Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Hér hefur farið fram sérstök umræða, að sumu leyti með dálítið miklum stóryrðum, kannski ekki fyrst og fremst frá þeim hv. þm. sem hér var í ræðustól heldur stundum frá hv. þm. sem voru að taka þátt í umræðunni utan úr sal, m.a. með tilvísun til hæstv. forseta um það að nota hamarinn rétt og aðrar sérstakar uppákomur sem eru mjög sjaldgæfar hér í þingsölum sem betur fer.
    En tilefni þeirrar umræðu sem hér varð finnst mér hafa verið ærin og ekki nema eðlilegt að hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal óskaði eftir því að það færi fram umræða utan dagskrár um það að sjútvn. þingsins var neitað um upplýsingar í nefnd og nefndarmönnum boðið annaðhvort að lesa á nefndarfundi þessar upplýsingar eða koma til ráðuneytisins og kynna sér upplýsingarnar þar. Mér fannst vera ærið tilefni til að hv. þm. hefði verið veitt heimild til þessarar umræðu, jafnvel þó að þingsköp mæli fyrir á annan máta. Að bíða með það að fjalla um þetta mál yfir helgi er ekki gott, eins viðkvæmt og það er nú hjá ótalmörgum aðilum vítt og breitt um landið, mér fannst ekki nema eðlilegt að hæstv. sjútvrh. hefði aðstöðu til þess að svara hv. þm. og okkur úr sjútvn. hvort ekki væri möguleiki að verða að þessari ósk þeirra. Það hefur því miður ekki orðið. Hæstv. sjútvrh. sá sér þann kost bestan að fara hér af fundi meðan hv. þm. Halldór Blöndal var að halda ræðu sína áðan. Því miður stendur þetta mál á þann veg að við, fulltrúar í sjútvn. þingsins, höfum engar frekari upplýsingar og finnst mér það mjög miður.
    Það er líka ekki gott að hverfa frá þessari þingskapaumræðu fyrr en við vitum, hæstv. forseti, hvort við fáum umræðu um þetta mál á mánudaginn. Ég óska eftir því að það verði gert fundarhlé og okkur gefið svar við því hvort við fáum umræðu um þennan þátt mála, um svar ráðherra við því hvort við fáum að fylgjast með þessum málum á svipaðan máta og tugir manna jafnvel uppi í ráðuneyti, Fiskifélagi og vítt og breitt um landið. Hvort þessum hlutum sé haldið leyndum fyrir nefndarmönnum í sjútvn. eða hvort við fáum að fjalla um það hér á hv. Alþingi.