Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Karvel Pálmason :
    Virðulegur forseti. Það er kannski óþarfi að hafa mörg orð um þetta mál eftir það sem hér hefur komið fram í dag. En mig langar til að bæta örfáu inn í þessa umræðu. Það hlaut auðvitað að koma að því fyrr en seinna að umræða um kvótalögin, eins og þau voru afgreidd á sínum tíma, kæmi upp. Það hlaut að koma að því. Ég hélt að allir þeir sem um málið fjölluðu á sínum tíma hefðu gert sér grein fyrir því að í meginatriðum mátti búast við þeirri útkomu sem hér er verið að tala um. Og mér finnst það einkennilegt að þeir hv. þm. sem um þetta mál fjölluðu, eins og hv. þm. Halldór Blöndal, sem gegnum árin hefur stutt kvótann leynt og ljóst, skuli ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað hér var á ferðinni. Það er til máltæki, ( EgJ: Hann gerði það.) það er til máltæki, hv. þm. Egill Jónsson, sem er eitthvað á þá leið að það geti verið of seint að iðrast eftir dauðann. Það getur verið of seint að iðrast eftir dauðann. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé mjög gott að menn átti sig á því hvað hér var á ferðinni á sínum tíma. Og auðvitað átta menn sig á því eftir því sem þeir eldast meira hvað er að gerast í kringum þá.
    Ég tel að þessi umræða nú sé nánast upphlaup þeirra manna sem iðrast hvað mest sinna gerða gagnvart kvótanum. Það hefur a.m.k. ekki vafist fyrir mér allan þann tíma sem kvótinn hefur verið í gildi, sem eru líklega rúm sex ár, 1984 kom hann til framkvæmda ef ég man rétt, allan þann tíma hefur verið að þrengja að mönnum í þessu kerfi. Það hefur verið leynt og ljóst unnið að því að reyra þetta kerfi í þann hnút þar sem tiltölulega mjög fáir einstaklingar geta notið sín. Valdinu hefur verið safnað á fáar hendur, til fárra fjölskyldna í landinu, eins og á einokunartímanum. Það eru tiltölulega fáir útvaldir sem ráða.
    Ég hlustaði á hv. 5. þm. Austurl. Kristin Pétursson hér áðan. Ef ég man rétt þá greiddi hann braut kvótakerfinu á sínum tíma, í desember 1987 eða janúar 1988, þegar það var afgreitt endanlega. Þá gat hann ráðið úrslitum um það hvort það kvótakerfi fékk gildi eða ekki. ( KrP: Það er lygi.) Það er kannski rétt að hv. þm. fletti upp atkvæðagreiðslunni á þessum tíma, frá 1987. Hann greiddi þá atkvæði með kvótanum. Ég skora á hv. þm. að sýna fram á það og segja frá því hér í ræðustól ef þetta er rangt. Hann er auðvitað einn af þeim sem eru að vitkast eftir því sem árin líða. Nú sjá menn eftir þessu. En spurningin er: Er það of seint? Ég óttast að menn séu búnir að innleiða þetta kerfi á þann veg að það verði mjög erfitt út úr því að komast, en það er nauðsynlegt eigi að síður að breyta því.
    Það má auðvitað segja að það taki steininn úr þegar mönnum dettur í hug að setja kvóta á nánast ofan í skektur sem ætla að fara á sjó. Þeim mönnum sem datt þetta í hug og þeim mönnum sem afgreiddu málið svona á seinasta þingi er greinilega ekki ljóst hvernig veðrátta á Íslandi er. Ætli sjómönnum almennt sé það ekki ljóst að það er veðurfarið, það er tíðarfarið sem ræður fyrst og fremst hvort þessir bátar geta róið

eða róið ekki. Það þarf engar aflatakmarkanir eins og hér hefur verið gert ráð fyrir á þessa báta, veðurfarið sér yfirleitt um það. Og það er auðvitað ekkert nýtt núna í mínum huga þó að komi fram óánægjuraddir um þetta. Það er t.d. greinilegt eftir þeim upplýsingum sem ég hef, og taldi mig raunar vita þegar málið var til umfjöllunar, að stór hluti smærri báta á Vestfjörðum, innan 10 tonna, mun trúlega lækka í aflamagni um helming frá því sem hann hefur í ár.
    Er óeðlilegt að menn hrökkvi við þegar þeir loksins átta sig á þessu? Ég vil líka segja það varðandi fulltrúa smábáta þegar málið var til afgreiðslu hér á Alþingi og til umræðu, ég trúi því ekki að menn hafi þá ekki áttað sig á þessu, fulltrúar smábátaeigenda, að þeim hafi ekki þá verið ljóst að hverju stefndi. En ég tek mjög undir það, og mér heyrist það miklu víðar í þjóðfélaginu núna, að menn eru orðnir mjög efins um að það sé gerlegt að halda þessari stefnu áfram eins og hún er nú. Meira að segja þeir sem voru formælendur kvótans, forsvarsmenn hans í hagsmunagreinunum, eru núna farnir að efast mjög um ágæti þessa kerfis. Og ég vil a.m.k. trúa því að þeir sem koma til með að ráða ferðinni í áframhaldinu taki tillit til þessara sjónarmiða, sem eru staðreynd og eru að koma fram, þó menn hafi ekki áttað sig á því þegar þetta var afgreitt og hafi kannski ekki viljað trúa því að þetta kynni að gerast.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið meira. Ég tel ekki ástæðu til þess að kvarta undan því við hæstv. ráðherra þó hann vilji ekki afhenda vinnuskýrslur úr ráðuneytinu. Ekki óska ég sérstaklega eftir því að bera ábyrgð á slíkum gögnum, nóg er nú samt. Því vil ég ekki skamma hann fyrir það. Ég ætla heldur ekkert að verja hæstv. ráðherra, hef ekki gert það, ekki í þessu máli. En hann ber heldur ekki einn ábyrgð á þessu, það er meiri hluti Alþingis sem ber ábyrgð í þessu máli. Þó hann sé kannski ráðandi aflið í ferðinni er við meiri hluta Alþingis að sakast hvernig þessi mál eru komin nú. Og ég bið þá sem á hlusta og til mín heyra að minnast þess hverjir það eru sem bera ábyrgð í þessu máli. Minnast þess að vori hverjir bera ábyrgðina. Það er kannski eina svarið sem dugar, ef menn muna eftir því að svara fyrir sig þá.
    Ég vil ljúka þessu af því að ég veit að tíminn er naumur með því að taka undir það sem hér hefur komið fram. Það er full nauðsyn að endurskoða þetta í ljósi þeirra staðreynda sem menn eru núna að horfa fram í, þeir sem ekki hafa gert sér grein fyrir því áður. Á því er full nauðsyn að skera a.m.k. mestu vankantana af þessu kerfi sem á að taka gildi um áramót. Og það er nánast lífsnauðsyn að breyta þessari helstefnu sem kvótinn hefur innleitt á Íslandi, það er raunar nauðsyn að gera slíkt. (Gripið fram í.) Helstefnu, já.
    Ég heyrði held ég rétt að hv. þm. Stefán Valgeirsson var hér að tala um fólksfækkun á tilteknum svæðum áðan. Það er enginn vafi á því að meginástæðan fyrir fólksfækkun t.d. á Vestfjörðum er kvótakerfið, það er enginn vafi á því. Og verði því haldið til streitu þá eru menn á hraðri ferð í þeirri helstefnu

sem kvótakerfið hefur innleitt á tiltekin svæði. Á þetta hefur ekki verið hlustað, menn hafa ekki viljað trúa þessu. En núna er komið að því að staðreyndirnar eru farnar að ná til almennings og meira að segja til margra þeirra sem stóðu að því að samþykkja þessa helstefnu fyrir dreifbýlið. --- [Fundarhlé.]