Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti hlýtur að lýsa undrun sinni á þessari umræðu um þingsköp. Fyrir þessum fundi, fimmtudaginn 29. nóv. 1990, liggur prentuð dagskrá. Ræða skyldi fjáraukalög 1990 og afgreiða þau til 3. umr. í dag. Engin athugasemd hefur komið fram frá nokkrum hv. þm. eða þingflokksformanni, að á þessu ætti að verða breyting. Engin formleg beiðni um utandagskrárumræðu hefur enn þá borist til forseta fyrr en nú úr ræðustól. Forseti þarf að taka afstöðu til hvort veita skuli ómælda umræðu skv. síðari mgr. eða takmarkaða skv. fyrri mgr. 32. gr. þingskapalaga. Það gerir forseti ekki á meðan hann er að störfum hér í þinginu. Því mun þess vegna auðvitað ekki verða svarað hér og nú.
    Forseti hefur hingað til verið mjög fús til að veita hv. þm. heimild til utandagskrárumræðu ef þess er beiðst með venjulegum hætti en hér er ekkert slíkt um að ræða. Ég vænti þess að hér fari fram til loka það dagskrármál sem nú er til umræðu og menn haldi hér ekki uppi umræðum um allt annað mál fram eftir degi. Ég mun víkja úr stól um stund og taka afstöðu til þessarar beiðni um utandagskrárumræðu nk. mánudag og lýsa því hér síðar á fundinum hvernig verður við henni brugðist. En ég vænti þess að að öðru leyti fái þessi fundur að hafa sinn gang.