Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Fá orð hafa fallið jafnoft á undanförnum mánuðum í umræðum í samfélaginu, þar á meðal hér á hv. Alþingi, eins og orðið ,,þjóðarsátt``. Það hefur verið rætt mikið síðustu sólarhringa hvort þessi þjóðarsátt, sem svo er kölluð, fái að standa um hríð eða hvort henni yrði stefnt í það sem þeir sem bera hana fyrir brjósti kalla óvissu.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé ansi mikið holur hljómur á bak við þetta hugtak, þjóðarsátt, eins og til hefur verið stofnað vegna þess að ákveðnir hópar í samfélaginu hafa ekki verið aðilar að henni. Ég tel að með mjög tvísýnum og óréttmætum hætti hafi verið gengið fram í því að setja ákveðna hópa í samfélaginu út fyrir ramma þessarar þjóðarsáttar.
    Mikið hefur verið rætt um afdrif frv. um launamál til staðfestingar bráðabirgðalaga sem ætlað er að innsigla þann gjörning sem fram fór á sl. sumri af hálfu stjórnvalda. Ég lýsti þá andstöðu minni við þann gjörning vegna þess að ég taldi, og tel enn, að með þeim hætti sé verið að brjóta eðlilegar leikreglur í samfélaginu. Ég hef ekki fjallað um það mál út frá spurningunni um réttlæti eða ranglæti í launamálum og hlutaskiptum í samfélaginu. Um það mætti margt segja. Eins og menn þekkja sem líta yfir sviðið og sjá hvernig skammtað er, þá er það óréttlætið sem fremur er ríkjandi en réttlæti. A.m.k. finnst mér málin standa þannig.
    Ég met mikils að náðst hefur ávinningur í samfélaginu, ávinningur til þess að ná niður verðbólgu, mörgum til hagsbóta, atvinnulífi í þessu landi og þeim sem skuldugir eru, þar á meðal mörgum sem þurfa og hafa þurft að axla miklar byrðar til þess að koma þaki yfir höfuðið og koma sér þannig fyrir að sæmilegt megi teljast í samfélaginu. Ég tel að það ætti að vera eitt brýnasta verkefni stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar að tryggja að þjóðarsátt í landinu nái á næstu mánuðum til sem flestra þannig að sæmilega megi við una, að hér takist um það raunverulegur friður til lengri tíma að ná jafnvægi í efnahagsmálum. Jafnvægi sem staðið geti til lengri tíma en nokkurra mánaða.
    Ég hef orðið var við það í umræðum síðustu sólarhringa að verið er að fjalla um þessi mikilsverðustu mál út frá því sem ég tel vera skammtímasjónarmið og í rauninni mjög nærsýn sjónarmið, út frá því hvort stjórn eða stjórnarandstaða eða einstakir flokkar geti hagnast á því hvernig lyktir verða hér á Alþingi varðandi frv. um launamál og bráðabirgðalögin frá síðasta sumri. Ég tel að þjóðinni sé þörf á að geta farið yfir þessi efni í sæmilegri ró en ekki í sviptingum nokkurra vikna í kosningabaráttu. Og ég tel umfram allt að stjórnvöldum sé þörf á því að fara yfir þessi efni út frá því markmiði að bæta fyrir þau víxlspor sem stigin voru fyrr á þessu ári og skapa raunverulegan frið meðal samtaka launafólks í landinu um að verja þau markmið sem menn hafa sett sér í sambandi við jafnvægi í efnahagsmálum.
    Ég tek eftir því að annar stjórnarandstöðuflokkurinn, Sjálfstfl., hefur fjallað um þessi mál nú síðustu dægur með mjög sérstæðum hætti, svo að ekki sé meira sagt. Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara að ræða þau mál efnislega hér, en vissulega er sú staða sem þar liggur fyrir með þeim hætti að það hefur leitt til þeirrar niðurstöðu í mínum huga að þó að ég sé efnislega algerlega andvígur þeirri setningu bráðabirgðalaga sem fram fór á sl. sumri, þá mun ég ekki hér á Alþingi bregða fæti fyrir afgreiðslu þeirra mála. Ég mun ekki taka afstöðu til þeirra við afgreiðslu hér í þinginu, heldur sitja hjá ef til þess kemur að frv. þetta komi til atkvæða. Mér hefur skilist að það skipti máli hver afstaða mín er í þessu efni og því hef ég kosið í upphafi fundar í Sþ. að greina frá þessari niðurstöðu.
    Ég vil nota þennan ræðustól til þess að beina þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar og ráðherra í ríkisstjórninni, hef raunar komið því á framfæri við þá ráðherra sem Alþb. á í ríkisstjórn, að þeir leggi sig fram um það að þolendur þeirra bráðabirgðalaga sem sett voru sl. sumar fái eðlilega meðferð sinna mála og stjórnvöld leggi sig fram um það að víðtæk samstaða geti tekist hér. Fram undan eru stórmál sem Alþingi þarf að hafa ráðrúm til að ræða í aðdraganda kosninga og þjóðin að átta sig á, í raun mál sem eru miklu stærri en sú takmarkaða þjóðarsátt sem ríkt hefur. Þar er ég að vísa til örlagaríkustu mála varðandi samskipti við aðrar þjóðir og í sambandi við efnahagsstefnu í framtíðinni, þar á meðal til fjárfestinga sem varða milljarðatugi og eru meira en flest annað til þess fallnar að stofna jafnvægi í efnahagsmálum í þessu landi í hættu.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að fram kæmi af minni hálfu. Ég vænti þess að orð mín verði til þess að greiða fyrir efnislegri umræðu um vandamál þessarar þjóðar á næstu missirum og á næstu dögum og verði til þess að í kosningum verði ákvarðanir teknar af þjóðinni á vitrænum grunni og með ráðrúm til umfjöllunar, bæði af stjórnmálaflokkum og meðal almennings í landinu.