Fjáraukalög 1990
Mánudaginn 03. desember 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um styrk til blaðaútgáfu, samkvæmt tillögum stjórnskipaðrar nefndar eins og segir hér í texta, 50 millj. kr. Þetta er til þess að fullnægja heimild í fjárlögum sem lögfest var við 3. umr. fjárlaga fyrir síðustu jól er hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson flutti brtt. þess efnis að auka heimild til kaupa á dagblöðum af hálfu ríkisins úr 250 eintökum upp í 750 eintök, ( SighB: Árganga.) sem hann skýrði svo að væru árgangar. Þetta er að mínum dómi ákaflega miður farið að verja fé ríkisins í svo stórauknum mæli til þess að kaupa dagblöð sem lesin eru á stofnunum ríkisins, eða ætlast er til að lesin séu vegna þess að sum af þessum dagblöðum eru þess efnis að fáir eða engir vilja lesa. Eigi að síður skulu þau keypt fyrir fé skattborgaranna, ekki einungis 250 eintök eins og áður var, heldur nú 750 eintök. Sú viðbót sem hér er um að ræða, um 50 millj. kr., hefði dugað til þess að halda gangandi nærfellt allt árið í rekstri sem svarar 30 rúmum fyrir aldraða á hjúkrunardeild. Og ýmis önnur verkefni mætti til nefna sem þetta fé dygði til þess að fullnægja. Ég tel hér mjög ranglega með fé ríkissjóðs farið og lýsi sterkri andstöðu minni við þá stefnu sem hér er upp tekin að verja í svo auknum mæli fé til þess að kaupa upp dagblöðin fyrir stofnanir ríkisins og segi nei.