Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Árni Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem nú fer fram er að mörgu leyti mjög þörf umræða. Hún er þörf að því leytinu að hv. þm. þurfa auðvitað að taka miklu harðar en þeir hafa gert á undanförnum árum á því hvernig framkvæmdarvaldið er að sölsa undir sig það vald sem löggjafarvaldið á að hafa. Ég bendi t.d. á að það er í vaxandi mæli svo að reglugerðarvald ráðuneyta er að verða svo mikið að ekki nær nokkurri átt. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við þyrftum einnig að taka til umræðu, hvernig reglugerðir í framhaldi af lagasamþykktum eru gefnar út og ganga oft á tíðum lengra en lögin kveða á um. Ég skal taka undir það með hv. 2. þm. Norðurl. e. að auðvitað eiga þingmenn að fá í hendur allar þær upplýsingar sem þeir óska eftir frá framkvæmdarvaldinu. Um það er engin spurning, ekki nokkur. Og ég mun styðja það hvenær sem er og hvar sem er að það verði gert.
    Í öðru lagi vil ég taka fram vegna þeirrar umræðu sem fór fram hér áðan, og ég skal játa að mér hitnaði nokkuð í hamsi vegna orðaskipta hv. 2. þm. Norðurl. e. og hæstv. forseta, að það hefur ugglaust verið vegna þess misskilnings sem ég hygg að hafi legið í þeirri umræðu almennt að flestir töldu að hv. þm. væri að hefja utandagskrárumræðu. Það er misskilningur. Hann taldi sig ugglaust í talsverðum rétti til þess að fara hér fram um þingsköp og ræða það mál sem hann hefur nú gert grein fyrir. Engu að síður varð sú uppákoma ekki til fyrirmyndar, en um það verður ekki rætt meira af minni hálfu.