Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Matthías Bjarnason (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst leitt að hér hefur orðið þessi mikli ágreiningur út af því sem enginn ágreiningur átti að verða um. Hitt veit ég og allir þingmenn að
einstakir þingmenn hafa beðið um orðið um þingsköp til þess að bera fram kvartanir um skort á upplýsingum eða í sambandi við meðferð mála í þinginu. Það hefur verið látið átölulaust öll þau ár sem ég hef átt hér sæti og þeim orðum oftast verið svarað.
    Það sem skiptir hér höfuðmáli er spurningin: Getur framkvæmdarvaldið neitað löggjafarvaldinu um nauðsynlegar upplýsingar? Það er höfuðatriði þessa máls. Um umræðu utan dagskrár um þetta atriði var ekki hægt að biðja fyrr en í morgun því að synjun á upplýsingum lá ekki fyrir fyrr en á ellefta tímanum í morgun. Hér er því um það að ræða að verið er að taka ákvörðun um framtíð og lífsafkomu þúsunda manna vítt og breitt um landið. Það er verið að senda einstaklingum upplýsingar um það hvað á að skammta á árinu 1991. Fulltrúar á löggjafarsamkundu þjóðarinnar, þeir sem eru í þeirri nefnd sem fjallar um þennan málaflokk, óska eindregið eftir því áður en gengið er frá þessum málum að fá í hendurnar, auðvitað sem trúnaðarmál, hvernig starfað er að þessum málum og með hvaða hætti á að vinna hann. Það er til þess að þeir geti myndað sér skoðun en þurfi ekki að fara allra náðarsamlegast upp í hið volduga sjútvrn. og sitja þar með einhverja embættismenn yfir sér sem vilja sjá hvað þeir séu að skoða. Þetta er spurningin um það hvort löggjafarvaldið ætli að láta framkvæmdarvaldið hefta sig í sínum störfum. Á þessu veltur mikið. Ætlar löggjafarvaldið að lyppast niður og láta framkvæmdarvaldið segja sér fyrir verkum?
    Ég sé að einn hv. þm. biður um orðið. Það er 3. þm. Norðurl. v. Hann hefur verið afar óstyrkur undir þessum umræðum en enginn gekk lengra en hann í því að gefa forseta til kynna að hann ætti að rota ræðumenn með því að nota hamarinn á réttan hátt, eins og hann hiklaust átti við. Ég vona að hann sé að biðja núna um orðið til þess að biðja afsökunar á því.