Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég kem ekki í þennan ræðustól til þess að biðjast afsökunar. Þeir verða að bera sinn kosningaskjálfta, hv. 1. þm. Vestf. og 2. þm. Norðurl. e., og þessar þjáningar verða þeir að hafa hjá sér sjálfir. Þessi umræða í morgun hefur verið nokkuð kostuleg. Hún sýnir þó að kraftaverk eru ekki hætt að gerast þegar Halldór Blöndal kemur hingað upp til þess að biðjast afsökunar.
    En erindi mitt hingað upp er að skýra frá því sem gerðist í þessu máli þar sem ég er formaður sjútvn. Ed. Halldór Blöndal fór mikinn í gær og kom til mín og óskaði eftir fundi (Gripið fram í.) í sjútvn. þegar í stað. Ég tjáði honum að ég skyldi beita mér fyrir því að fundur í nefndinni yrði boðaður strax morguninn eftir sem ég og gerði og fékk þá aðila til að koma sem gætu skýrt fyrir okkur það efni sem hv. þm. hafði beðið um. Nokkrum dögum áður var haldinn sameiginlegur fundur sjávarútvegsnefnda beggja deilda þar sem ráðherra kom með sínum starfsmönnum til þess að kynna okkur reglugerðir er varða frv. til laga um stjórn fiskveiða áður en þær yrðu lagðar fram. Þeir fóru sem sagt yfir reglugerðirnar með sjávarútvegsnefndarmönnum beggja deilda þingsins. Fyrir það ber auðvitað að þakka. Ég er ekki viss um að við sjáum reglugerðir frá mörgum ráðuneytum áður en þær eru lagðar fram. Ég held ekki. Ég hef a.m.k. ekki orðið var við það í öðrum nefndum.
    Um þennan þátt málsins, kvótann og tilkynningar til útgerðaraðila, er rétt að taka fram að þeirri vinnu er ekki lokið í sjútvrn. og hjá þeim embættismönnum sem að því eru að vinna. Okkur var skýrt frá því að það kveður á um það í reglugerðinni að kvartanir og beiðni um leiðréttingar skuli hafa borist fyrir 15. des. ef ég man rétt. Núna er verið að senda út hugmyndir og útreikninga frá ráðuneytinu og fram til 15. næsta mánaðar eiga viðkomandi aðilar möguleika á því að gera athugasemdir við þessa útreikninga.
    Mönnum var ekki neitað um aðgang að þessum upplýsingum. Ráðuneytismenn buðust til að sitja með okkur og fletta í gegnum öll þessi plögg og sýna nefndarmönnum þessi plögg. Þeir buðu einnig að okkur sjávarútvegsnefndarmönnum væri öllum heimilt að koma upp í ráðuneyti og fara yfir þessi gögn þar. Það er hins vegar rétt að þeir vildu ekki á þessu stigi, töldu að það væri málinu ekki til neins, að afhenda nefndarmönnum þessi vinnuplögg eins og þau liggja fyrir í dag. Þetta er hið rétta í málinu.