Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Árangurinn af fiskveiðistefnunni er alveg örugglega í öfugu hlutfalli við alla þá umræðu sem hér hefur farið fram á þessu kjörtímabili sem senn er á enda. En eins og hv. þm. vita höfum við á þessum stutta tíma tvisvar sinnum afgreitt ný lög um stjórn fiskveiða. Það er mat okkar kvennalistakvenna að stærstu annmarkar núverandi kvótakerfis sé hið siðlausa brask sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og enn á sér stað með þau skip sem hafa veiðiheimildir. Í okkar huga gengur það ekki upp að þeir menn, sem hafa fengið veiðiheimildir ókeypis upp í hendurnar, veiðiheimildir sem hvergi eru taldar til eigna, geti hagnast á þeim um tugi milljóna þegar þeir selja skip sín og að atvinnuöryggi og lífsafkoma fólks í mörgum byggðarlögum sé þannig háð duttlungum eða efnahag þeirra sem fiskiskipin eiga.
    Snemma hausts 1987 lögðum við þingkonur Kvennalistans fram okkar hugmyndir og tillögur um stjórn fiskveiða. Eins og þingheimi er ljóst er rauði þráðurinn í tillögum okkar sá að við viljum útvega fiskveiðikvóta til byggðarlaga. Með því viljum við rjúfa það samband sem ég minntist á áðan sem nú er á milli skipanna og kvótans sem hefur það í för með sér að einstaklingar geta selt kvótann að eigin vild og hagnast á veiðiheimildum sem þeir fengu án þess að nokkurt gjald kæmi fyrir. Með tillögum Kvennalistans er fullt tillit tekið til byggðarsjónarmiða og dregið úr ofstjórn og miðstýringu, en mér sýnist einmitt að það sem ég nefndi nú síðast, þ.e. ofstjórn og miðstýring, hafi ekki síst verið tilefni þeirrar umræðu sem hér fer fram í dag.
    Í umræðunni um kvótafrumvarpið um áramótin 1987 -- 1988 lögðum við fram þessar brtt. en þær voru allar felldar þrátt fyrir þá augljósu galla sem á frv. voru og þrátt fyrir aukið fylgi við þær úti í þjóðfélaginu. Það var ekki einhugur um málið í þeirri ríkisstjórn sem sat um þær mundir og því ákveðið með sérstöku ákvæði í lögunum að skipuð skyldi önnur nefnd sem fékk það umfangsmikla verkefni að fara aftur í gegnum málið og skyldi hún m.a. skoða vandlega það fyrirkomulag sem er á úthlutun veiðiheimilda og hvort hægt væri að hugsa sér aðrar leiðir.
    Við kvennalistakonur áttum eins og aðrir fulltrúa okkar í þessari nefnd sem kynnti þar hugmyndir okkar og tillögur. En það sem hefur einkennt alla vinnuna í kringum fiskveiðistjórnina er því miður það að svo virðist sem fyrir fram sé ákveðið hver skuli vera meginlínan og lítill hugur í fólki að taka nýjar hugmyndir til alvarlegrar umhugsunar og umræðu.
    Þrátt fyrir töluverða umræðu, og þá ekki síst um byggðakvótann, í stóru nefndinni sem lauk störfum í janúar sl. og þeim álitum sem á eftir fylgdu sitjum við uppi með þau lög sem nú eru að ganga í gildi um áramótin.
    Það kemur fram í nál. með frv. sem við afgreiddum hér um síðustu áramót að mikill áhugi og stuðningur er við hugmyndir um byggðakvóta og það er aukinn skilningur á nauðsyn þess að tryggja stöðugt

atvinnulíf í þeim byggðarlögum sem byggja nánast alla sína afkomu á sjávarútvegi. Ég tel rétt að rifja það upp hér að í tíu af þrettán sérálitum, sem birtust með frv. frá hinum ýmsu fulltrúum í nefndinni, kom fram stuðningur við hugmyndir um byggðakvóta eða jafnvel fiskvinnslukvóta. Þrátt fyrir allt þetta og þá staðreynd að við höfum horft upp á hnignun byggðarlaga sem rekja má beint til stefnunnar í sjávarútvegi var frv. afgreitt sem lög hér frá Alþingi með sömu grunnhugmyndum og í raun í alveg sama farvegi og fyrri lög.
    Við kvennalistakonur töldum og teljum enn að hugmyndir okkar um byggðakvóta séu í fullu gildi og hafi með tímanum sannað gildi sitt enn frekar. Því lögðum við þessar tillögur fram enn á ný sl. vor, en það endurtók sig sama sagan, þær voru allar felldar.
    Nú er komið að því að fara að vinna samkvæmt þessum nýsettu lögum og útdeila kvóta á skip og báta, stóra og smáa. Eftir því sem mér skildist var það tilefni þeirrar umræðu sem hér fer fram nú að þessa dagana stendur yfir svokölluð tilraunaúthlutun til báta sem eru minni en 10 brl. Það kom okkur fulltrúum í sjútvn. e.t.v. nokkuð á óvart að við skyldum ekki eiga alveg eins greiðan aðgang og við væntum að þeim upplýsingum sem starfsfólk ráðuneytisins var með fyrir helgina um þessa tilraunaúthlutun og ég verð nú að segja það sem mína skoðun að mér hefði þótt það við hæfi að við fengjum þetta sem trúnaðarmál. En okkur stóð til boða, eins og réttilega kom fram hér í máli hæstv. sjútvrh., að fara yfir þessi gögn ásamt embættismönnum ráðuneytisins því þeir töldu nauðsynlegt að útskýra fyrir okkur þær forsendur sem þeir gæfu sér við útreikninga. Mér er fullljóst að við þurfum á slíkum útskýringum að halda en þetta vakti í mínum huga upp spurningar um trúnað og þau trúnaðarstörf sem við gegnum hér inni á Alþingi, hvort það sé einhver efi í huga framkvæmdarvaldsins að við getum haldið trúnað með því að hafa þessar upplýsingar undir höndum. Ég gerði það því að tillögu minni á fundi sjútvn. fyrir helgina að við fengjum að hafa þessi skjöl undir höndum alla vega á einum fundi í sjútvn. og þá útskýringar frá ráðuneytismönnum í stað þess að við færum hvert og eitt að skunda upp í sjútvrn. Veit ég svo sem ekki hver verður niðurstaðan í því máli eða hvort málið er hér með niður fallið, en alla vega höfum við þann möguleika að geta tekið það frumkvæði að skunda til fundar við ráðuneytismenn. En það kom mér örlítið á óvart, ég verð að játa það, að við gætum ekki fengið þetta sem trúnaðarskjöl. En við því er ekkert að gera og við verðum að sætta okkur við þá ákvörðun hæstv. sjútvrh. að við getum fengið handleiðslu og útskýringar hjá hans embættismönnum.
    Eins og ég minnti á áðan voru sett hér lög um stjórn fiskveiða um áramótin 1987 -- 1988. Í þeim lögum fólst enn meira vald til handa sjávarútvegsráðherra að setja reglugerðir tengdar lögunum en nú er. Það var þó stigið örlítið skref í jákvæðari átt með setningu þessara laga þar sem mun fleiri atriði voru lögbundin þannig að heimildir ráðherra eru nú ekki

nærri eins víðtækar og þær voru áður. En ég minnist þess þó að hv. málshefjandi hér, hv. 2. þm. Norðurl. e., treysti sér til þess um áramótin 1987 -- 1988 að samþykkja þessi lög sem við kvörtuðum mjög undan að hefðu í för með sér allt of miklar heimildir til sjávarútvegsráðherra. Hann treysti sér til þess að fela hæstv. sjútvrh. þetta vald þá en greinilega ekki núna. En þó að mér hafi þótt vera stigið þarna örlítið skref í rétta átt þá ítreka ég það að við kvennalistakonur erum ósammála þessum lögum í grundvallaratriðum og höfum margoft lýst okkar hugmyndum og tillögum og ég hef þegar vikið lítillega að þeim.
    Það er enn margt óljóst um það hvernig til tekst með að úthluta kvóta til smábáta í fyrsta skipti og mikil óvissa um hvaða áhrif lögin hafa bæði á einstaklinga og byggðarlög. Það er því auðvitað von að alls kyns viðbrögð berist nú þegar þessi fyrsta tilraunaúthlutun er birt.
    Ég minntist á það að ekki hefði verið samstaða um þessi lög en hér er um að ræða hagsmuni allrar þjóðarinnar. Það er sagt skýrum orðum í 1. gr. laganna að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og markmiðið með lögunum er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Ég býst við að þessi 1. gr. sé grein sem allir geta verið sammála um. En þar með er samstöðunni lokið því að henni slepptri hafa menn mjög mismunandi skoðanir á því hvernig á að ná þeim markmiðum sem fram koma í 1. gr. Við kvennalistakonur höfum aldrei séð samhengi milli yfirlýsingarinnar um að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar og þess að afhenda þá svo einstaklingum til eigin nota án annarra skuldbindinga en þeirra að halda sig nokkurn veginn innan kvóta. Aldrei hefur heldur verið gefin haldbær skýring á því hvernig þetta getur farið saman.
    Markmiðssetning laganna um að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu hefur heldur ekki gengið eftir, enda ekki við því að búast þar sem menn geta selt skip burt úr byggðarlögum og þar með það hráefni sem hefur verið undirstaða vinnslunnar í landi.
    Ég verð að segja það að ég er dálítið undrandi á þeim skilningi hv. 4. þm. Vesturl. að það sé svo mikil gæfa að hafa þessi lög ótímabundin, eins og hann orðaði það áðan, að það gefi okkur vonir um að losna undan okinu. Það sem ég óttast er að við séum einmitt búin að afhenda þessa auðlind til afnota fyrir þá einstaklinga sem nú þegar hafa aðgang að henni og þetta verði í raun aldrei sameign íslensku þjóðarinnar þó svo að í lögunum sé ákvæði um að þetta skuli ekki vera ,,stjórnarskrárvarin eign``, eins og þar segir í einni greininni.
    Ég ítreka það að fjölmargir staðir á landinu byggja tilveru sína nær eingöngu á sjávarútvegi og víða háttar svo til að ekki er um aðra útgerð að ræða en á smábátum. Margir staðir eiga allt sitt undir því að atvinnan í landi sé ekki síður lögð til grundvallar en hagsmunir þeirra sem veiðarnar stunda. Það er einmitt rauði þráðurinn í okkar hugmyndum að lögin tryggi að tillit sé tekið til byggðasjónarmiða og aðstæðna á

hverjum stað. Ég minni á það, og það hefur reyndar komið hér fram í umræðunni fyrr, að einhvern tímann þóttist hæstv. ríkisstjórn hafa uppi áform um að setja fram fiskvinnslustefnu en ekkert bólar á henni og á meðan fiskvinnsluhús hér standa vannýtt heldur íslensk útgerð uppi fiskvinnslu erlendis.
    Ég vil síðan leggja áherslu á það að fari svo að tiltekin byggðarlög fari sýnu verr út úr úthlutun aflaheimilda en önnur og hafi ekki aðra möguleika til atvinnuuppbyggingar er mjög brýnt að sá sjóður, Hagræðingarsjóður, sem stofnaður var í vor í tengslum við lögin verði notaður til þess að treysta atvinnulífið á viðkomandi stöðum.
    Það mætti auðvitað ræða ýmislegt fleira tengt sjávarútveginum og þá ekki síst atvinnumálin og það atvinnuleysi sem víða hefur gert vart við sig, ýmist vegna þess að fiskiskipin hafa siglt með aflann og hráefni hefur skort eða að hráefni hefur hreinlega skort vegna þess að skip hafa verið seld burt og eru ekki lengur á staðnum. Það er ljóst að alls staðar er gríðarlegt vinnuálag í fiskvinnslunni og fólk er þar keyrt áfram af miskunnarleysi bónuskerfis í einhverri mynd. Það er trúlega óvíða annars staðar en í fiskvinnsluhúsum jafnrækilega unnið fyrir hverri krónu í launaumslaginu. Það hlýtur að vera spurning hverjum það er í hag að ganga svo nærri bæði starfsorku og heilsu hjá því fólki sem vinnur úr sjávaraflanum. Ég minni líka á að fá störf valda eins mikilli streitu og störf í fiskvinnslu og atvinnusjúkdómar eru tíðir. Þeir sem semja um launakjörin á hverjum tíma sjá hins vegar þau ráð ein til að bæta upp launakjörin að auka hraðann og vinnuframlagið. Það er orðið löngu tímabært að leiðrétta það ranglæti.
    En ég vil svo aðeins víkja að einu atriði enn. Ég hef oft á tilfinningunni þegar verið er að setja hér lög að menn virðist sjaldnast vera búnir að velta fyrir sér öllum þeim tilbrigðum sem upp geta komið. Mig langaði að minnast aðeins á það hér að í haust var haldin hér á landi norræn ráðstefna um atvinnumál kvenna í dreifbýli. Það kom mjög greinilega fram hjá þeim norrænu fulltrúum sem þar komu, en þeir voru gjarnan starfsmenn stofnana sem má líkja við Byggðastofnun hér, byggðamálaráðuneyti eða innanríkisráðuneyti, að alls staðar á Norðurlöndunum fara fram miklar rannsóknir á því hvaða áhrif stjórnvaldsaðgerðir hafa bæði á atvinnulífið, mannlífið og ekki síst félagslega þáttinn í byggðarlögunum. Ég held að þeir fulltrúar frá Byggðastofnun hér á Íslandi sem þarna voru staddir hefðu gjarnan óskað þess að þeir gætu einhvern tímann verið í þeirri stöðu að vera að rannsaka mál og reyna að spá fyrir um hvernig þróunin yrði með tilliti til uppbyggingar atvinnulífs í landinu í stað þses að standa sífellt í björgunaraðgerðum.
    Í þeirri miklu umræðu sem undanfarin ár hefur farið fram um byggðamál er sífellt hamrað á nauðsyn öflugs og stöðugs atvinnulífs. Sjávarútvegur og landbúnaður eru þær tvær greinar sem halda uppi byggð á mörgum stöðum úti á landsbyggðinni. Báðar þessar greinar hafa á undanförnum árum gengið í gegnum mikil breytingaskeið endurnýjunar og skipulagningar

sem hafa valdið mikilli röskun á byggðamynstrinu. Til að tryggja stöðugleika í þessum greinum er nauðsynlegt að við allar breytingar og nýjar ákvarðanir sé tekið mið af byggðarsjónarmiðum. Það er einmitt það sem við kvennalistakonur vildum leggja megináherslu á með okkar tillögum í sjávarútveginum að byggðarlögin fengju úthlutað kvóta þannig að þeir sem ráða heima í héraði gætu skipulagt sjávarútveginn með tilliti til þeirra aðstæðna sem ríkja á hverjum stað. Það er ljóst að það hefur tekist hörmulega til með kvótakerfið, einmitt hvað byggðarsjónarmiðin snertir og e.t.v. ekkert bjartari tíma að horfa fram á í þeim málum ef ekki verða gerðar neinar breytingar á. Það er mjög nauðsynlegt að núna, þegar þessari svokölluðu tilraunaúthlutun lýkur til smábáta og úthlutað verður í alvöru fyrir áramótin, að það verði horft á bæði einstaklinga og byggðarlög, hvernig þeirra staða er og hvort þau eiga sér ekki örugglega lífsvon á þeim tekjum sem þeir væntanlega fá fyrir þann afla sem þeir draga að landi.
    Það væri full ástæða til, virðulegi forseti, að ræða miklu fleira sem tengist sjávarútveginum hér en ég ætla ekki að lengja mál mitt í bili.
Ég vil ítreka enn og aftur að við leggjum höfuðáherslu á að þessari kvótasölu linni og mannlífið og atvinnulífið í byggðarlögunum verði eflt með því að hægt sé að treysta á stöðugleika en ekki það að einhver geti siglt burtu með aflann og/eða skipin og þau komi ekki aftur.
    Ég vil svo að lokum líka benda á vegna þess að sjútvn. var á dögunum í heimsókn hjá aflanýtingarnefnd að það eru enn þá miklir tekjumöguleikar til viðbótar í sjávarútveginum. Burt séð frá því að við fengum að bragða á vannýttum fisktegundum, þá fengum við um það upplýsingar að hugsanlegt væri að auka mætti tekjur af sjávarútvegi um 3 -- 5 milljarða ef betur væri farið með hráefnið og það betur nýtt.