Ragnhildur Helgadóttir (um þingsköp) :
    Frú forseti. Mig langar til þess að vita hvort það eru nýir hættir sem upp eru teknir í stjórn þingsins að einstakir þingmenn fái leyfi til þess að gefa það sem kallað er yfirlýsingar eða að gefa út tilkynningar úr ræðustóli Alþingis, sem eru ósköp einfaldlega pólitískar ræður um efni sem er til meðferðar í nefnd á Alþingi. Ef svo er að þetta sé aðferð sem upp er tekin þá vil ég leyfa mér að óska þess að þingflokkum verði gert aðvart um það þannig að þeir geti framvegis tekið mið af því. Og þegar um er að ræða mál sem jafnumdeild og mikilvæg eru og það sem hér hefur verið gert að umræðuefni í umræðum utan dagskrár, þótt það sé kallað tilkynningar, er auðvitað alveg ljóst að það er afar óviðeigandi að slíkt fari fram að fjarstöddum forsrh. og án þess að formenn stjórnarandstöðuflokkanna séu látnir af því vita. Við vitum vel að hér hefur verið rætt um mál sem framhald þingstarfa getur oltið á og vissulega framhald starfa ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil, sem almennur þingmaður, ekki láta hjá líða að vekja athygli á því að mér þykja þetta nýstárlegir hættir. Þyrfti að vera alveg ljóst hvort áframhald getur orðið á slíku og þá munum við vitanlega notfæra okkur þann rétt sem í þessu felst.