Byggðastofnun
Miðvikudaginn 28. nóvember 1990


    Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar fjölgaði íbúum í Reykjavík og á Reykjanesi um 24.000 manns á árabilinu 1980 -- 1989. En í öðrum landshlutum var á sama tíma nánast engin fjölgun, þ.e. ef þessir aðrir landshlutar eru teknir sem ein heild kemur í ljós að þar er fjölgunin aðeins 400 manns.
    Fjölgun fólks á suðvesturhorninu var meiri en sem nemur samanlögðum fjölda í tveimur kjördæmum landsins, á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Utan suðvesturhornsins er sem sagt stöðnun og bein afturför á þessu tímabili. Það er líka eftirtektarvert þegar tölur eru skoðaðar frá Hagstofu að utan suðvesturhornsins eru nú orðið verulega miklu fleiri karlar en konur. Þannig eru karlar 3.400 fleiri en konur á svæðinu frá Vesturlandi hringinn í kringum landið til Suðurlands, en í Reykjavík eru aftur á móti tæplega 3.000 fleiri konur. Þetta er auðvitað ekki mjög vel til þess fallið að skapa eðlilega þróun.
    Sú skýrsla sem hér liggur fyrir fjallar um rekstur Byggðastofnunar á liðnu ári. Þær tölur sem ég hef hér nefnt eru sannarlega þess eðlis að þær minna okkur á að byggðamálin eru mikilvægari en kannski flest önnur mál í íslenskum stjórnmálum í dag. Það er a.m.k. skoðun mjög margra á landsbyggðinni. Ég tel að athyglisverðast í þessari skýrslu sé það sem hér hefur verið rakið af hæstv. forsrh. og hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að eiginfjárhlutfall Byggðasjóðs fer mjög ört rýrnandi og hefur gert það allan þennan áratug sem eðlileg afleiðing af því að framlög til sjóðsins hafa mjög minnkað. Ég tel að við svo búið megi ekki standa og að brýna nauðsyn beri til að bæta eiginfjárstöðu Byggðasjóðs með því úrræði, sem hæstv. forsrh. nefndi hér áðan, að ríkissjóður yfirtaki nokkuð af skuldum Byggðastofnunar við Framkvæmdasjóð Íslands, en þær munu nema núna um 3.300 millj. kr. í gengistryggðum lánum og eiga að greiðast á næstu 11 árum. Ég held að svo háar fjárhæðir þurfi að afskrifa á næstu árum vegna erfiðrar stöðu margra atvinnufyrirtækja og yfirvofandi gjaldþrota að ekki verði undan því vikist að grípa til þessa úrræðis til þess að tryggja framtíð þessarar stofnunar.
    Það er hárrétt sem hv. þm. Matthías Bjarnason rakti hér áðan, að framlög ríkissjóðs til Byggðastofnunar voru fimm sinnum meiri hér áður fyrr en þau eru í dag. Þessi framlög hafa rýrnað sérstaklega mikið á þessum áratug, sérstaklega á seinni hluta áratugarins. Ég tel að ef framlögin væru svipuð í dag og hefðu verið undanfarin ár svipuð og þau voru á árunum 1980 -- 1983, þá gæti Byggðastofnun vel við unað. Það má út af fyrir sig segja það að eiginfjárframlög ríkissjóðs í mörg ár sem næmu 400 -- 500 millj. á ári mundi vera upphæð sem gæti gengið ef svo færi fram í mörg ár. En vegna þess vanda sem nú hefur upp safnast vegna þess að framlögin hafa verið núna seinustu fimm árin langt innan við 200 millj. kr. þá verður ekki undan vikist að grípa til þessara sérstöku ráðstafana, að yfirtaka skuldir sjóðsins.
    Byggðastofnun er vissulega helsta stjórntæki Alþingis og ríkisstjórna til að efla byggð víðs vegar um

land. Auðvitað er hægt að efla byggðastefnu með öðrum hætti en þeim að veita fé úr Byggðasjóði. Satt best að segja er hægt að halda uppi mjög öflugri byggðastefnu í þessu landi án þess að nokkurt fé komi úr sérstökum sjóði til byggðamála. Eða hvað er byggðastefna? Ég tel að byggðastefna sé sérhver sú aðgerð sem stuðlar að því að snúa við langvarandi öfugþróun í byggðamálum. Það er t.d. byggðastefna að flytja stofnanir ríkisins út á land, þær sem þar eiga heima. Þetta hefur núverandi ríkisstjórn byrjað á að gera. Ég tel að það sé ágæt byggðastefna að flytja Skógrækt ríkisins austur á land og Hagþjónustu landbúnaðarins á Hvanneyri, meðan aftur á móti hitt er mikil öfugstefna í byggðamálum þegar risavaxinni stóriðju er valinn staður á Suðurnesjum.
    Það er líka byggðastefna ef rétt er haldið á málum við stjórn landsins hvað fjármál og efnahagsmál snertir. Það hefur veikt landsbyggðina mjög mikið hvernig stefna stjórnvalda í vaxta- og gengismálum var á árabilinu 1984 -- 1988. Þá þrefölduðust raunvextir á nokkrum árum og gengi krónunnar varð mjög óhagstætt fyrir útflutningsatvinnuvegina og af þessu erum við nú að súpa seyðið með mikilli aukningu gjaldþrota. Fátt hefur orðið til að veikja byggðir landsins eins og einmitt það að vextirnir hækkuðu svo upp úr öllu valdi og reynt var að halda gengi krónunnar föstu þrátt fyrir töluverða verðbólgu þannig að útflutningsatvinnuvegirnir lentu í miklum erfiðleikum. Það er staðreynd að hefðbundnir atvinnuvegir standa ekki undir raunvöxtum af stærðargráðunni 7 -- 10%. Þeir þola raunvexti sem eru kannski á bilinu 3 -- 5%, en þegar komið er upp í tvöfalt hærri raunvexti þá hljóta flestar venjulegar almennar atvinnugreinar að bíða lægri hlut fyrr eða síðar. Ég tel það eitt mesta mein í íslenskum efnahagsmálum hvað raunvextir hafa verið háir á liðnum árum. Það hefur landsbyggðin ekki hvað síst orðið að gjalda dýru verði.
    Þegar gengismál eru nefnd má stundum sjá þá hugmynd á kreiki að skynsamlegt gæti verið fyrir Íslendinga að tengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil. Ég sá það seinast á fundi með fulltrúum frá Fjórðungssambandi Norðurlands, þar sem réttilega var vakin athygli á mörgum ágætum málum, en þar var nefnt hvort ekki væri skynsamlegt að tengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil.
Ég held að fátt yrði landsbyggðinni til jafnmikillar óþurftar og það ef slíku ráði væri fylgt. Ég held að landsbyggðin þurfi einmitt mjög á því að halda að gengið sé rétt skráð á hverjum tíma. Það verður það ekki ef við færum að tengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil og láta aðstæður og þróun í Evrópu eða vestan hafs ráða því á hvaða gengi íslenska krónan væri skráð á hverjum tíma. Þá er ég ansi hræddur um að það kæmu tímabil þar sem okkar útflutningsatvinnuvegir mundu að miklum hluta hreinlega komast í þrot og fátt væri betur til þess fallið að eyða byggð en einmitt stefna af því tagi.
    En það er ekki bara stefnan í efnahagsmálum sem skiptir miklu máli fyrir byggðir landsins. Skattamálin skipta líka stóru í því samhengi. Það var mikið

áfall fyrir landsbyggðina þegar ríkið fór að seilast í fjármuni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þetta gerðist einkum og sér í lagi á árunum 1985 -- 1987, í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Þá var farið að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga mjög freklega, allt þar til svo var komið að um það bil helmingurinn af ráðstöfunarfé sjóðsins rann til ríkisins en ekki til sveitarfélaganna. Þessu var ekki kippt í lag fyrr en sett voru ný lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og um Jöfnunarsjóð. Þar var vissulega reynt að koma málum í rétt far á nýjan leik. Það var skynsamleg byggðastefna, mál sem miklu varðaði fyrir dreifðar byggðir landsins.
    Núna tel ég að það sé brýnast í skattamálum hvað byggðirnar snertir að ráðast gegn því ranglæti að fyrirtæki og stofnanir sem í raun þjóna landinu öllu greiði mikinn meiri hluta gjalda sinna til Reykjavíkur vegna þess að þau eru staðsett þar. Ég held að það sé mjög brýn byggðastefna að leiðrétta þetta misrétti. Og hvað skattamálin varðar má líka sérstaklega nefna veltuskattinn á matvörur sem lagður var á fyrir þremur árum síðan og hefur aðeins verið af tekinn að hálfu leyti. Því verki þarf að ljúka og það væri mjög mikilvægt fyrir stöðu landbúnaðar, og þar með fyrir stöðu landsbyggðarinnar í heild, ef þessi matarskattur yrði afnuminn með öllu.
    Auðvitað skiptir margt fleira máli þegar byggðastefna er annars vegar. Það er vond byggðastefna þegar framlög til hafnamála eru skorin niður ár eftir ár, eins og verið hefur nú í mörg undanfarin ár. Ég tel upphæðina sem er í fjárlagafrv. núna og ætluð er til hafnamála algerlega ófullnægjandi og einn ljótasta blettinn á núv. fjárlagafrv., það verði tvímælalaust að reyna að hækka þá tölu við afgreiðslu fjárlaganna og að þetta sé eitt mesta hagsmunamál sem sveitarfélögin standa frammi fyrir núna og þurfa að berjast fyrir.
    Loks má nefna jöfnun þjónustugjalda sem mikið hagsmunamál dreifbýlisins. Ég minni á að á undanförnum árum hafa verið stigin merk spor í þá átt að jafna símagjöld. Það gerðist einmitt núna 1. nóv. sl. að skrefið í langlínusamtali var lengt um 33% þannig að hvert þriggja mínútna samtal lækkaði um 20%. Tekin voru upp sérstök svæðagjöld þannig að símakostnaður innbyrðis milli staða sem liggja nærri hver öðrum víða um land var lækkaður. Þetta er afar mikilvægt mál sem menn hljóta að þakka fyrir. Þetta er partur af heilbrigðri byggðastefnu og ég vil þakka ríkisstjórninni fyrir gott frumkvæði í þeim málum. En ég get ekki þakkað ríkisstjórninni fyrir frammistöðu hennar varðandi jöfnun orkukostnaðar því þó það baráttumál sé í stefnuskrá þessarar stjórnar þá hefur ekkert verið í því máli gert enn. Satt best að segja þótti mér nokkuð seint í rassinn gripið þegar ég uppgötvaði það að hæstv. iðnrh. var fyrir nokkrum vikum fyrst að koma á fót nefnd til þess að undirbúa tillögur um það hvernig best yrði staðið að jöfnun raforkukostnaðar. Auðvitað er hægt að jafna orkukostnað á Íslandi og það ber að gera. Ég tel að einfaldasta leiðin til þess sé sú að Landsvirkjun verði ein látin selja raforku í heildsölu og hún verði látin haga sinni verðlagningu

þannig að það geti stuðlað að jafnara raforkuverði en nú er við lýði. Það er langeinfaldasta leiðin að láta Landsvirkjun um að leysa þetta verkefni og hún getur leyst það, hún hefur fjármagn til þess. Landsvirkjun er stofnun sem hefur verið byggð upp á kostnað allrar þjóðarinnar. Orkuverin voru byggð fyrir lán sem orkunotendur á landinu öllu greiddu niður með kaupum á raforku og ég veit ekki til þess að eigendur Landsvirkjunar hafi orðið að leggja nein aukagjöld á íbúa sinna sveitarfélaga til þess að koma Landsvirkjun á stofn. Ég tel að eðli máls samkvæmt beri Landsvirkjun skylda til þess að taka þetta hlutverk að sér og stuðla að því að orkuverð verði jafnt um allt land eða sem jafnast. Þetta er eitt af stóru málunum þegar rætt er um byggðastefnu og kannski það mál sem við hljótum að vænta að verði tekið til úrlausnar nú þegar á næstu vikum.
        Margt fleira mætti segja um byggðamál. En vegna þess að fleiri þurfa að komast hér að ætla ég að láta þetta duga.