Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef hér framsögu fyrir hönd meiri hl. fjvn. á nál. á þskj. 201 og brtt. á þskj. 202. Þar sem formaður fjvn., Sighvatur Björgvinsson hv. 1. þm. Vestf., er forfallaður vegna veikinda hleyp ég í skarðið fyrir hann.
    Eins og fram kemur á þskj. 202 hefur meiri hl. flutt nokkrar brtt. Ég mun ég nú gera grein fyrir nál.
    ,,Fjáraukalagafrv. þetta fyrir árið 1990 var lagt fram á Alþingi 22. okt. sl. Nefndin hafði þó allnokkru áður hafið vinnu með drög að frv. sem hún hafði fengið í fjmrn. Var það gert til þess að flýta afgreiðslu þess eins og frekast var unnt. Þetta er í þriðja sinn sem frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár er afgreitt og eru vinnubrögð, sem mörkuð voru af nefndinni við fyrstu afgreiðslu á sl. vetri, farin að falla í fastar skorður.
    Í stuttu máli má lýsa vinnubrögðum þannig að nefndin kannaði hvern lið frv. til hlítar og fékk skýringar frá fjmrn. og fagráðuneyti á óskum um greiðsluheimildir. Jafnframt gekk nefndin úr skugga um hvort greiðslur hefðu átt sér stað áður en fjárheimilda var leitað. Svo reyndist ekki vera og er það vissulega mikil framför frá því sem áður hafði tíðkast.`` Og ég tel sérstaka ástæðu til þess að hv. alþm. átti sig á þessu mikilvæga atriði.
    ,,Til viðbótar þessu kallaði nefndin eftir upplýsingum um hvernig ráðstöfunarfé ráðherra hefur verið varið (sbr. fjárlagaliði - 998). Hér er um nýtt viðfangsefni að ræða sem tekið var upp í fjárlögum í fyrsta sinn fyrir árið 1990 og er ætlað til þess að unnt sé að sinna ýmsum aðkallandi minni háttar viðfangsefnum sem ekki voru fyrirséð við afgreiðslu fjárlaga, en hljóta óhjákvæmilega alltaf að koma til á árinu. Með sama hætti var kallað eftir upplýsingum um hvernig ráðstöfunarfé ríkisstjórnar hefur verið varið (fjárlagaliður 09 - 989 - 110), að fjárhæð 100 millj. kr. Þá óskaði nefndin einnig eftir því að fá nákvæmari sundurliðanir á einstökum útgjaldaliðum, svo sem auknum greiðsluheimildum heilsugæslustöðva og embætta bæjarfógeta og sýslumanna sem í frv. eru sýndar í einni óskiptri fjárhæð. Hvað þessa útgjaldaliði varðar leggur fjvn. til að frv. verði breytt þannig að sundurliðanir á einstök viðfangsefni komi þar inn í stað heildarfjárhæðar til að ljóst sé hvaða greiðslur verði heimilaðar til hvers og eins þeirra og vegna hvers.`` Þessi sundurliðun er á þskj. 202 í brtt. meiri hl. nefndarinnar.
    ,,Að lokinni þessari yfirferð yfir frv. kallaði nefndin fyrir sig forsvarsmenn ráðuneyta og margra ríkisstofnana. Var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina upplýsingum um greiðslustöðu ýmissa verkefna og óskum, ef einhverjar voru, um greiðsluheimildir umfram fjárlög og fjáraukalagafrv.`` Þetta taldi nefndin nauðsynlegt til þess að fylgja eftir þeim megintilgangi með fjáraukalögum á hverjum tíma að þær sýni sem mest þær staðreyndir sem fyrir liggja þegar þessi lög eru fram sett. ,,Einnig bárust nefndinni fjölmörg slík erindi frá einstaklingum, félögum og stofnunum. Samtals bárust 55 erindi og voru óskir um viðbótargreiðsluheimildir alls um 406 millj. kr.
    Nefndin hafði nýjustu greiðslustöðu samkvæmt ríkisbókhaldi til hliðsjónar við umfjöllun um þessi erindi auk áætlunar fjárlaga. Þá kallaði nefndin eftir tillögum fagráðuneytanna sem ábyrgð bera á viðfangsefnum og áliti fjmrn. Í flestum tilvikum féllst fjvn. á tillögur ráðuneytanna og mat fjmrn. á greiðsluþörf, enda kallaði nefndin eftir og fékk yfirlýsingu frá fjmrn. um að ef þörf yrði fyrir meiri greiðslur úr ríkissjóði til þessara viðfangsefna og annarra en fjárlög og brtt. fjvn. gerðu ráð fyrir mundu greiðslur þeirra vegna úr ríkissjóði ekki eiga sér stað fyrr en viðbótargreiðsluheimilda hefði verið aflað í nýjum fjáraukalögum.
    Rétt er þó að geta þess að nefndin sjálf átti frumkvæði að nokkrum afgreiðslum en þær eru allar minni háttar. Samtals nema tillögur um viðbótargreiðsluheimildir við 2. umr. 157 millj. 705 þús. kr. umfram það sem fjáraukalagafrv. gerir ráð fyrir. Aðeins í einu tilviki er um lækkun á greiðsluheimild að ræða. Hún varðar þing Norðurlandaráðs sem haldið var á sl. vetri en kostnaður við það reyndist nokkru lægri en gert var ráð fyrir.``
    Virðulegi forseti. Ég mun í örstuttu máli fara yfir skýringar við einstaka brtt. sem meiri hl. fjvn. gerir tillögur um á þskj. 201.
    Í fyrsta lagi er það æðsta stjórn ríkisins. Tekin voru inn nokkur ný viðfangsefni vegna Alþingis. Það er í fyrsta lagi Skrifstofu - og alþingiskostnaður þar sem er bætt við 1,5 millj. kr. vegna kostnaðar við Evrópustefnunefnd. Viðfangsefnið Útgáfa Alþingistíðinda er hækkað um 15 millj. 560 þús. Um er að ræða aukinn útgáfukostnað við Alþingistíðindi vegna virðisaukaskatts. Það er rétt að geta þess að þetta er eina tilvikið þar sem fjvn. féllst á að taka virðisaukaskattinn inn en ekki hafði verið gert ráð fyrir honum. Er hér um tillögu forseta Alþingis að ræða sem eru staðreyndir sem fyrir liggja og á það féllst nefndin.
    Viðfangsefnið Þingmannanefndir Evrópuráðsins hækkar um 1,6 millj. kr. Viðfangsefnið Norðurlandaráð lækkaði eins og áður sagði um 6 millj. kr. vegna minni kostnaðar við þingið og viðfangsefnið Þingmannafundir Fríverslunarsamtaka Evrópu hækkuðu um 700 þús. vegna ferðakostnaðar sem fyrir liggur.
    Í þessu tilfelli er rétt að undirstrika að það er til þess ætlast að fastanefndir Alþingis sem taka þátt í erlendum samskiptum leggi fram nákvæma áætlun um þann kostnað sem þær þurfa að gera ráð fyrir. Það skortir enn nokkuð á að þessar áætlanir séu nógu nákvæmar og það er fullkomin ástæða til að benda á það að hér þarf Alþingi eða viðkomandi aðilar að bæta um þannig að ekki þurfi að vera um fjárhæðir að ræða gegnum fjáraukalög. Það ætti að vera hægt að hafa þetta nokkuð nákvæmt þar sem um er að ræða fastakostnað erlendis sem er í ákveðnum farvegi og ekki ætti að þurfa að vera óvissa um.
    Þá kem ég að menntmrn. Þar eru tiltölulega litlar breytingar. Nýtt viðfangsefni var tekið inn í sambandi við stofnbúnaðarkaup vegna Fræðsluskrifstofu Vesturlands sem gert er ráð fyrir í yfirstandandi fjárlögum að flytji inn í nýtt húsnæði á þessu hausti, en skorti nokkra upphæð til þess að hægt væri að kaupa búnað og ganga frá þeim tilflutningi. Þar er um 2 millj. að ræða.
    Þá er liðurinn Ýmis íþróttamál. Þar kom í ljós að inn í framlag á yfirstandandi fjárlögum til Íþróttasambands fatlaðra hafði blandast upphæð til Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík. Þar sem Íþróttasamband fatlaðra var búið að eyða þeirri fjárhæð sem var á fjárlögum þurfti að leiðrétta þetta þar sem það hafði fallið niður í útgáfu fjárlaganna að ætlast var til að Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík fengi 1380 þús. og er það leiðrétt hér með.
    Í sambandi við utanrrn. er einvörðungu um tilfærslu að ræða. Í fjáraukalagafrv. voru ætlaðar 7 millj. vegna tölvumála en þessi liður færist inn á Fjárlaga - og hagsýslustofnun. Eins og fram kemur í brtt. færist sama upphæð, 7 millj. kr., frá utanrrn. til Fjárlaga - og hagsýslustofnunar.
    Þá kem ég að landbrn. Þar er um nokkrar viðbótarfjárhæðir að ræða. Það kom í ljós að í núgildandi fjárlögum var ekki tekið tillit til nokkurra atriða sem eru lögum samkvæmt og ekki er hægt að komast hjá. Þar var um að ræða Búnaðarfélag Íslands sem þurfti að standa fyrir uppgjöri á búreikningum á árinu 1990 vegna sl. árs. Þar af leiðandi þurfti að gera ákveðna breytingu, sem nemur 4,5 millj. kr., til þess að standa undir þessum starfslokum búreikningastofu hjá Búnaðarfélaginu á þessu hausti þar sem sú starfsemi flyst til Hagþjónustu landbúnaðarins sem tekin er til starfa á Hvanneyri.
    Í sambandi við landgræðslu- og landverndaráætlun er tekið upp nýtt viðfangsefni sem er Fyrirhleðslur. Það er 2,5 millj. kr. fjárveiting til framkvæmda við Markarfljót. En eins og allir hv. alþm. vita þá er þar hættuástand þar sem fljótið er að brjóta sig inn á svæði sem getur orðið mjög hættulegt ef ekki verður stemmt stigu við. Þess vegna er lögð til aukafjárveiting upp á 2,5 millj. kr.
    Í sambandi við jarðræktar - og búfjárræktarlög skortir nokkuð á að staðið sé við ákvæði laganna. Í fyrsta lagi varðandi ráðunautana. Ekki hefur verið gert ráð fyrir greiðslu á aksturskostnaði þeirra sem skv. lögum á að vera um 65% af ferðakostnaði. Þar skortir á 6 millj. kr. Varðandi launahluta þeirra vantar einnig 6 millj. kr. skv. lögunum. Er það hér með leiðrétt í fjáraukalögum af meiri hluta nefndarinnar að þarna verði um að ræða 12 millj. kr.
    Þá er hér einnig endurgreiðsla gjalda í landbúnaði. Það er viðfangsefnið Endurgreiðsla söluskatts, aðallega vegna fiskeldis, sem hækkar um 12 millj. kr. Verður þessi liður samtals í fjáraukalögunum 65 millj.
    Í sambandi við dóms - og kirkjumrn. er tekinn inn nýr liður undir Lögregluskóla ríkisins. Þar er um að ræða 3 millj. kr. sem er fjárveiting vegna aukins kostnaðar við stundakennslu og kostnaður við gerð námsefnis. Í yfirstandandi fjárlögum hafði ekki verið gerð nægjanleg grein fyrir þessum þætti sem er óhjákvæmilegur kostnaður þar sem Lögregluskólinn er mikilvægur þáttur í starfi lögreglunnar.
    Undir liðnum Ýmis kirkjuleg málefni er tekið inn nýtt viðfangsefni. Það er 300 þús. kr. vegna dómprófasts í Reykjavík. Þar urðu embættaskipti þar sem fyrrv. dómprófastur var gerður að biskupi. Það hafði fallið niður að gera grein fyrir þeim kostnaði sem af því hlaust og þarf augljóslega að leiðrétta það. Það er um 300 þús. kr.
    Í sambandi við Félagsmál, ýmis starfsemi, er tekið inn nýtt viðfangsefni. Það eru Krýsuvíkursamtökin vegna vist - og dvalarkostnaðar á árinu 1990. Hér er um fjárhæð að ræða sem hefur verið samþykkt af landlækni og lögreglustjóranum í Reykjavík og ekki um neitt annað að ræða en taka þessa fjárhæð inn til leiðréttingar.
    Þá kem ég að heilbr. - og trmrn. Þar er gerð breyting fyrir ríkisspítalana. Sértekjur lækka um 40 millj. kr. og tekið er inn nýtt viðfangsefni Legudeildir, svæfingar - og gjörgæsludeildir, 35 millj. kr. sem er vegna kostnaðar við sjúklinga er þurfa dýra lyfjameðferð.
    Það væri hægt að ræða ýmislegt um þetta atriði nánar. Ég kem að því í lok minnar ræðu. Til upprifjunar vil ég aðeins skýra frá því að eins og kemur fram í áliti frá ríkisspítulunum kostar blóðfaktor fyrir aðeins einn sjúkling á þessu ári 20 millj. kr. Það er því ekki óeðlilegt að ýmislegt óvænt komi upp í sambandi við rekstur spítalanna sem þarf að huga að að orsaki ekki truflun á öðrum rekstri spítalanna.
    Þá er um að ræða sjúkrahús
og læknisbústaði, uppgjör á hallarekstri sjúkrahúsa. Fjárveitingarbeiðnin í frv. er um 40 millj. kr. Þetta er hækkað í meðförum meiri hl. nefndarinnar og leggur hann til að fjárveitingin hækki um 7,5 millj. kr. Það er sundurliðun á sérstöku yfirliti í brtt. á þskj. 202 sem sýnir nákvæmlega hvaða sjúkrahús og heilsugæslustöðvar falla undir þennan þátt. Nefndinni þótti eðlilegt að þessi sundurliðun kæmi fram til þess að alþingismenn átti sig á því hvað um er að ræða.
    Þá kem ég að samgrn. Þar er hækkun á yfirstjórn aðalskrifstofu um 700 þús. kr. sem er viðbótarkostnaður vegna Óslóar- og Parísarráðstefna sem samgrn. hefur orðið að sækja vegna ýmissa samninga og er óhjákvæmilegt að viðurkenna þá fjárhæð.
    Þá kem ég að liðnum Hafnamál. Þar bætist við nýr liður, Hafnarannsóknir og mælingar, 6,3 millj. kr. og viðfangsefnið Hafnamannvirki lækkar um 53,3 millj. kr. og verður 11,7 millj. en tekinn er inn nýr liður, Sjóvarnargarðar, upp á 27,5 millj. kr. Þar af eru 2,5 millj. kr. til framkvæmda við sjóvarnargarða á Stokkseyri. Tekinn er inn nýr liður, Hafnabótasjóður, þar sem er framlag 22 millj. kr. Alls hækka tilfærslur vegna hafnamála frá frv. sjálfu um 2,5 millj. kr. vegna sjóvarnargarðs á Stokkseyri. En það er rétt að skýra það hér að þetta er fyrst og fremst tilfærsluliður eða öðruvísi uppsetning en er í frv. sjálfu. Skiptingin er þannig, til þess að skýra hana nánar, að í fyrsta lagi eru hafnarannsóknir og mælingar 6,3 millj. kr., hafnarmannvirki á Höfn í Hornafirði 11,7 millj. kr. Síðan eru sjóvarnargarðar á Eyrarbakka og Stokkseyri 14,5 millj. kr., í Grindavík 5,8 millj. kr., í Selvogi 1,3 millj. kr. og í Vestmannaeyjum 3,4 millj. kr., eða samtals 25 millj. kr. Í Hafnabótasjóð vegna Grindavíkur 12 millj. kr. og vegna Hafnar í Hornafirði 10 millj. kr., samtals 22 millj. kr. Þannig verður liðurinn upp settur í frv. miðað við þessar breytingar.
    Ég vil geta þess vegna þess að það er nauðsynlegt að alþingismenn geri sér grein fyrir því að það mikla tjón sem varð á hafnamannvirkjum og sjóvarnargörðum á þessu ári kallar á nýjar breytingar á hafnaáætlun, ekki síst að því er varðar Höfn í Hornafirði. Það er alveg augljóst að við fjárlagagerðina fyrir næsta ár verður að taka tillit til þessara atriða. Það kemur fram síðar.
    Þá er það iðnrn. Þar er viðfangsefnið Iðnaðarrannsóknir. Fjárveitingin hækkar um 3,5 millj. kr. og er vegna kostnaðar við staðarval fyrir álver og verður samtals í frv. 13,5 millj. kr. Ég vil aðeins, til að það valdi ekki neinum misskilningi, geta þess að þessi 3,5 millj. kr. fjárveiting er vegna óska frá ráðuneytinu um að koma til móts við þau aðalsvæði sem hafa lagt fram mikið fjármagn vegna staðsetningar álvers. Hér er um að ræða Eyjafjarðarsvæðið og Reyðarfjarðarsvæðið. Sótt var um 10 millj. kr. til þessara rannsókna og vegna þessa kostnaðar. Samkvæmt því yfirliti sem nefndinni barst var gert ráð fyrir að kostnaður vegna Reyðarfjarðar væri 3,5 millj. kr., þetta er vegna ,,heimamannakostnaðar`` skulum við segja, en kostnaður Eyfirðinga er 6,5 millj. kr. Nefndin ræddi þetta og féllst á að taka hluta af þessu sem er 3,5 millj. kr. eins og ég skýrði hér áður og mun verða skipt á milli þessara staða til að bæta þeim upp þann kostnað sem viðkomandi svæði hafa orðið fyrir.
    Þá er hér brtt. um jöfnunargjaldið, þ.e. að jöfnunargjald í iðnaði hækki um 10 millj. kr. og verði samtals í frv. 160 millj. kr. í stað 150 millj. kr. Fjárveitingin er til þess að unnt sé að endurgreiða söluskatt í iðnaði til loka nóvembermánaðar fyrir árið 1989. Ég vil geta þess í framhjáhlaupi að allar fjárveitingar til endurgreiðslu á söluskatti eru miðaðar við nóvemberlok 1989 þannig að síðasti mánuður ársins 1989 er enn þá ógreiddur, ef þetta verður samþykkt.
    Þá er tekið inn nýtt viðfangsefni hjá Orkustofnun, það er í almennum rekstri, 1,5 millj. kr. Fjárveitingin er til greiðslu biðlauna Ísleifs Jónssonar hjá Orkustofnun. En það er óumdeilanlegt og hefur verið úrskurðað að þessi maður á rétt á þessum launum og því ekki um annað að ræða en að verða við því.
    Orkusjóður, þar er tekið inn nýtt viðfangsefni, Styrkur til jarðhitaleitar í Öxarfirði, 1 millj. 400 þús. kr. Á móti þessu gerir meiri hlutinn tillögu um að viðfangsefnið Lán til jarðhitaleitar lækki um sömu fjárhæð. Hér var um að ræða upphæð sem var búið að skuldbinda til þess að greiða í sambandi við jarðhitaleitina í Öxarfirði en hefur legið milli hluta þannig að Orkusjóður taldi sig ekki hafa fjármagn til þess að standa við þá skuldbindingu. Hér er skorið á þann hnút með því að færa þetta til þannig að lán til jarðhitaleitar verða lækkuð um sömu fjárhæð.
    Svo er um að ræða að lokum umhvrn., aðalskrifstofu. Þar er gerð tillaga um að fjárveiting hækki um 500 þús. kr. vegna kostnaðar við undirbúning að ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu. Búið er að gera skuldbindingar um að taka þátt í þessari miklu ráðstefnu sem á að vera í Brasilíu og það kemur í hlut umhvrn. að annast það verkefni. Og að sjálfsögðu er ekki hægt að komast hjá því að fjármagna þann undirbúningskostnað sem þegar liggur fyrir á þessu sviði.
    Síðasta liðinn, Fjárlaga- og hagsýslustofnun, var ég búinn að skýra áður. Þar er um að ræða tilfærslu frá utanrrn. en ekki hækkun á fjárveitingum.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara meira ofan í þessa þætti nema tilefni gefist til. Ég vil í lokin segja að það liggur fyrir að enn er óleystur nokkur fjárhagsvandi, eða hvort við köllum það rekstrarhalla, sjúkrahúsa á þessu ári, ekki síst á ríkisspítölum. Hér er um að ræða að verulegu leyti virðisaukaskatt sem sjúkrahús og raunar fleiri opinberar stofnanir virðast ekki hafa gert ráð fyrir að þurfa að greiða á yfirstandandi ári, sem er raunar fyrsta árið sem virðisaukaskatturinn kemur til framkvæmda. Hér er um nokkuð stórar upphæðir að ræða og ég hygg að það sé varlega áætlað að hér séu, a.m.k. það sem fyrir liggur, yfir 100 millj. kr. sem eru augljósar staðreyndir. Þess vegna telur fjvn. og mun leggja það til, alla vega meiri hlutinn, að þetta mál verði skoðað sérstaklega milli 2. og 3. umr. Þar er um að ræða að leggja til viðræður við hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. til þess að átta sig á því hvort hægt er að finna, og þá hvernig, viðráðanlega lausn, ég vil orða það svo, þannig að þetta valdi ekki truflunum á rekstri mikilvægustu stofnana.
    Ég tel ástæðu til að taka það sérstaklega fram að þetta mál verður athugað gaumgæfilega milli 2. og 3. umr. og kannað fyrir lokaumræðu fjáraukalagafrv. hvort hægt verður að finna úrræði til lausnar þessu máli. En þetta virðist vera meira vandamál en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi þegar frv. var lagt fram.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 3. umr.