Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Umræða sú sem fram hefur farið í dag hefur farið vítt og breitt um stjórn fiskveiða. Tilefnið var umkvörtun um að ekki fengjust upplýsingar úr sjútvrn. til nefndarmanna í sjávarútvegsnefndum um fyrirhugaða reglugerð um veiðar smábáta. Um þetta atriði hefur verið rætt á þessum fundi, en það má segja að þegar rætt er um stjórn fiskveiða almennt, þá sé það ekki nema lítill hluti af heildinni. Þó er þetta dæmi um það hvað einstök atriði í framkvæmd kvótakerfisins geta samt verið mikilvæg. Í þessum umræðum hefur ekki verið rætt um það sem er aðalatriðið þegar rætt er um stjórnun fiskveiða. Það hefur ekki verið rætt um það sem er brýnast, að hverfa frá þessari skipan fiskveiðistjórnunar, kvótakerfinu, sem við nú búum við.
    Það eru alltaf fleiri og fleiri sem sjá að það er einmitt þetta sem er aðalatriðið. Það hefur líka komið fram hjá ýmsum óbeint í þessum umræðum. Ég nefni t.d. það sem hv. 4. þm. Vesturl. tíundaði hér fyrr í dag um viðureign hans í Ed. á sl. vori þegar framlengd voru lögin um fiskveiðistjórnunina, viðureign hans við helstu unnendur kvótakerfisins. Auðvitað var hv. þm. að telja sér þetta til gildis og hann er góðs maklegur að sjálfsögðu fyrir viðleitni sína í þessa átt. En ég saknaði mjög þess að hann lét niður falla að minnast á það sem mátti helst vera honum til sóma þessa baráttudaga gegn kvótakerfinu á síðustu dögum þingsins í vor. Hvað var það? Það var að hann gerðist meðflm. minn um tillögu til rökstuddrar dagskrár. Hann var í góðum félagsskap þeirra sem stóðu að þessari dagskrártillögu því auk okkar tveggja voru meðflm. hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson og 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason. En af hverju er ég að minna á þetta núna? Það er vegna þess að þessi dagskrártillaga tók á kjarna málsins. Það var ekki verið að hlaupa eins og köttur í kringum heitan graut í kvótamálinu sem oft hendir þegar menn treysta sér ekki til þess að loka augunum fyrir ágöllum kvótakerfisins þó að þeir í framkvæmd séu alltaf staðfastir með því að viðhalda þessum óskapnaði. Og hvað stóð í þessari tillögu til rökstuddrar dagskrár sem við félagar stóðum að? Það stóð að það skyldi vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá í trausti þess að nýtt frv. um stjórn fiskveiða yrði lagt fyrir næsta Alþingi, þ.e. fyrir það Alþingi sem nú stendur. Og það var tekið fram að þetta væri í trausti þess að ríkisstjórnin hlutaðist til um að komið yrði á þeirri skipan sem tryggir verndun fiskstofnanna og miðast við að atgervi þeirra sem sjóinn stunda fái að njóta sín og sjávarútvegurinn geti lagað sig sem frjáls atvinnuvegur að landsháttum og fiskimiðum svo að gefi sem bestan rekstrargrundvöll til að ná hámarksafrakstri af auðlindum hafsins. Tillagan var borin fram í trausti þess að ríkisstjórnin hlutaðist til um að í þessum tilgangi yrði undirbúið annað frv. um stjórn fiskveiða þar sem í stað stjórnar með veiðileyfum kæmi stjórn á stærð fiskiskipastólsins og sóknarstýring á veiðitíma, veiðisvæðum, gerð skipa, útbúnaði veiðarfæra

og meðferð afla, eftir því sem heimilaður hámarksafli á hverja fisktegund leyfði. Hér var rökstudd dagskrá sem byggði á því að kvótakerfið væri afnumið. Það var ekki verið að fara í kringum hlutina, heldur beinlínis lagt til að kvótakerfið yrði afnumið. Auðvitað komu kvótavinir þessari tillögu fyrir kattarnef. En hún fjallaði um aðalatriði.
    Umræðurnar hér í dag hafa ekkert fjallað um þetta. Þær hafa ekki fjallað um nauðsyn þess að afnema kvótakerfið. ( KP: Sumir.) Sumir, segir hv. 3. þm. Vestf. sem hefur betri samvisku en flestir aðrir í þessu efni, ( KP: Það er rétt.) þó að mér hafi stundum fundist að hann helgaði krafta sína of lítið aðalatriði þessa máls, að afnema kvótakerfið, en væri meira að fást við að benda á ágalla þess. (Gripið fram í.) Auðvitað. Og hv. 3. þm. Vestf. má vera stoltur af því að hafa verið meðflm. að þessari tillögu til rökstuddrar dagskrár. En hér í dag hefur ekki verið rætt um aðalatriði. Það hefur verið fyrst og fremst gagnrýni á framkvæmd kvótakerfisins. Það er ekki ofsögum sagt um erfiðleikana á framkvæmd kvótakerfisins. Hér höfum við heyrt í dag gagnrýni um tiltekin umkvörtunarefni. Í dag er það þetta, á morgun er það eitthvað annað og af mörgu er að taka. Það er sama hvar er drepið niður hendi.
    Er þetta annað en búast mátti við? Hvort hafa menn gleymt því að menn sögðust ekki vera fyrir fram sannfærðir um gildi kvótakerfisins þegar það var sett. Þess vegna var sagt í upphafi að lögin um fiskveiðistjórnun væru til bráðabirgða, þau væru til reynslu. Auðvitað mátti ætla eftir því að kvótakerfið yrði afnumið ef það reyndist illa og þá tekin upp önnur fiskveiðistefna.
    Nú er það deginum ljósara að kvótakerfið hefur verið meingallað frá upphafi. En menn hafa samt ekki viljað afnema það, ekki tekið það í mál. Í stað þess hefur því verið haldið fram að kerfinu mætti breyta til batnaðar. Við hverja framlengingu laganna um kvótakerfi hefur því verið breytt. Það vantar ekki. En þá höfum við staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að við hverja framlengingu kvótakerfisins hefur breytingin ekki orðið til góðs heldur þveröfugt, gert illt verra. Það er mjög áríðandi að menn geri sér grein fyrir þessum staðreyndum. Þó að takast megi að sníða einn vankant af kvótakerfinu koma tveir í staðinn hálfu verri. Kemur þetta til af þeirri eigind kvótakerfisins að því betur sem það virkar, þeim mun er það verri skipan á stjórn fiskveiða. Og enn eru menn í þessum umræðum að gera því skóna að hægt sé að bæta kvótakerfið. Þetta er að sjálfsögðu vitatilgangslaust, eiginlega aðeins tímasóun. Hins vegar verður aldrei of mikið gert af því að draga fram galla kvótakerfisins og ávirðingar eins og hér hefur verið gert í dag. Það ætti að geta orðið til þess að ýta við mönnum svo að þeir komi til meðvitundar um þann ógnvald sem kvótakerfið er. Það veitir vissulega ekki af að vekja menn til umhugsunar.
    Ég ætla ekki í þessum umræðum að gera kvótakerfinu þau skil sem vert væri. En ég minni aðeins á þá galla kerfisins sem allir sjá sem vilja sjá. Grundvallargalli kvótakerfisins er að aflatakmörk eru sett á hvert einstakt skip. Á þessari skipan byggist sú forsjá hafta og miðstýringar sem kvótakerfið er. Það er ekki hægt að bæta þetta kerfi. Meiri miðstýring, sem stjórnvöld hafa gripið til við hverja framlengingu kvótalaganna, hefur verið að fara úr öskunni í eldinn. Arðsemissjónarmiðum er kastað fyrir borð. Hverju einstöku skipi er ekki frjálst að afla og flytja þá björg í bú sem það er fært um innan þeirra marka sem hámarksafli á hverjum einstökum fiskstofni leyfir. Sókn og keppni sjómanna verður ekki komið við. Afburðamennirnir fá ekki að njóta sín. Fiskiklónum er skipað á bekk með fiskifælunum. Meðalmennskan er færð til vegs og virðingar. Skriffinnskan, smámunasemin, hnýsnin, eftirlitið og gæslan er svo snuðrandi við hvert fótmál. En húsum ríður spillingin, lipur og lævís, þessi sígildi fylgifiskur hafta og ofstjórnar í hvaða formi sem er. Og þá er ógetið kvótaviðskiptanna sem ríkisvaldið býður upp á og eru óhjákvæmileg til að gera ástandið bærilegt og halda kvótakerfinu gangandi. Þessi viðskipti eiga sér ekki fordæmi meðal siðmenntaðra þjóða. Réttindi sem veitt eru endurgjaldslaust með stjórnvaldsráðstöfunum eru gerð að verslunarvöru. Hér er ekki einungis um að ræða beina verslun með kvótann, heldur og óbeina í formi uppsprengds skipaverðs. Réttarmeðvitund Íslendinga þolir ekki slíka ráðstöfun á almannaeign sem fiskurinn í sjónum er. Ofan á allt bætist svo fjörráð við einstaka byggðir sem jafnvel hafa bestu aðstöðu til sjósóknar en er fyrirmunað að njóta hennar sem skyldi svo að sjávarútvegurinn megi skila sem mestum arði í þjóðarbúið. Afleiðingin blasir við í skelfilegri byggðarröskun. Dæmin eru mörg. Reynt er svo í nauðvörn hjá einstökum sveitarfélögum að bjarga málum með þátttöku í útgerðinni með einum eða öðrum hætti sem er að sjálfsögðu alger tímaskekkja og unnið fyrir gýg þegar til lengdar lætur.

    Þegar allt þetta er haft í huga um kvótakerfið getur maður aðeins sagt: Hvers vegna? Já, hvers vegna? Hvers vegna er haldið uppi svo meingallaðri skipan sem kvótakerfið er? Þá er hugsanlega aðeins eitt svar við þessari spurningu. Það er að kvótakerfið sé nauðsynlegt, þrátt fyrir alla sína galla og skelfingar, vegna þess að með því náist megintilgangur allrar fiskveiðistjórnunar, að annars vegar sé stuðlað að verndun fiskstofnanna og hins vegar náð hámarksafrakstri af fiskveiðum.
    Hver er þá reynslan af kvótakerfinu með tilliti til þessa? Við skulum líta á það. Við skulum grandskoða hvort við finnum nokkuð sem getur verið ástæða fyrir því að viðhalda kvótakerfinu. Hver er þá reynslan af kvótakerfinu með tilliti til höfuðmarkmiða allrar fiskveiðistjórnunar, fiskverndar og hámarksafraksturs af fiskveiðum? Því er fljótsvarað. Á fimm ára kvótatímabili fór veiði á þorskafla átta sinnum meira fram úr tillögum fiskifræðinga um veiði en á næstu fimm árum á undan, átta sinnum meira. Þetta er að segja um fiskverndina. Þá er það hámarksafrakstur fiskveiða til að ná því markmiði sem varðar mestu, að minnka sóknargetuna með minnkun fiskiskipastólsins sem er miklum mun stærri en nú gerist þörf. En hver er þá reynslan af kvótakerfinu í þessu efni, já, hver er hún? Á fimm ára kvótatímabili jókst fiskiskipastóllinn helmingi meira en á næstu fimm árum á undan, helmingi meira jókst hann eftir að kvótinn kom til en áður. Hvað er þá orðið okkar starf? Hvers vegna rígbinda menn sig við kvótakerfið? Það er von að spurt sé. Það er hinn óttalegi leyndardómur.
    Þrátt fyrir allt er ótvírætt að það stefnir nú í fullkomið öngþveiti og ráðleysi. Það er ekki nema um eitt að gera. Það verður að stöðva vitleysuna áður en lengra er haldið. Og hvað er þá til ráða? Það er ekki um annað að ræða en að hverfa frá miðstýringunni, hverfa frá haftakerfinu. Það verður að taka upp frjálsa samkeppni svo að markaðsöflin fái að njóta sín í aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Allt tal um frelsi, frjálsa samkeppni og markaðsbúskap er marklaust og verra en það nema hugur fylgi máli. Það er grín að alvarlegum hlutum.
    Til þess að hverfa frá höftunum og miðstýringunni er aðallega um tvær leiðir að ræða. Annars vegar að taka upp sölu veiðileyfa. Hins vegar að afnema veiðileyfi og taka upp sóknarstýringu. Á þessum leiðum er sá munur sem ræður sköpum í þróun sjávarútvegs á Íslandi.
    Það orkar ekki tvímælis að hægt er að koma við frjálsri samkeppni svo að markaðsöflin fái að njóta sín með því að selja veiðileyfi. Þeir sem hafa sterkasta fjárhagsstöðu standa best að vígi í samkeppninni. Það er lögmál markaðarins. Þannig eru fremstir þeir sem eiga hagkvæmustu skipin og reka útgerðina best. Það eru þeir sem skila mestum arði í þjóðarbúið. Í þessu liggur gildi markaðskerfisins fyrir sjávarútveginn.
    En með þessu er ekki öll sagan sögð um sölu veiðileyfa. Þeir sem ráða yfir fjármagni sem ekki er runnið frá sjávarútveginum eiga þess líka kost að komast yfir veiðileyfi, jafnvel umfram þá sem sjóseltu hafa í æðum og hæfastir eru til sjósóknar og útgerðar. Það er engin trygging fyrir því að slíkir handhafar veiðileyfa reki þá útgerð sem skilar mestum arði í þjóðarbúið. Það er meira að segja allsendis óvíst hvað verður um einstaka útgerðarstaði, jafnvel sem sýnt hafa yfirburði til sjósóknar, ef slíku markaðskerfi verður til að dreifa. Það er því ekki að undra þó menn staldri við þegar sett er fram krafan um sölu veiðileyfa. Sú leið er of dýru verði keypt ef henni fylgir minni arðsemi í sjávarútvegi, m.a. vegna ófyrirsjáanlegrar byggðarröskunar, og verður þá að hafa í huga að svo verður arðsemin mest í sjávarútvegi landsmanna að útgerðarstaðir vítt og breitt um landið fái notið bestu aðstöðu og afstöðu sinnar til fiskimiða.
    En svo herfilegt er ástandið í dag, svo herfilegt er þetta kerfi sem við búum við í dag og svo óhæf er skipan þeirrar fiskveiðistjórnar sem við nú búum við, að meira að segja er hægt að færa rök fyrir því að jafnvel sala veiðileyfa sé betri kosturinn. Eigum við þá ekki annars úrkosta en að taka upp sölu veiðileyfa? Sem betur fer er nú ekki svo illa komið. Við höfum betri leið út úr ógöngunum.
    En það kemur ekki annað til greina en að aflétta miðstýringunni og haftakerfinu og hverfa til frjálsrar samkeppni og að markaðslögmálið fái að njóta sín í þeim atvinnuvegi sem er undirstaða þjóðarbúskaparins. Í stað þess að taka upp sölu veiðileyfa liggur beint við að taka upp fiskveiðistjórnun með sóknarstýringu. Í því felst fiskveiðistefna með almennum aflatakmörkunum í stað einstaklingsbundinna aflatakmarkana. Í stað kvótakerfis kemur fiskveiðistjórnun almenns eðlis sem felur ekki í sér aflatakmarkanir á hvert skip fyrir sig. Fiskveiðar eru þá frjálsar innan þeirra takmarka sem leyfilegt aflamagn á hverja fisktegund heimilar. Aðferðin er fólgin í almennum fyrirmælum um veiðitíma, veiðisvæði, gerð skipa, útbúnað veiðarfæra og meðferð afla. Aðferðin er sóknarstýring eftir almennum reglum. Með þessu móti fá skip með góðan rekstrargrundvöll að skila þeim arði í þjóðarbúið sem efni standa til. Verstöðvar fá að njóta aðstöðu sinnar til fiskimiðanna þannig að stuðlað sé að hagkvæmri verkaskiptingu í atvinnulífi landsmanna eftir byggðarlögum og með því er þjóðhagslegt gildi og heildarafrakstur fiskveiða.
    Það er einmitt þessi skipan sem felur í sér það úrval sem þarf að fara fram til að fækka fiskiskipum og minnka þannig sóknargetuna til samræmis við það sem nægir til að fullnýta fiskstofnana. Slíkt úrval geta engar stjórnvaldsráðstafanir gert. Það verður einungis gert í frjálsri samkeppni þar sem hæfni og arðsemi fá að ráða. Þeir halda velli sem kunna best til verka, hinir falla út. Í frjálsum atvinnurekstri geta þeir einir verið þátttakendur sem standast samkeppnina. Þannig verður best tryggður hagkvæmur rekstur sjávarútvegsins, þannig heltast úr lestinni þau skip sem eru óhagkvæm og úrelt til reksturs. Það borgar sig hreinlega ekki að gera þau út. Þannig gæti sóknargetunni miðað, þegar til lengdar lætur, í átt til jafnvægis við fiskstofnana svo að beita þurfi sem minnstum veiðitakmörkunum.
    Fjarstæða. Ég hef oft heyrt þetta orð. Fjarstæða, segja menn við því sem ég hef verið að segja nú. Það kveður oftast nær við: Þetta allt er fjarstæða. Þessi aðferð til fiskveiðistjórnunar er óraunhæf og ónothæf. En ég segi: Nei, það er ekki rétt. Þessi frjálsa aðferð, sóknarstýring, er til í veruleikanum og ekki óraunhæfari en svo að hún var viðhöfð. Þessi aðferð var einmitt viðhöfð á árunum 1976 -- 1984 við stjórn fiskveiða í þessu landi. Og þessi aðferð reyndist ekki ónothæfari en svo að vandamál fiskveiðistjórnunar voru þá barnaleikur einn borið saman við erfiðleikana sem nú fylgja kvótakerfinu. Þetta er staðreynd. Þetta viðurkenna allir. Það hafa aldrei verið aðrir eins erfiðleikar í fiskveiðistjórninni eins og í dag.
    Ógæfan var sú að hverfa frá sóknarstýringunni 1984 og taka upp kvótakerfið í stað þess að bæta þá aðferð sem fyrir var. Viðfangsefnið nú getur ekki verið annað en að hverfa aftur til sóknarstýringar með endurbættum aðferðum. --- Ég endurtek, með endurbættum aðferðum, svo sem þarf til að mæta þeim

mikla vanda sem blasir við í dag. Um þessa leið á að geta tekist samstaða. Er það nú ekki lítils um vert. Hin leiðin, að taka upp sölu veiðileyfa, stefnir í öfuga átt. Sú leið hefur þá náttúru að efna til slíks ágreinings að með eindæmum er. Þessi ágreiningsmál kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar eftir mismunandi sjónarmiðum hagsmunaárekstra, siðferðisskoðana, byggðamála og stéttarágreinings. Hér er um að ræða djúpstæð mál sem höfða til réttlætiskenndar og tilfinninga, sem valda sundurþykki, úlfúð og illindum, illvígum deilum og til þess eins fallin að sundra þjóðinni þegar mest á ríður í samstilltu átaki til úrlausnar þeim vanda sem við nú stöndum frammi fyrir í fiskveiðimálum. Og vissulega er það kaldhæðnislegt ef svo miklu yrði fórnað til að koma á sölu veiðileyfa sem nauður rekur ekki til.
    Það er svo sem ágætt að hv. þm. lýsi kvótakerfinu og annmörkum þess í einstökum atriðum eins og þeir hafa gert hér í umræðunum í dag. Megi þeir draga fram í dagsins ljós lestina svo sem verða má. Megi þeir gera hróp að óhæfunni. Það hefur verið gert hér í dag. Menn hafa keppst við að draga fram í dagsljósið galla kvótakerfisins. En allt þetta er til vansæmdar meðan menn kunna ekki að draga réttar ályktanir af gagnrýni sinni, meðan þeir eru þeim mun háværari í aðfinnslum sínum sem þeir eru ákveðnari að halda ósómanum áfram með því að viðhalda kvótakerfinu. ( KP: Þetta á nú ekki við alla.) Það fer ekki saman að lofsyngja frjálsa samkeppni og kosti markaðskerfis og standa vörð um mestu ríkisafskipti, miðstýringu
og haftakerfi sem búið hefur verið við í þessu landi frá fyrstu tíð. Þetta fær ekki staðist. Kvótakerfið fær ekki staðist. Það er aðeins spurning hvenær því verður hrundið og það er líka spurning hvað það hefur gert landi og lýð mikinn skaða þegar sú stund rennur upp.
    En enn um sinn verðum við að búa um eitthvert skeið við ókjör kvótakerfisins. Á meðan skiptir máli að koma einhverju lagi svo sem verða má á óskapnaðinn. Og vissulega varðar þá miklu m.a. að smábátaeigendur nái rétti sínum. Ég vil gera það að mínum lokaorðum nú að ég legg áherslu á að þessi umræða veki til umhugsunar um vandamál smábátaeigenda og stuðli að því að þau verði sem best leyst.