Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna þeirra orða hv. 2. þm. Norðurl. e. að hann muni óska eftir umræðu utan dagskrár við, eins og hann sagði, aðalforseta þingsins ef hann skyldi verða á landinu, þá skal það upplýst að það er aðalforseti alloftast og svo mun einnig verða á mánudaginn. Erindi um utandagskrárumræður eru hins vegar ekki afgreidd héðan úr ræðustól heldur þurfa þau að berast forsetum þingsins í þeirra skrifstofu.
    En hvort sem einn forseti eða annar verður á landinu á mánudaginn eða ekki, þá segir í 12. gr. laga um þingsköp: ,,Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í þeirra starf`` svo að það sé ljóst að það mun ekki skipta neinu máli.
    Ég vil einnig geta þess að forseti Sþ. ræddi við hæstv. annan varaforseta og tilkynnti henni að um umræðu um þingsköp mundi verða beðið og sagði henni, eins og ég hafði skilið það erindi, að það mundi fjalla um skort á upplýsingum eða öllu heldur að upplýsingabeiðni hefði verið synjað í ákveðinni þingnefnd og töldum við báðar það eðlilega umræðu um þingsköp. Um frekara efni sem rætt var hér í morgun hafði hvorug okkar hugmynd um.
    En forseta sýnist að best sé að þessari umræðu um þingsköp ljúki. Forseta er auðvitað ljúft og skylt að taka við hvaða erindi sem er frá hv. 2. þm. Norðurl. e., eins og frá öðrum hv. þm., en upplýsingar þyrftu helst að vera betri en hér hefur verið raunin á. Ég vænti að þessari umræðu um þingsköp sé lokið.