Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það væri ekki rétt af mér að segja að ég hafi orðið hissa á þeirri ræðu sem var flutt úr þessum virðulega ræðustól hér síðast á undan mér. Nei, ég bjóst við þessu. Það var kannski ekki við öðru að búast frá hendi þeirra framsóknarmanna en að við okkur, sem höfum fjallað hér um sjávarútveg á hv. Alþingi, sé sagt að við séum að blaðra um þessi mál. Og að við séum að stilla okkur hér upp fyrir sjónvarpsáhorfendur og þá ágætu félaga okkar sem hér eru uppi á pöllunum núna. Hvað skyldi hv. þm. Stefán Guðmundsson hafa verið að gera hér í ræðustólnum? Ekki dettur mér í hug að segja að hann hafi verið að fara í þennan ræðustól til þessara verka. Enda eru þeir framsóknarmenn í huga sjálfra sín svo hreinir og góðir að þeir komast ekki í samjöfnuð við einn eða neinn í gæðum. Hvað þá heldur í því að halda á málum sjávarútvegsins þannig að allir hlutir snúist á hinn betri veg.
    En því miður eru nú hlutirnir ekki eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson var að lýsa. Þeir eru flestir á hinn öfuga veg. Og það sem hann bar á mig að ég hefði verið að fara með ósannindi er allt á þann veg sem ég lýsti hér áðan. Hv. þm. hristir nú höfuðið og segir að ég hafi farið þar með ósannindi, að fyrirtækið Fiskiðja Sauðárkróks hafi ekki fengið eina né neina fyrirgreiðslu til þess að geta gert þá hluti sem hún hefur verið að gera. Ekki aðeins þennan eina bát sem ég tilnefndi, sem keyptur hefði verið á Suðurnesjum, heldur víðar og það t.d. vestur á Snæfellsnesi. Hún lék nákvæmlega sama leikinn þar. Þegar útgerðarmaður á Snæfellsnesi hafði boðið í bát sem til sölu var í Stykkishólmi þá kom Fiskiðja Sauðárkróks og átti nóga peninga og gat bætt við einni eða tveimur milljónum ofan á það sem hinn treysti sér til að kaupa. Og vegna hvers skyldi það vera? Vegna þess að Fiskiðja Sauðárkróks fékk peninga úr Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, ekkert smávegis. Hún fékk 68 millj. kr. rúmar og gat notað þessa peninga. Vegna þess að hún fékk þessa peninga þá gat hún notað þá til þess að kaupa kvóta á Suðurnesjum og vestur á Snæfellsnesi. Og það var ekki nóg að hún fengi 68 millj. kr., sem var verið að segja að ég hefði farið með ósannindi um, hún fékk líka sérstakt hagræðingarlán upp á 45 millj. kr. Það var vitaskuld alveg ástæðulaust að fara að tíunda þetta sérstaklega en fyrst hv. þm. var að bera á mig ósannindi þá taldi ég nauðsynlegt að þetta kæmi fram.
    En því miður er Fiskiðja Sauðárkróks ekki ein í þessum leik. Og það er ekki nema eðlilegt að við þær aðstæður sem við búum við í dag, undir þeirri pólitík sem rekin hefur verið í sjávarútvegi með fulltingi Sjálfstfl. og Framsfl., séu ýmsir merkilegir hlutir að koma upp. Og jafnvel þó við færum nú á þann góða stað, sem einu sinni var málaður rauður, austur á Neskaupstað, þá eru svipaðir hlutir að gerast þar. Menn eru að reyna að bjarga sér á einhvern máta. Síldarvinnslan á Neskaupstað gerði sérstaka stjórnarsamþykkt um það að kaupa nokkur hundruð tonn af trillunum til þess að styrkja rekstrarstöðu sína. Og hvað skyldi þetta fyrirtæki hafa fengið mikið úr Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina? Við skulum gá að því. Austurland, Síldarvinnslan á Neskaupstað fékk nú aðeins 121 millj. kr. til þessara hluta. Það var ekki nema von að hún hefði efni á því að gera sérstaka stjórnarsamþykkt um að hún skyldi kaupa þetta mikið af trillukvóta. Það var ósköp eðlilegt.
    Svona má telja upp hringinn í kringum landið. Einmitt þessi fyrirtæki sem fengu þennan hálfgerða ríkisstyrk hafa verið í því að kaupa upp kvóta, ekki aðeins af trillum heldur líka af bátum, og færa það yfir á stórtogara. Komi Stefán Guðmundsson aftur upp í þennan ræðustól og segi mig vera að skrökva þessu, gjöri hann svo vel.
Þá er ekki hægt að byggja á því þskj. sem hæstv. forsrh. hefur dreift hér á meðal okkar þingmanna. Ég vona að hv. þm. Stefán Guðmundsson beri ekki ósannindi á sjálfan forsrh. (Gripið fram í.) Ber hann ósannindi á forsrh.? Já, hann stendur við það sem hann segir og ber ósannindi á hæstv. forsrh. Það líst mér nú ekki á.
    En hann taldi fulla ástæðu til þess að telja hér upp og undirstrika ágæti fiskveiðistefnunnar sem við förum innan mánaðar að búa við og hún væri svo mikið betri sú fiskveiðistefna sem nú blasir við en sú sem við bjuggum við og búum við í dag. En því miður, breytingarnar eru ekki afgerandi á einn eða neinn hátt. Það er sama stefnan. Það er sama reglan sem byggt er á. Það er sama kerfið. Ég tek alveg undir það sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sagði hér í ræðu sinni að svona kerfi verður aldrei bætt með einhverjum lagfæringum. Það er kerfið sjálft sem er rangt. Þetta kerfi er svo sem ekki fundið upp af Framsfl. og ekki hægt að kenna honum einum um þessa stöðu og síst af öllu hv. þm. Stefáni Guðmundssyni þó hann taki sig til og verji það. Vitaskuld er þetta samtryggingarkerfi Framsfl. og Sjálfstfl. eins og ég sagði í minni fyrri ræðu. Þetta er samtryggingarkerfi hæstv. sjútvrh. og forustu Landssambands ísl. útvegsmanna.
    Þeir sem hafa fylgst með sjávarútvegsmálum á undanförnum árum og áratugum gerðu sér mjög vel grein fyrir því hvað var að gerast þegar fyrstu sporin voru stigin í þessum málum þegar haustið 1983 að þessi mál voru rædd á þingum sjávarútvegsins. Það lá svo sem beint fyrir hvað þar var að gerast. Þegar Framsfl., eða hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson, tók að sér starf sjútvrh. gerði hann sér vel grein fyrir því að hann þurfti ákveðinn stuðning til þess að stjórna sjávarútveginum á Íslandi og hann valdi sér stuðningsaðilana hjá LÍÚ. Milli þessara aðila hefur svo ekki gengið hnífurinn í einu eða neinu. Það er vitað mál að séu einhverjar ráðagerðir uppi í sjútvrn. þá eru þær um leið á vegum LÍÚ. Og séu einhverjar ráðagerðir hjá LÍÚ þá eru þær um leið í sjútvrn. Þetta er það sem hægt er að segja að hafi verið klókt. Hæstv. sjútvrh. treysti ekki flokknum sínum til að standa bak við sig til að stjórna sjávarútveginum á Íslandi. Hann þurfti til þess önnur öfl. Og staðreyndin er sú að það hefur nú gengið á ýmsu með stuðning flokksmanna hans við

þetta, m.a. í sambandi við undirbúning frv. sem við vorum að fjalla um í fyrra og þeirra laga sem við komum til með að búa við í fiskveiðistefnu. Svona er nú þetta og við þetta búum við og undan því verður vitaskuld ekki skotist af því að staðreyndin er að þessir höfðingjar komu sér saman um þær tillögur sem voru samþykktar hér í þinginu í fyrravor og hefðu aldrei verið samþykktar á hv. þingi ef forusta Landssambandsins hefði ekki samþykkt þær um leið. Því miður get ég ekki heldur tekið undir það sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði um að frv. sem lagt var fyrir til umræðu í fyrravetur um fiskveiðistefnuna hafi verið unnið af undirbúningsnefndinni sem starfaði --- var það ekki í rúmt ár? Vitaskuld var það fyrst og fremst unnið í ráðuneytinu. Allar þær athugasemdir sem komu við frv. þegar það var lagt fram sýndu það að ekki var nein samstaða um þetta frv. Ég birti þær athugasemdir allar í nál. mínu um frv. og við sjáum að það er dálítið þykk bók. Það eru athugasemdir hagsmunaaðilanna við það frv. sem lagt var fram og síðan í meginatriðum samþykkt hér á hv. Alþingi 5. maí sl.
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson lét þau orð falla að það þyrfti styrka hendi til þess að stjórna fiskveiðunum og lét í það skína að flestir hlutir hefðu tekist vel. Vandamálið væri ekki fiskveiðistefnan eða kvótinn heldur það að það væru takmörk fyrir því hvað við gætum í sjóinn sótt. Vitaskuld er þetta alveg rétt. En þessi fiskveiðistefna, kvótinn, hefur orðið þess valdandi að það hefur verið gengið á stofnana og m.a. sá fiskstofn sem við byggjum okkar aðalframleiðslu á, þorskurinn, er stöðugt minnkandi. Við höfum verið að skerða ár frá ári þann skammt sem við höfum gefið heimild til þess að veiða þrátt fyrir að það hafi, þar til núna síðustu tvö árin, verið mjög hagstætt ástand í hafinu kringum landið. Ef rétt hefði verið stjórnað og rétt hefði verið haldið á málum þá hefðu fiskstofnarnir átt að byggjast upp í staðinn. Og okkur var gefið fyrirheit um það nærri því á hverju ári. Nú förum við að geta sótt meira í stofnana ef við stjórnum svona. En reynslan hefur verið sú að þorskstofninn hefur minnkað ár frá ári og nú bætist það ofan á að við horfum fram á verri tíð í hafinu. Við horfum fram á það, að ef ekki verður einhver sérstök breyting, að ekki sé nóg með að við séum að skerða þorskstofninn okkar með rangri fiskveiðistjórnun heldur sé líka náttúran okkur ekki hliðholl í uppbyggingu stofnsins.
    Og hv. þm. Stefán Guðmundsson minnti mig á fleiri hluti. Hann sagði okkur frá því að hv. þm. Halldór Blöndal hefði skrifað kjósendum sínum og bent á hve illa gengi að stjórna fiskveiðum annars staðar í heiminum, t.d. á Nýfundnalandi, í Barentshafi og við Noregsstrendur. En við sem höfum nú fengist við það að ræða um þessi mál frá því að farið var að tala um kvótann og þessa fiskveiðistefnu sem við búum við munum vel eftir því að fyrirmyndin að þessu kerfi okkar var ekki sótt eingöngu í kollinn á Kristjáni Ragnarssyni og hæstv. sjútvrh. Hún var líka sótt til Noregs. Það voru fengnir hálærðir prófessorar, reyndar íslenskir, frá Noregi til að segja okkur á fundum

þegar við vorum að ræða undirbúning að þessu hvað allt væri nú gott í Noregi og það þyrfti að taka sig til og stjórna eins og þar. Vitaskuld er ekki langt á milli þeirrar stjórnunar sem við búum við og eigum að búa við á næsta ári a.m.k. og þeirrar stjórnunar sem hefur átt sér stað í Norðursjónum.
    Hvernig er ástandið þar? Það er þannig að við blasir hrun í flestöllum veiðistofnum sem þjóðirnar við Norðursjó hafa veitt á undanförnum árum. Og forustumenn Evrópubandalagsins tala um það að þetta sé vitlaus stefna, kvótastefnan er óraunhæf vegna þess að hún kallar á það að ekki sé hægt að átta sig á því hvað veiðin sé mikil, m.a. vegna þeirrar hættu að alltaf sé kastað meira og minna af þeim afla sem um borð kemur og ýmsar leiðir aðrar farnar fram hjá því að fylgja þessum kvótareglum. Svona má lengi telja. En ég verð þó að lýsa þeirri von minni að þó að við búum nú við þetta kerfi enn, ég vona að sá tími styttist nú, þá komi það ekki fyrir að við förum eins illa út úr því og þær þjóðir sem fiska í Norðursjónum. Ég vænti þess þó að útlitið sé samt mjög dökkt.
    En við erum þó á leið sem er að sumu leyti í gangi þar, þ.e. að einstaka aðilar eru að sölsa undir sig þennan litla veiðirétt sem þar er eftir. Við erum nákvæmlega á sömu leiðinni hér. Það eru nokkrir aðilar á fullu í því að sölsa undir sig veiðiréttinn. Þeir sem eiga mikla peninga, eða hafa fengið mikla peninga, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, eru að þessu. Þróunin er á þennan veg. Hæstv. sjútvrh. nefndi það í viðtali sínu við útvarpið í morgun, ég held að ég hafi nefnt það líka í fyrri ræðu minni, að ef svo illa færi að einhverjir keyptu alveg upp kvótann í Grímsey, á Bakkafirði o.s.frv., yrði bara að hafa það. Þá yrði Hagræðingarsjóðurinn, aumingjasjóðurinn, að koma til.
    Vitaskuld er þetta ekkert annað en aumingjasjóður ef þarf að hlaupa upp til handa og fóta að bjarga sjómönnum um veiðirétt, þann veiðirétt sem feður þeirra og afar hafa átt, ef það á að hlaupa til með opinberum aðgerðum til að bjarga byggð eins og Grímsey. Þeir þurfi að koma og knékrjúpa fyrir sjútvrh. til að fá fyrirgreiðslu til að geta lifað í byggðinni sinni. Þegar þróunin er orðin á þann veg þá er það ekkert annað en að það er verið að lítillækka það fólk sem þarf að leita þeirra ráða og beinlínis á engan annan máta en þann að það er verið að líta á þetta fólk sem annars flokks fólk. Það þurfi að koma til stóra pabba í Reykjavík og biðja um rétt til að lifa í byggðinni sinni. Mikil reisn er yfir slíkum lögum þegar lagt er til að þannig skuli bjarga og þróunin verði á þann hátt að við megum búast við því að byggð eins og Grímsey, Bakkafjörður eða hver önnur byggð önnur geti farið í eyði og þá komi stóri pabbi í Reykjavík og bjargi þessu fólki aftur um einhvern hluta af þeim rétti sem það átti og hefur átt um aldaraðir.
    Hvers lags Ísland erum við að byggja upp? Ég skil það ekki. Ég get ekki ímyndað mér annað, ef við sjáum fram á það að einhver byggð lendir í þeirri stöðu, sem sjálfsagt blasir við, að kvótinn verði keyptur af stóra pabba úr einhverri annarri byggð, en að sú

byggð fari í eyði þrátt fyrir þennan svokallaða Hagræðingarsjóð. Það blasir ekkert annað við. Íslendingar hafa þá reisn að þeir munu varla, hvar sem þeir eiga heima, koma á fjórum fótum og biðja hæstv. sjútvrh. um rétt til að sækja fisk í sjóinn.
    Það eru ýmsir hlutir fleiri að gerast sem eru uggvænlegir og væri lengi hægt að telja upp hvernig þróunin er. M.a. það sem hv. þm. Stefán Guðmundsson nefndi áðan, hinn svokallaði forkaupsréttur sveitarfélaga. Ef það er búið að selja kvótann frá byggðinni, eða stendur til að selja kvótann, eða einhver ríki pabbi einhvers staðar í annarri byggð er með í undirbúningi að kaupa kvótann úr byggðinni, þá hafi sveitarfélagið forkaupsrétt. Hvaða möguleika haldið þið að sveitarfélög vítt og breitt um landið hafi til þess að kaupa kvóta? Hann er ekki fyrir hendi og ég er nærri því viss um að jafnvel lánasjóður eins og Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina mundi ekki lána til þessara sveitarfélaga. Þau eru ekki inni í kerfinu til þess að bjarga svona hlutum. Það mundi verða sagt nei við slíku. Fyrir utan það að burður sveitarfélaganna til þess að standa undir slíkum fjárhagskröfum er ekki fyrir hendi. Þetta er bara blekking og ekkert annað. En ef þetta mundi gerast þrátt fyrir það, og ég tel það mjög ótrúlegt, þá er það að gerast að við erum að stofna nýjar bæjarútgerðir, alveg eins og Friðrik Pálsson, forstjóri Sölumiðstöðvarinnar, sagði á fundi með Fiskiðn. (Gripið fram í.) Það liggur ekkert fyrir ef sveitarfélag neyðist til þess að binda kvóta að einhver aðili heima í sveitinni hafi bolmagn til þess að kaupa kvótann. Þá gerist það sem hefur verið að gerast á fullu hér í kringum okkar, í Hafnarfirði, í Reykjavík, og talið alveg höfuðatriði í þróun atvinnumála að bæjarútgerðir væru lagðar niður. Og sums staðar er þetta lagt til í útlöndum líka, að alls konar miðstýringarfyrirtæki verði lögð niður. En kannski horfum við fram á það að við byggjum upp framtíðarland sósíalismans hér á Íslandi og byggjum upp bæjarútgerðir hringinn í kringum landið eða félagslegar útgerðir út frá kvótakaupum. Ég bið ekki um það. Og ég veit það að aðrir kratar hér í deildinni munu ekki kalla sérstaklega á það. (Gripið fram í.) Þeir eru fleiri.
    Það var talað um að fiskveiðilögin sem við förum að búa við um áramótin hafi í ýmsum hlutum verið jákvæð. Ég hef talið upp og hrakið sumt það sem hér hefur verið bent á. Ég ætla að nefna hér aðeins einn, tvo þætti í viðbót.
    Það var talað um að það ætti að hamla gegn útflutningi á ferskfiski. Hvað skyldi nú hafa gerst í því? Því miður, þrátt fyrir allt eftirlit og ýmsar tilraunir til þess að hamla gegn þessu, hefur það ekki tekist betur en svo að í fréttum í dag var verið að segja okkur að enn hefði ekki tekist stjórn á þessu betur en svo að þeir sem hafa ráð á fiski hafa verið að flytja út meiri fisk en heimilt var. Þessi fiskveiðistjórnun sem við búum við núna ræður því ekki við þetta og ég sé ekki í hinum nýju lögum neitt sem kallar á þetta annað en það sem er aukin skerðing á kvóta. Ég held þó að eins og málin standa í dag muni það ekki hafa mjög mikil áhrif.

    Annað tengist þessum lögum og voru höfð mörg orð um það að nú skyldi sjútvrn. koma á kerfi á vigtun þannig að engin hætta væri á öðru en því að fylgst væri með öllum þeim afla sem veiddur væri hér við Íslandsstrendur. Það var talað um að þarna yrðu engar undanþágur veittar. Eins og hér hefur komið fram hafa ráðuneytismenn verið að kynna okkur ýmiss konar plögg. Það skal undirstrikað að þeir hafa gert það, m.a. tillögu um reglugerð um vigtun á sjávarafla. Hvað skyldi vera í því plaggi? Það er stórt og mikið plagg, margar blaðsíður,
en meira og minna er þetta plagg þó fyrst og fremst um undanþágur, hvernig megi nú fela einhverjum öðrum en þeim sem var upphaflega talað um og halda utan um þessi mál. Meginhlutinn alls konar undanþágur. Og af hverju skyldi það hafa verið? Það var vegna þess að vinirnir hjá LÍÚ sáu ýmsa annmarka á því að verið væri að fylgjast með vigtun sjávarafla, meira en þeir kærðu sig sæmilega vel um, sérstaklega á þeim afla sem fluttur er út. ( Gripið fram í: Þetta eru nú merkar upplýsingar ef réttar eru.) Það er ekkert annað en að lesa þetta plagg hér, sem heitir reglugerð um vigtun sjávarafla, og sjá allar undanþágurnar sem í því eru. T.d. hljóðar 1. gr. þannig, með leyfi forseta:
    ,,Skipstjóra fiskiskips er skylt að halda sjávarafla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum`` --- ég tek ykkur vara, nú kemur undanþága --- ,,enda verði því viðkomið vegna stærðar fiskiskips.`` Í 1. gr. er strax undanþága um það að ekki þurfi nú alveg að standa við þetta sem reglugerðin gerir ráð fyrir, þ.e. að halda tegundum aðgreindum, og þegar í 1. gr. kemur ,,enda``, enda sé hægt að gera þetta á þennan eða hinn mátann.
    Í umræðunni um fiskveiðistjórnina hefur mikið verið talað um sókn verksmiðjutogaranna og fjölgun verksmiðjuskipanna, frystitogaranna. Að mínum dómi er ekki langt bil á milli þess að aflinn sé sóttur og frystur úti á miðum og því að aflinn sé tekinn og fluttur út og seldur þar á markaði. Undir sumum kringumstæðum getur það verið hagstæðara að flytja aflann út ef það er beinlínis inn á neytendamarkaði, ef ekki er verið að byggja undir fiskvinnslu viðkomandi staðar eða lands, heldur en að vinna aflann eins og hann er unninn á frystitogurunum. En kannski er það versta af þessu það að nýtingin um borð í þessum togurum er ekki sem skyldi. Jafnvel þannig að sú vinnsluaðferð, sem gæfi kannski 45% í nýtingu, hefur farið allt niður í 40% og jafnvel niður í 38%. Að láta slíkt viðgangast í fleiri ár er voðalegur blettur á fiskveiðistjórninni. Vitaskuld er þetta mismunandi eftir skipum. En ef svo kvótaútreikningur viðkomandi skips er reiknaður með hærri nýtingu, kannski sagt að viðkomandi skip hafi 41 -- 42% nýtingu en er raunverulega ekki með nema 38% eða 40%, hvað er þá að gerast? Ætli ég hafi þetta ekki mín lokaorð.