Þorv. Garðar Kristjánsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. 3. þm. Reykv. Ég hygg að vandfundin séu dæmi þess að þingmönnum hafi verið heimilað að gefa tilkynningar nema alveg af sérstöku tilefni, svo sem vegna stjórnarmyndunar eða vegna yfirlýsingar um að ákveðinn þingmaður eða flokkur hafi breytt afstöðu til ríkisstjórnar. Það kann að vera að það séu fleiri dæmi en þau eru áreiðanlega fá. Það verður fróðlegt að heyra þau þegar hæstv. forseti hefur látið fara fram athugun á því.
    Ég stóð upp vegna þess að ég tók eftir því, sem fleiri en ég hafa áreiðanlega tekið eftir, að rétt áðan bað hæstv. fjmrh. um orðið um þingsköp, ætluðu menn, það voru umræður um þingsköp. Hæstv. forseti veitti ráðherra ekki orðið. Þetta gefur mér tilefni til þess að gera fyrirspurn. Í febrúar 1988 voru umræður hér um þingsköp og hæstv. fjmrh. tók þátt í þeirri umræðu. Einn hv. þm. gerði athugasemd við það, taldi að ráðherra hefði ekki heimild til þess að taka þátt í umræðum um þingsköp vegna þess að hann væri ekki alþingismaður. Hæstv. forseti féllst á þessa skoðun og bað þingmann afsökunar á því að honum hefði orðið á að veita hæstv. fjmrh. orðið um þingsköp. Nú vildi ég spyrja hæstv. forseta, til þess að við stöndum ekki í neinni óvissu í þessu máli, hvort enn þá standi úrskurðurinn sem hún kvað upp í febrúar 1988 um að hæstv. fjmrh. væri ekki leyfilegt að tala um þingsköp. Það er þýðingarmikið að vita þetta. Ég skal ekki láta þingheim vera í neinum vafa um mína skoðun á þessu. Ég tel að hæstv. forseti hafi kveðið upp rangan úrskurð og hæstv. ráðherra hafi haft heimild til þess að tala um þingsköp. Hins vegar hefur þessi úrskurður verið kveðinn upp af hæstv. forseta og mín spurning er: Stendur hann áfram?