Byggðastofnun
Miðvikudaginn 28. nóvember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Skýrslu Byggðastofnunar var dreift í lok síðasta þings, en þá vannst ekki tími til þess að fjalla um hana eins og lög gera ráð fyrir. Er það því gert nú og hefur henni verið dreift á ný á borð þingmanna og vísa ég til hennar um ýmsan fróðleik í þessu sambandi.
    Byggðastofnun í núverandi mynd var sett á fót haustið 1985 og var þá arftaki byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins eins og hv. þm. þekkja. Það er meginverkefni Byggðastofnunar að stuðla að hagkvæmri þróun byggðar í landinu og má segja að verkefnið sé tvíþætt. Annars vegar er hún umfangsmikil lánastofnun en hins vegar þróunarstofnun og vegna ýmissa erfiðleika sem verið hafa í rekstri atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni þá hefur alveg sérstaklega starfsemi stofnunarinnar á fyrrgreinda sviðinu, þ.e. lánasviðinu, verið mjög umfangsmikil. Hún hefur veitt fjölmörg lán til að forða því að neyðarástand skapaðist á ýmsum stöðum á landsbyggðinni og reyndar má segja að hún hafi í mörgum tilfellum verið framkvæmdaraðili vegna aðgerða stjórnvalda fyrir útflutningsatvinnuvegina og þá einkum sjávarútveginn. Þessar aðgerðir hafa verið fjármagnaðar fyrst og fremst með erlendum lántökum og á sl. ári þurfti stofnunin að afskrifa 243 millj. kr. af kröfum sínum, hlutafé og ábyrgðum og hefur hún aldrei þurft að afskrifa jafnháa upphæð á einu ári. Það ár tók stofnunin einnig við A - hluta skírteinum Hlutafjársjóðs fyrir 169,2 millj. kr.
    Eins og ég sagði áðan hefur þessi starfsemi fyrst og fremst verið fjármögnuð með lántökum. Frá árinu 1981 hafa lántökur yfirleitt numið um 2 / 3 af lánveitingum hvers árs og er hér tekin með einnig starfsemi byggðadeildar Framkvæmdastofnunar eins og fram kemur á ártalinu, en þetta hlutfall hefur þó hækkað nokkuð jafnt og þétt. Á árinu 1989 voru lántökurnar 14% hærri heldur en lánveitingar en það stafaði m.a. af því að á því ári var notuð heimild til að taka erlend lán til að greiða upp eldri og óhagstæðari lán að upphæð samtals 464,1 millj. kr. Sé sú upphæð dregin frá námu nettólántökur stofnunarinnar 1 milljarði 338,1 millj. kr. eða 84% af lánveitingunum.
    Á lánsfjárlögum fyrir árið 1989 var Byggðastofnun heimilað að taka erlend lán til almennra verkefna stofnunarinnar að upphæð 550 millj. kr. Á innlendum lánsfjármarkaði var stofnuninni heimilað að taka 275 millj. kr. Síðan fékk stofnunin ýmsar heimildir til sérstakra verkefna sem ég ætla að fara nokkuð yfir.
    Til aukinna verkefna innlendra skipasmíðastöðva var heimild til 200 millj. kr. erlendrar lántöku og 150 millj. kr. sérstök lántaka vegna fiskeldis. Þá var í lánsfjárlögum heimilt að taka ný erlend lán til að greiða upp eldri óhagstæðari lán eins og ég nefndi áðan og var það gert í fyrsta skiptið þá. Með samkomulagi við Framkvæmdasjóð Íslands nýtti stofnunin 100 millj. kr. lántökuheimild sjóðsins vegna fiskeldis. Stofnunin átti þá einnig ónotaða erlenda lántökuheimild að upphæð 180 millj. kr. frá fyrra ári vegna

skuldbreytinga í sjávarútvegi. Ríkisstjórnin fól einnig á því ári stofnuninni að aðstoða smábátaeigendur vegna greiðsluerfiðleika þeirra og í því skyni var stofnuninni veitt heimild til erlendrar lántöku að upphæð 100 millj. kr. Undir lok ársins fékk stofnunin heimild til 350 millj. kr. erlendrar lántöku sem ekki var reyndar notuð fyrr en eftir áramótin.
    Þegar allt þetta er talið til, þá námu erlendar lántökuheimildir stofnunarinnar á árinu 1989 rúmum tveimur milljörðum kr. en erlend lán sem tekin voru, voru 1 milljarður 670 millj. kr. og heimild Byggðastofnunar á innlendum lánsfjármarkaði nam 275 millj. kr. en samtals nam lánsfjármögnun innlend 132 millj. kr.
    Starfsemi Byggðastofnunar hefur verið með svipuðum hætti og fyrr. Starfsmenn hennar eru samtals 34 eða voru á árinu 1989 og þar af eru fjórir í hlutastarfi. Sameiginlegt starfslið er nokkuð með Framkvæmdasjóði Íslands vegna umsjónar með húsnæði, sameiginlegrar tölvu, mötuneytis o.s.frv.
    Vergur rekstrarkostnaður Byggðastofnunar árið 1989 var samtals 119,1 millj. kr. og hafði vaxið þá um 24,4% frá fyrra ári. Nokkur kostnaðarþátttaka er í rekstri stofnunarinnar frá Atvinnutryggingarsjóði, Lánasjóði Vestur - Norðurlanda, Norðurlandaráði o.s.frv. og þegar það er dregið frá er nettórekstrarkostnaður stofnunarinnar þetta ár 103 millj. kr.
    Þess má geta að Byggðastofnun hefur komið sér upp aðsetri á Akureyri og frá sl. sumri einnig á Ísafirði. Er það liður í þeirri viðleitni stofnunarinnar að koma á fót stjórnsýslustöðvum um landsbyggðina og er Akureyrarstöðin sú fyrsta en vísir kominn, eins og ég sagði, að slíku útibúi á Ísafirði. Tvímælalaust er þetta afar mikilvægur liður í því að færa þjónustu til landsbyggðarinnar.
    Byggðastofnun hefur á árunum 1989 og 1990 einnig farið með rekstur og reikningshald Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og sömuleiðis rekstur og reikningshald Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Báðar þessar stofnanir starfa sem sjálfstæðar stofnanir með sjálfstæðri stjórn en falla nú um þessi áramót undir Byggðastofnun.
    Af því sem ég hef nú rakið um miklar lánveitingar stofnunarinnar og lántökur í því skyni þá er nauðsynlegt að líta nokkuð á efnahag hennar sem er vissulega erfiður. En það er rétt að geta þess áður að á árinu 1989 námu lánveitingar stofnunarinnar 1 milljarði 586 millj. kr., styrkveitingar voru þá 50 millj., hlutabréf voru keypt fyrir 90 millj. og það sem af er þessu ári nú er búið að afgreiða 1200 millj. kr. í lán og 100 millj. kr. í styrki. Fyrir liggur samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar að afgreiða a.m.k. 50 millj. kr. í styrki til viðbótar á þessu ári og 200 millj. kr. í lán. Hlutabréf hafa verið keypt á þessu ári fyrir 50 millj. kr.
    Um síðustu áramót var niðurstaða efnahagsreiknings Byggðastofnunar 9 milljarðar 852,4 millj. kr. og hafði hækkað um 42,9% á árinu. Eigið fé stofnunarinnar var 1 milljarður 820 millj. kr. Er þá tekið tillit til 295 millj. kr. færslu á afskriftareikning útlána og hlutafjár. Eigið fé óx um 10,8% á árinu 1989. Hlutfall eigin fjár stofnunarinnar af heildareign var 24,3% í upphafi ársins 1989. Þegar gert var upp í árslok var niðurstaðan sú að þetta hlutfall hafði lækkað í 18,9%. Þessi mikla lækkun er framhald langtímarýrnunar á hlutfalli eigin fjár. Lækkunin stafar annars vegar af miklum lántökum stofnunarinnar en hins vegar af því hversu mikið hefur verið lagt til hliðar í afskriftareikninga til að mæta óhjákvæmilegum töpum. Á mælikvarða lánskjaravísitölu rýrnaði eigið fé Byggðastofnunar á sl. ári um 176,4 millj. kr. eða 8,8%.
    Á þessu ári er búið að afskrifa 109 millj. kr. og stefnir nú í að afskriftasjóður, sem var 250 millj. kr. í ársbyrjun, verði tómur um áramót. Stofnunin hefur nú samtals tekið við 188,5 millj. kr. í A-hluta skírteinum frá Hlutafjársjóði og 550 millj. kr. í B-hluta skírteinum. Áætlað eigið fé þann 31. okt. er 1 milljarður 870 millj. kr. eða 50 millj. kr. hærra en í ársbyrjun en þegar tekið er tillit til 80 millj. kr. gjalda vegna verðbótaþáttar er tapið á eigin fé 30 millj. kr. Og miðað við að setja 500 millj. kr. í afskriftasjóð, sem er talið nauðsynlegt vegna mikilla björgunaraðgerða stofnunarinnar, yrði tap ársins 530 millj. kr. og eigið fé fellur þá í 1240 millj. kr. eða 12% af niðurstöðutölum efnahagsreiknings. Það má geta þess að þegar stofnunin tók til starfa 1. okt. 1985 var þetta hlutfall 33%.
    Af þessari hröðu yfirferð yfir lántökur og lánveitingar og efnahag stofnunarinnar hygg ég að hv. þm. eigi að vera ljóst að þar hefur vissulega mjög hallað undan fæti og ljóst, eins og ég mun koma að síðar, að grípa verður til aðgerða til að lagfæra eiginfjárstöðu stofnunarinnar. En áður en ég kem að því þykir mér rétt að fara nokkrum orðum almennt um þróun byggðar í landinu, ekki síst þar sem hlutverk stofnunarinnar á næstu árum hlýtur að sjálfsögðu mjög að mótast af því.
    Eins og komið hefur fram í mjög ítarlegri vinnu sem unnin var af stofnuninni að beiðni forsrn. til að kanna þróun byggðar og birt var í sérstakri skýrslu sem allir hv. þm. fengu þá varð veruleg breyting á þróun byggðar á síðasta áratug. Eftir að á áratugnum 1970 -- 1980 hafði fjölgun á landsbyggðinni á ýmsum árum þá orðið jafnvel meiri en í þéttbýlinu hefur þetta snúist algjörlega við og hefur síðan hallað mjög undan fæti. Á árinu 1989 t.d. fjölgaði þjóðinni að vísu minna en árið á undan en þetta stafaði af því að það ár fluttu fleiri frá landinu en hingað gagnstætt því sem verið hafði árið áður. Heildarfjölgun í landinu var það ár um 0,7% eða 1761 maður. Í búferlaflutningum til útlanda töpuðust 610 manns. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði hins vegar um 1986 manns eða um 1,4% og sést af þessu að fækkunin varð mjög mikil á landsbyggðinni. Nokkuð dró úr fólksflutningum innan lands á árinu. Þó varð nettótala brottfluttra umfram aðfluttra frá landsbyggðinni 1140 manns, eða um 1% af íbúafjölda. Þess má jafnframt geta um árið í ár að samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands um búferlaflutninga fyrstu átta mánuði þessa árs er í fyrsta lagi nettótap vegna millilandaflutninga um 443 og er það nokkuð minna en var fyrir sama tímabil fyrra árs. En

nettótap landsbyggðarinnar í innanlandsflutningum var hins vegar orðið 714 manns og þó að það kunni að verða eitthvað minna en á síðasta ári þá mun þar ekki muna miklu á.
    Um þetta má vitanlega hafa mörg orð. Ég skipaði hins vegar í upphafi ársins sérstaka byggðanefnd og fól henni að skoða stefnu og áherslur í byggðamálum með tilliti til þessarar þróunar sem ég hef nú lauslega rakið en ég veit að er öllum þingmönnum vel kunn. Þessi nefnd er skipuð fulltrúum allra þingflokka. Nefndin hefur unnið mikið starf, leitað upplýsinga um land allt og ráðgast við fjölmarga aðila sem að einhverju leyti tengjast þeim málum sem áhrif geta haft á byggðarþróun. Nefndin hefur ekki enn lokið starfi en ég geri ráð fyrir því að ég fái fljótlega frá henni hennar tillögur. Það sem ég vil því segja um breyttar áherslur í þessum málum er því fyrst og fremst frá eigin brjósti en þó styðst ég við það sem ég hef m.a. heyrt, t.d. á ráðstefnu sem ég sat á vegum þessarar nefndar í Borgarnesi þar sem haldin voru fjölmörg erindi um þetta mál og af þeim blöðum sem ég hef fengið frá nefndinni.
    Í fyrsta lagi þá er óhjákvæmilegt að jafna enn frekar en gert hefur verið framfærslukostnað um landið allt. Þetta hefur verið gert á ýmsum sviðum, t.d. eru olíuvörur á sama verði um land allt og sömuleiðis landbúnaðarvörur, en svo er ekki um ýmsar aðrar nauðsynjar og það sem einna helst er nefnt í því sambandi er orkuverð. Þess vegna hefur iðnrh. nú á grundvelli þáltill. sem hér var flutt skipað sérstaka nefnd til að skoða á hvern máta megi jafna orkuverð um landið. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að þetta getur ekki verið mjög flókið mál því eins og ég sagði, okkur hefur tekist að jafna aðra hluti, orkan er jafnframt frá hinum ýmsu landshlutum og eðlilegt að þeir landshlutar njóti hagstæðs verðs ekki síður en þeir sem jafnvel fjærst liggja. Ég á því von á því að frá þessari nefnd, sem vinnur að athugun á jöfnun orkuverðs, komi fljótlega tillögur um hvernig það verður gert.
    Þá er enginn vafi á því að það þarf að efla opinbera stjórnsýslu um landið. Ég nefndi það áðan að stjórnsýslustöðvar eru á verkefnaskrá Byggðastofnunar og ein slík er þegar komin á fót. Það þarf að vinna að því að koma þeim víðar og ef ekki tekst að flytja stofnanir frá höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðina, sem hefur reynst afar erfitt af ýmsum ástæðum sem hv. þm. þekkja, þá er þarna a.m.k. leið til þess að dreifa þjónustu þeirra stofnana um landsbyggðina. Ég veit að það er fullur vilji til þess að gera það þegar slíkar stofnanir koma á fót, m.a. er það nú í athugun hjá hæstv. félmrh. að þjónusta Húsnæðisstofnunar verði veitt sem víðast um landið, a.m.k. í hverju kjördæmi, og það hygg ég að sé hægt að gera á ýmsum öðrum mikilvægum sviðum opinberrar þjónustu.
    Þá hefur það nú mjög komið til umræðu að skipta landinu, kannski ekki formlega en a.m.k. verkefnalega, í atvinnu- og þjónustusvæði. Möguleikar til samvinnu á slíkum svæðum og samstarfs á fjölmörgum sviðum hafa gjörbreyst með stórbættum samgöngum og ég hygg að það muni vera staðreynd að víða hefur t.d. verslunin ekki brugðist eins skjótt við þessu og rétt hefði verið en það er nú mjög að breytast víða um landið. Á slíkum þjónustusvæðum þarf að velja þann stað sem best hentar til að veita sem mesta alhliða þjónustu við það svæði og það ber að efla þann stað með öllum ráðum, m.a. stjórnsýslumiðstöðvum Byggðastofnunar en einnig með flutningi atvinnufyrirtækja þangað eins og frekast er unnt.
    Ég ætla að taka sem dæmi Akureyri sem ég hygg að flestir séu sammála um að sé best í stakk búin til þess að verða mótvægi gegn þéttbýlinu hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar er menntamiðstöð, þar er kominn háskóli og enginn vafi á því að með því að efla þann háskóla og færa honum verkefni þá mun það hafa mjög mikil áhrif, ekki aðeins á Akureyri heldur á miklu stærra svæði þar um kring. Sjútvrh. hefur þegar fært þangað útibú Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og í sambandi við athugun sem nú fer fram á því að koma hér á fót alþjóðlegri rannsóknastofnun til rannsókna á mengun Norður-Atlantshafsins er gert ráð fyrir að ef úr verður verði sú stofnun á Akureyri og þá tengd háskólanum. Við þennan háskóla er einnig sjálfsagt að styrkja og efla kennslu í ákveðnum greinum matvælaiðnaðarins eins og nú er unnið þar að á vegum sjávarútvegsins og það mun allt hafa hinar jákvæðustu afleiðingar á þessu svæði. Allt slíkt mun skapa betra andrúmsloft fyrir ýmsar atvinnugreinar sem geta þá leitað nálægt sér eftir þeirri þekkingu sem þörf er á á hverju sviði. En sömuleiðis er óhjákvæmilegt að athuga hvaða smærri fyrirtæki má staðsetja á landsbyggðinni án þess að það séu einhverjir ókostir sem koma í veg fyrir það og að þessu er unnið víða um land, m.a. á Norðausturlandi og víðar. Að því er unnið af ráðgjöfum sem staðsettir eru víða um landið.
    Sú hugmynd hefur vaknað að ekki væri óeðlilegt að kanna hvort vel útbúnar upplýsingar um ýmsa kosti, sem eru víða á landsbyggðinni ekki síst á slíkum þéttbýlisstöðum, gætu ekki orðið til þess að stuðla að samstarfi við erlenda fjármagnsaðila um rekstur smærri fyrirtækja sem nota sér slíka aðstöðu og þá kosti sem þar eru fyrir hendi. Þetta nefni ég sem eðlileg atriði í myndun þjónustu- og atvinnusvæða um landsbyggðina en mikilvægast er að að þessu sé unnið markvisst, svæðin skilgreind, samgöngur innan svæðanna bættar sem allra mest og sömuleiðis fjarskipti öll innan svæðanna.
    Ég vil nefna í þessu sambandi að Byggðastofnun er nú að ósk forsrn. að láta fara fram athugun á því hvort færa megi jafnvel í allstórum mæli fjarvinnsluverkefni sem svo eru kölluð eða tölvuverkefni til landsbyggðarinnar. Nútímafjarskipti gera það í raun mjög auðvelt. Það skiptir ekki miklu máli hvort sá sem vinnur slíkt verkefni situr á Akureyri, Höfn í Hornafirði eða Ísafirði. Þetta fer um glerleiðarann eða með símmyndum á milli á augabragði. Þegar er nokkur slík starfsemi hafin, m.a. hefur viðskrn. látið allstórt verkefni til Norðvesturlands og nú er í athugun hvort ekki megi flytja fleiri slík verkefni á landsbyggðina.

    En ég tel að afar mikilvægur þáttur í þessari viðleitni hljóti að verða Byggðastofnun, hún hljóti að verða sú miðstöð sem styrkir og eflir hvern einasta þátt sem getur orðið til að snúa við þeirri óhagstæðu þróun sem verið hefur.
    Eins og ég sagði áður þá hefur Byggðastofnun verið mjög önnum kafin við björgunaraðgerðir í erfiðri atvinnustöðu víða á landsbyggðinni og má segja að það hafi bitnað á hinu verkefninu sem ég gat um í upphafi míns máls, þ.e. þróunarverkefni Byggðastofnunar. Óhjákvæmilegt er ef vinna á að þessu á skipulagðan máta að bæta eiginfjárstöðu stofnunarinnar og tryggja henni fjármagn til atvinnuþróunar sem verði skipt á milli landshluta að mati Byggðastofnunar eins og möguleikarnir eru á hverjum stað. Sömuleiðis kann að vera nauðsynlegt að Byggðastofnun geti orðið þátttakandi í stofnun smærri fyrirtækja á landsbyggðinni með einhverju áhættufjármagni, með hlutafé og sömuleiðis er áreiðanlega nauðsynlegt að Byggðastofnun reki sjálfstæða rannsóknastarfsemi sem beinist að því að kanna þá möguleika sem eru til slíkrar atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.
    Ég ætla nú ekki að rekja meira. Það eru ýmsar hugmyndir sem komið hafa fram í þeirri umræðu sem verið hefur um byggðamálin, en ég geri ráð fyrir því að í skýrslu byggðanefndar verði slíkar hugmyndir sem ég hef nú rakið og ýmsar fleiri, og ég geri mér vonir um að ég geti flutt þau mál hér inn á Alþingi í einni mynd eða annarri á því þingi sem nú situr.
    Eins og þegar hefur verið rakið er fjárhagur Byggðastofnunar mjög erfiður nú. Ríkisstjórnin hefur lagt til á frv. til fjárlaga að framlag til Byggðastofnunar verði aukið úr 200 í 250 millj. kr. Það hefur aukist nokkuð ár frá ári, en mætti eflaust vera töluvert meira. Í fjárlögum ársins 1989 fékk Byggðastofnun 125 millj. kr., en í fjáraukalögum í lok þessa árs var ákveðið að hækka framlag stofnunarinnar um 50 millj. kr. og var það þá samtals 175 millj. kr. En á árinu sem er nú að líða er framlag til stofnunarinnar 200 millj. kr. Stofnunin hefur sjálf farið fram á að fá 700 millj. kr. framlag og fært rök fyrir því, bæði með nauðsyn þess að bæta eiginfjárstöðu stofnunarinnar og til þess að gera stofnuninni kleift að taka myndarlega þátt í
þeim þróunarverkefnum sem eru bæði í skoðun á vegum starfsliðs stofnunarinnar og sömuleiðis á vegum þeirrar byggðanefndar sem ég hef áður getið um.
    Ríkisstjórnin mun gera tillögu til fjvn. um að ríkissjóður yfirtaki einhver lán frá stofnuninni. Ég hef fengið frá stofnuninni yfirlit um það sem þar kæmi til greina og er það nú í athugun í fjmrn. og mun verða fjallað um það í ríkisstjórninni einhvern næstu daga.
    Á næstunni verður mikil breyting á starfsemi stofnunarinnar, bæði vegna þess að við gerum okkur vonir um að hún geti í vaxandi mæli og reyndar verður hún í vaxandi mæli að geta sinnt þeim þróunarverkefnum sem ég hef nú rakið. Þótt hún haldi áfram þeim björgunaraðgerðum, sem eflaust verða nauðsynlegar á ýmsum sviðum, þá getur þungi þeirra minnkað og áherslan orðið meiri á nýsköpun og þróun nýrra

atvinnugreina á landsbyggðinni, þjónustu á hverju sviði og reyndar þróun hverrar þeirrar aðstöðu sem hverjum manni er nauðsynleg á landsbyggðinni ekki síður en á þéttbýlissvæðinu.
    Sömuleiðis færast til stofnunarinnar um þessi áramót bæði Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og sömuleiðis Hlutafjársjóður Byggðastofnunar. Þar með verður innan Byggðastofnunar veruleg og reyndar mjög mikil fjárhagsleg þátttaka í rekstri atvinnufyrirtækja um land allt. Ljóst er að skoða þarf skipulag Byggðastofnunar með tilliti til þessa og því hef ég skipað menn til að skoða þau mál og gera tillögur um breytt skipulag Byggðastofnunar og geri mér vonir um að geta flutt á þessu þingi, þó ekki fyrr en eftir áramót, frv. til laga um þær breytingar sem nauðsynlegar teljast á skipulagi stofnunarinnar.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þetta lengra. Ef einhverjar spurningar koma fram þá mun ég leitast við að svara þeim en mun ljúka þessum orðum mínum með því að leggja áherslu á að Byggðastofnun hefur vissulega til þessa sannað sitt gildi og sína tilveru. Byggðastofnun hefur verið ómetanlegur vettvangur þar sem erfiðleikar landsbyggðarinnar hafa verið ræddir. Ég ætla alls ekki að segja hér að allt það sem Byggðastofnun hefur gert í því sambandi hafi tekist, því fer í raun víðs fjarri, og vel má vera að í sumum tilfellum hafi verið teflt á tæpasta vaðið. En ég er sannfærður um að allt hefur það verið gert í þeim góða tilgangi að bjarga frá þeirri vá sem oft hefur verið fyrir dyrum í ýmsum byggðarlögum landsins og í langflestum tilfellum hefur tekist einmitt að gera það og koma í veg fyrir meiri háttar atvinnuleysi og brottflutninga. Engu að síður hafa þeir verið nokkrir enda aðstaða breytt.
    Á áratugnum 1970 -- 1980 færðum við út fiskveiðilögsöguna. Þá voru uppgrip um landið allt og tekjur meiri á landsbyggðinni en á þéttbýlissvæðinu. E.t.v. hefur það átt hvað stærstan þátt í þeirri þróun sem þá varð, að fólksfjölgunin varð meiri þar en í þéttbýlinu. Síðan þetta var hefur margt breyst. Samgöngur hafa stórkostlega batnað og þarf ég ekki að fara mörgum orðum um það. Það þekkja allir. Sömuleiðis hafa fjarskipti stórlega batnað, kominn sjálfvirkur sími á hvern stað og hvern bæ, símsendar eða símbréfsendar o.s.frv. Margir töldu í upphafi síðasta áratugar að þetta væru þau atriði sem mikilvægust væru til að halda jafnvægi í byggð landsins en í ljós hefur komið að það hefur ekki reynst nóg. Hitt er svo alveg ljóst að þessi stórbætta aðstaða hlýtur að gera stórum auðveldara en annars hefði verið að snúa við þróun síðustu ára. Ég tel að á þessum grundvelli sé nú hægt að starfa af krafti og Byggðastofnun hlýtur að vera sú stofnun sem hefur veg og vanda af því starfi.