnum breytingum verður ekki miðstýrt þannig að tryggt sé að árangur náist, svo sem með samskiptum og með samvinnu kennara, viðhorfsbreytingum, breyttum kennsluháttum, endurmenntun kennara o.s.frv.`` Síðan segir aftar í þessum kafla: ,,Til þess að ná þessu markmiði [þ.e. um aukið sjálfstæði skóla] vill ráðuneytið stíga eftirtalin skref er varða rýmkun viðmiðunarstundaskrár, rýmkun á möguleikum skóla til að ráðstafa framlögum til sérkennslu, þróunarsjóð grunnskóla, aukna leiðsögn við skóla og kennara.``
    Allt yrði þetta gott og blessað og vissulega skref í átt til sjálfstæðis skóla en þetta eru ekki stór eða djarflega stigin skref í átt til skólasjálfstæðis. Ég held að þess vegna sé alveg ljóst af því sem hér segir, og eins og maður hefur fylgst með þróun þessa frv., að hjarta ráðuneytisins slær með miðstýringu í skólamálum en á móti kemur kall tímans um aukna ábyrgð skóla og aukið sjálfstæði þeirra, ekki bara sjálfstæðisins vegna, heldur vegna þess að menn trúa því, ég hef trú á því, að með því að veita skólunum sjálfstæði náum við betri árangri. Þá fáum við betri skóla og náum betri árangri í skólastarfi.
    Ég vitnaði í, þegar við töluðum um þetta hér í vor, nýjar breytingar sem hafa verið gerðar í Danmörku, og reyndar skilst mér að svipaðar breytingar hafi verið gerðar í Svíþjóð núna ekki alls fyrir löngu, þar sem ráðuneytinu er ætlað það eitt að hafa eftirlit,
gefa út reglugerðir, gefa út viðmiðunarstundaskrár
og annað þess háttar, en sveitarfélögin taka síðan alfarið yfir rekstur skólanna. Og ekki nóg með það, heldur taka sveitarfélögin yfir launasamninga við kennarana sem ég held að sé mjög mikilvægt mál einnig.
    Mér er auðvitað ljóst að við stígum ekkert slíkt skref á þessari stundu í okkar skólamálum. Ég held að það þurfi að eiga sér stað miklu ítarlegri viðræður við sveitarfélögin og tryggja aðferðir til þess að jafnrétti verði til náms hvort sem menn búa í litlu eða stóru sveitarfélagi. Ég er hins vegar alveg sannfærður um það að sú verður þróun hér hjá okkur að við stígum sömu spor eins og allar nágrannaþjóðir okkar gera í þessum efnum og ég er alveg sannfærður um það að við komumst aldrei út úr þeirri miklu sjálfheldu, sem launamál og kjaramál kennara eru í og hafa verið í um alllangt skeið, fyrr en við leysum upp þetta miðstýrða launakerfi sem við búum nú við á vegum ríkisins og að það verði samið í miklu smærri einingum, ég segi ekki í einstökum skólum, en alla vega að það verði sveitarfélögin sem taki þann þátt mála að sér.
    Þetta segi ég hér og ítreka að ég geri mér grein fyrir að við afgreiðum slíkt mál ekkert hér á þessu

þingi í tengslum við afgreiðslu á þessu grunnskólafrv. en ég vildi engu að síður setja þessar hugleiðingar mínar hér fram.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla meira um þetta frv. en mun að sjálfsögðu í menntmn. koma með ýmsar fleiri athugasemdir sem mér þykir rétt að gera við frv. en þótti ekki ástæða til þess að tefja fund með hér nú í hv. deild.