Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hér hefur verið beðið um umræðu utan dagskrár vegna þess að sjútvrn. hafi neitað að gefa þingmönnum í sjávarútvegsnefndum þingsins viðhlítandi upplýsingar um veiðiheimildir smábáta. Nú er rétt að taka það fram að sjútvrn. hafði forustu um það að kynna sjávarútvegsnefndum þingsins drög að reglugerð sem gefin var út sl. föstudag um aflaheimildir smábáta. Farið var yfir þessi drög að reglugerð með sjávarútvegsnefndum þingsins. Fram komu athugasemdir sem að einhverju leyti var hægt að taka tillit til, þótt ég vilji ekki fullyrða að á nokkurn hátt hafi verið fullnægt öllum þeim athugasemdum sem nefndarmenn höfðu, enda vart hægt að reikna með því. Þetta var gert að frumkvæði ráðuneytisins og í samræmi við þau vinnubrögð sem áður hafa tíðkast í samstarfi framkvæmdarvalds og löggjafarvalds á þessu sviði.
    Hv. þm. Halldór Blöndal fullyrti að þeir bátar sem hér um ræðir hafi fengið tilkynningar um veiðiheimildir þeirra. Nú er svo alls ekki. Að þessu máli hefur verið unnið í samræmi við ákvæði til bráðabirgða 2 í lögum um stjórn fiskveiða sem samþykkt voru 15. maí 1990. Þar kemur fram að sérstök samstarfsnefnd, skipuð fulltrúa tilnefndum af Landssambandi smábátaeigenda, fulltrúa tilnefndum af Fiskifélagi Íslands og formanni skipuðum af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla sérstaklega um málefni þeirra aðila sem hér um ræðir. Hefur þessi nefnd unnið gífurlega mikið starf og skilað bráðabirgðaskýrslu til ráðherra fyrir stuttu síðan.
    Þeir aðilar sem hér um ræðir hafa síðan fengið senda svokallaða tilraunaúthlutun miðað við afla þeirra á árinu 1989. Þ.e. smábátunum ber að fá sömu hlutdeild í heildarafla og þeir höfðu 1989 en þá var hlutdeild smábátanna mest og meiri en á árunum 1987 og 1988. Þessi tilraunaúthlutun hefur átt sér stað og hver einasti aðili hefur fengið sendar til sín niðurstöður úr þessari tilraunaúthlutun. Hér er ekki um lokaúthlutun að ræða og það er vitað mál að það eru villur í þessari tilraunaúthlutun og það er jafnframt vitað mál að ýmsir munu gera athugasemdir við það sem þeir hafa þar fengið.
    Við teljum ekki við hæfi að aðilar utan ráðuneytisins fái þennan lista í hendur og við það hefur verið staðið. En að sjálfsögðu munu allir fá þann lista sem verður lokaúthlutun í þessu máli. Það er hins vegar ekki rétt að mönnum hafi verið neitað um upplýsingar í þessu sambandi. Ég minni á það að hv. þm. skýrði hér frá því að hann hefði fengið upplýsingar um tiltekið atriði sem hann spurði um í ráðuneytinu og það hefur alveg ... (Gripið fram í.) Hv. þm., ég hef nú orðið og ég bið hann um að stilla skap sitt. Ég skal reyna að ljúka máli mínu á stuttum tíma þannig að hv. þm. geti fengið orðið aftur. Við höfum ekki neitað um upplýsingar og við höfum ekki neitað hv. þm. í sjútvn. um þær upplýsingar sem þeir hafa spurt um. Við höfum hins vegar neitað því að afhenda þennan lista vegna þess að við vitum að hann er að

sumu leyti rangur, það eru villur í honum og einstakar villur í honum hafa áhrif á alla aðra sem á honum eru. Það er verið að skipta tilteknum afla á milli þessara báta og breytingar hjá einum hafa áhrif á annan. Við teljum það mjög óheppilegt að slíkar upplýsingar berist til annarra aðila en þeirra sem í hlut eiga. En ef hv. þm. vilja spyrja um tiltekin atriði, tiltekna báta, þá hefur þeim ekki verið neitað um það.
    Ég spyr hv. þm.: Hvaða ástæða er til þess að hann þurfi að fá í hendur þessa tilraunaúthlutun? Hvað liggur þar að baki? Nægir honum ekki að fá upplýsingar um þau atvik og tilvik sem hann vill sérstaklega spyrja um? Hér er um afar viðkvæmt mál að ræða sem skiptir mjög miklu máli fyrir fjölda einstaklinga í landinu. Ég hef tekið þá ákvörðun að þessi listi fari ekki út fyrir ráðuneytið á þessu stigi. Það má vel vera að einstökum aðilum þyki það óeðlilegt að vinnugögn ráðuneytisins, meðan þau eru á þessu viðkvæma stigi, séu ekki afhent með þeim hætti sem þingmaðurinn krefst hér en ég er ekki tilbúinn til þess. Ég veit ekki til þess að það tíðkist í ráðuneytum að vinnugögn þeirra séu afhent á vinnslustigi, ég hef aldrei vitað til þess. Sannleikurinn er sá að hv. þm. hefur í reynd farið með rangt mál þegar hann hefur sagt að honum hafi verið neitað um allar upplýsingar í málinu enda staðfesti hann það hér sjálfur í ræðu sinni áðan að hann hefur fengið slíkar upplýsingar að því er varðar einstök skip.
    Hv. þm. gerði nokkuð að umtalsefni aflaheimildir báta á tilteknum stað á landinu, þ.e. í Grímsey. Ég býst við því að það sé tilefni þess að um sé spurt að við hann hafi haft samband aðilar á þeim stað sem eru óánægðir með sinn hlut. Ég vil af því tilefni upplýsa hv. þm. um það á hverju sú tilraunaúthlutun sem nú hefur átt sér stað byggist þannig að menn geti gert sér nokkra grein fyrir því hvernig það kemur hugsanlega við einstök byggðarlög.
    Í þessu byggðarlagi eru, eins og annars staðar, árin 1987, 1988 og 1989 tekin til viðmiðunar við útreikning á aflaheimildum einstakra skipa. Á árinu 1987 var afli á þessum tiltekna stað hjá þeim bátum sem hér eiga í hlut, og eru þar ekki bátar yfir 10 brl., 639,5 tonn, á árinu 1988 662,5 tonn og á árinu 1989 tæplega 860 tonn. Í flestum tilvikum er miðað við tvö bestu árin. Ef einhverjir hafa staðið í þeirri meiningu að aflinn
á einstaka báta gæti orðið svipaður og hann var á árinu 1989, þá ætti það að vera öllum augljóst að slíkt getur alls ekki orðið af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi eru tvö bestu árin tekin til viðmiðunar en ekki öll árin. Það eru fleiri bátar sem koma inn í úthlutunina og það er aflasamdráttur. Meðalafli áranna 1987 -- 1989 í þessu tiltekna byggðarlagi er ríflega 721 tonn en í þeirri tilraunaúthlutun sem hér hefur verið nefnd eru áætlaðar aflaheimildir miðað við heilt ár í þessu tiltekna byggðarlagi 741,5 tonn eða u.þ.b. 20 tonnum meiri en meðalafli áranna 1987 -- 1989.
    Nú er það ljóst að við höfum ekki haft tækifæri til þess að líta á hvert einstakt byggðarlag, enda er þessi vinna enn þá á undirbúningsstigi. En það er alveg

ljóst að þessir bátar hafa áunnið sér miklar aflaheimildir á undanförnum árum, bæði með reynslu sinni og einnig hefur þeim fjölgað mjög mikið eins og öllum er kunnugt.
    Hv. þm. Halldór Blöndal kom hér og sagði: Veiðiheimildir sóknarmarksskipa eru ekki nægjanlegar og það þarf að auka þær veiðiheimildir, sagði hann nánast hér, og hér er um eignaupptöku að ræða og nefndi tiltekin skip, nefndi hér tiltekna togara án þess að nafngreina þá sem hafa verið á sóknarmarki og nefndi tiltekinn bát. En ég spyr hv. þm.: Frá hverjum vill hann taka þessar aflaheimildir sem hann vill bæta við þessi skip? Nú er það svo að á undanförnum árum hafa smábátarnir unnið mest á. Vill hann taka þær af þeim? Eða hvað vill hann gera? Það dugar ekki, hv. þm., að vera með þessum hætti að halda því fram að þessi og hinn hafi ekki nóg, þeir verði að fá meira. Þetta er nú gamalkunnugt úr umræðum í þjóðfélaginu og ekki mikið mál að taka undir með hverjum og einum sem ekki hefur nóg, hvort sem það er í launum, fiskveiðum eða öðru, og vera sammála öllum sem slíkt segja því að það er nú svo að þegar takmarkað magn og takmörkuð verðmæti eru til skipta, þá geta ekki allir fengið það sem þeir óska eftir að fá.
    Um það hefur hins vegar verið rík samstaða að fjölgun þessara báta gangi ekki lengur og það sé nauðsynlegt að skipta aflaréttindunum upp á milli þeirra eins og annarra, enda sé það hagsmunum þessara aðila fyrir bestu. Og ég býst við því að margir vildu óska þess nú að það hefði fyrir löngu verið mögulegt að stöðva fjölgun þessara báta. Ég minni á að tillögur voru uppi um það af hálfu sjútvrn. að hér yrði flutt frv. á sl. hausti til þess að loka fyrir fjölgun smábátanna en eins og oft áður náðist ekki samstaða um það og er ég þá á engan hátt að sakast við stjórnarandstöðuna því að sjálfsögðu bera þeir ábyrgð á því sem að ríkisstjórninni standa.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegur forseti, til þess að hafa um þetta fleiri orð og ætla ekki að fara að hefja hér almenna umræðu um þessi mál sem væri vissulega full ástæða til en tel hins vegar að við höfum orðið við öllum eðlilegum óskum í þessu sambandi. Það hefur ekki verið neitað að veita upplýsingar um þessi mál. Það hefur hins vegar ekki verið ljáð máls á því að afhenda þennan lista og hann verður ekki afhentur einum eða neinum fyrr en hann er fullunninn. Og ég býst við því að það sé í samræmi við almenn vinnubrögð í stjórnsýslunni. En þeir sem vilja fá upplýsingar um tiltekin mál munu að sjálfsögðu fá upplýsingar um þau en það er ekki það sem hv. þm. Halldór Blöndal óskaði eftir, heldur óskar hann eftir því að fá í sínar hendur vinnuskjöl ráðuneytisins og við því verður ekki hægt að verða.