Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að þingmenn hafi áhyggjur af afgreiðslu fjáraukalaga. Ég ætla ekki að fara yfir allar brtt. fjvn. um fjáraukalög en ég get ekki látið hjá líða að ræða sérstaklega um einn málaflokk. Það eru heilbrigðis - og tryggingamálin og hvernig afgreiðslu á þeim málaflokki er háttað. Hér er um smávegis hækkun að ræða til heilsugæslustöðva. Mig langar að beina spurningu til hæstv. heilbrrh., ef hann væri einhvers staðar í námunda við þessa stofnun, hæstv. fjmrh. og hv. meiri hl. í fjvn. Ég hef heyrt á formanni fjvn. á undanförnum árum að það verði að vanda mjög vel til fjárlaga og sjá um að liðir fjárlaga fái staðist. Þess vegna er nauðsynlegt, hefur hann sagt, að vanda þetta mjög vel og vinnubrögð fjvn. hafa verið með þeim hætti að það væri gert. Ég held að þetta sé meira eða minna fullkominn tilbúningur. Ég held að vinnubrögð bæði ráðuneyta og meiri hl. fjvn. séu ekki með þessum hætti.
    Fjárlagatillögur fyrir heilsugæslustöðvar fyrir árið 1990 voru gerðar af starfsmönnum heilbrrn. án samráðs eða samanburðar við stjórnendur heilsugæslustöðva. Því komu fljótt í ljós verulegar vanáætlanir í tillögunum. Mér er kunnugt um að á einni heilsugæslustöð var hallinn á rekstrinum á tímabilinu frá 30. sept. á þessu ári 7 millj. 263 þús. kr. og stefnir í 11 millj. kr. rekstrarhalla á þessu ári. Þar hefur verið gætt ýtrasta sparnaðar, enda hefur það komið af sjálfu sér vegna peningaleysis, og þar hefur ekki verið unnt að greiða nema að mjög litlu leyti annað en laun síðan í febrúarmánuði á þessu ári.
    Það er búið að breyta öllu fyrirkomulagi á rekstri t.d. sjúkrahúsanna. Þar var heimild til þess að greiða rekstrarhalla eftir ákveðnum leiðum og eftir ákvörðun daggjaldanefndar. Nú er búið að leggja það af. Sjúkrahúsin eru komin inn á fjárlög. Það var sagt að menn vildu fá þau inn á fjárlög af því að það ætti að vanda svo vel allar áætlanir. Er það að vanda áætlanir að búa til áætlun af starfsfólki í miðstýringunni án þess að spyrja þá sem sinna þessari þjónustu, stjórna henni og starfa við hana, um álit eða rökstuðning fyrir því hve mikið þurfi til þess að reka viðkomandi stofnun?
    Mér er sagt að í sjúkrahús - og heilbrigðisgeiranum sé áætlað að virðisaukaskatturinn muni nema 90 millj. kr. Það er ekki tekið til þess í fjáraukalögunum. Það þýðir með öðrum orðum að ef herra ,,Skattmann`` ætlar að fá 90 millj. kr. í virðisaukaskatt af sjúkrahúsunum og heilbrigðisgeiranum í heild að framlög ríkisins hafa lækkað í 90 millj. kr. Svona einfalt er málið. Í 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu sem þessi virðulega stofnun samþykkti á árinu 1973 og tóku gildi 1. jan. 1974 segir:
    ,,Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.``
    Svo mörg eru þau orð og þessi lög eru enn í gildi. Hvernig á nú að veita þessa þjónustu með því að

draga alls staðar úr, loka deildum, láta hlaðast upp beiðnir um nauðsynlegar aðgerðir þegar biðtími er jafnvel á þriðja ár og fer alltaf versnandi?
    Við höfum verið að berjast fyrir því að byggja upp sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir. Um leið og þetta er tilbúið er jafnharðan brugðist við með því að loka að meira eða minna leyti mörgum þessum stofnunum. Mér er sagt að áhrifamenn í ríkisspítalakerfinu hafi sagt að með sama áframhaldi sé ekki hægt að fullyrða að hægt verði að gefa sjúklingum þau lyf sem dýrust eru vegna þess að peningar eru ekki fyrir hendi. Og er talað um að ákveðnir sjúklingar þurfi svo og svo dýr lyf og menn býsnast yfir því, og það meira að segja hér inni á hv. Alþingi. Er nú ekki nokkuð langt gengið hjá ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju? Á að fara að draga úr þessari þjónustu, á að telja eftir ef einstaka sjúklingur þurfi mjög dýr lyf? Það hlýtur að hafa veruleg áhrif á þann sjúkling ef hann heyrir að samfélagið er farið að telja eftir þá þjónustu sem innt hefur verið af hendi. Ég tel þetta mjög alvarlegt.
    Ég hefði líka haldið að hæstv. ráðherrar mættu gjarnan vera á þingi, svona eitthvað lítillega, því þeir eru ekki alltaf allir heima á landinu. Sennilega er þetta eina þjóðin í veröldinni þar sem ráðherrar eru jafnmikið erlendis og hinir íslensku. Það væri gaman að gera slíkan samanburð og sjá. Enda heyrir það frekar til undantekninga ef sjást fleiri en tveir eða þrír ráðherrar hér inni á Alþingi. Hæstv. fjmrh. má þó eiga það að hann situr undir þessari fjárlagaumræðu. En hvar eru hinir? Enginn þeirra sést. ( Gripið fram í: Þeir eru að vinna.) Þeir eru að vinna, já. Ja, mikið fjandi vinna þeir. Enda eru þeir þreyttir.
    Hv. formaður fjvn. hefur ekki haldið aftur af sér að tala um framfarir og framkvæmdir og ég tala nú ekki um þegar kemur að því að beita aðhaldi og sparnaði og búa vel um hlutina. Ég hefði gjarnan viljað heyra álit hans á því hvort þetta sé það sem hann ætlar að vinna að í heilbrigðismálum í framtíðinni, hvort þetta sé það sem hann ætlar að lofa kjósendum sínum og því fólki sem hefur kosið jafnaðarmannaflokkinn sem berst fyrir þá fátæku og smáu. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra það, nema að hæstv. ráðherra sé tilbúinn að svara fyrir formann fjvn. ( Forseti: Forseti vill taka fram að hv. formaður fjvn. hefur tilkynnt veikindaforföll.) Já, hann er lasinn, blessaður. Ég vona að hann fái sem allra fyrst bata og geti þá skýrt frekar þetta fóstur sitt, brtt. við fjáraukalögin, við 3. umr.
    Ég verð þó að þakka hv. 1. þm. Vesturl., sem mælti fyrir þessu nál., fyrir það að hann gaf fyrirheit um að þessi mál yrðu skoðuð á milli 2. og 3. umr.
    Ég vil líka spyrja hæstv. fjmrh.: Er hann sammála svona vinnubrögðum? Leggur hann blessun sína yfir svona plagg? Þetta er máttlaust plagg. Hver á að standa undir þessum rekstri þegar búið er að hlaða á hann milljóna taprekstri á þessu ári og ekki er byggt á neinum áætlunum í samráði við þessar stofnanir? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Og hvar er hæstv. heilbrrh.? Er hann kannski lasinn líka? Hann mætti

gjarnan láta sjá sig hérna á þingi og standa fyrir sínu máli. Það er ekki alltaf hægt að skamma fjmrh. einan, þó hann sé slæmur. Það þarf líka að fara að tala við þá hina, sem mega ekkert vera að því að vera hérna en láta slík vinnubrögð eiga sér stað.
    Virðulegur forseti. Ég vil með þessum orðum láta í ljósi andúð mína á þessum vinnubrögðum og mótmæla hvernig farið er að við afgreiðslu fjáraukalaga. Ég vil fá skýr svör við því fyrir 3. umr. hvernig eigi að afla fjár fyrir allar þessar stofnanir eða hvort það sé ætlun ríkisstjórnar félagshyggju og jafnréttis að loka enn þá fleiri heilbrigðisstofnunum í landinu en þegar hefur verið tekin ákvörðun um.