Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hófst á því að hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal kvartaði mjög yfir því að ekki hefðu fengist upplýsingar sem hann taldi sig þurfa að fá um tiltekin mál, en ég vænti þess að þau mál hafi nú skýrst allvel enda hefur umræðan að litlu sem engu leyti snúist um það heldur um það hvernig fiskveiðum skuli stjórnað við Íslandsstrendur. Þó hefur umræðan að tiltölulega litlu leyti snúist um það hvernig stjórna eigi fiskveiðum heldur fyrst og fremst um það hvað er að þeirri fiskveiðistjórn sem nú er við lýði. Það hafa vissulega margir komið inn á það hvernig megi betur gera það en að mínu mati hefur þar, eins og oft áður, verið heldur lítið um heilsteyptar tillögur. Menn hafa beint sjónum sínum fyrst og fremst að útgerð smábátanna eins og oft áður í umræðum hér á Alþingi. Þar er um marga aðila að ræða sem hafa mikilla hagsmuna að gæta og ekkert nema gott um það að menn hafi áhuga fyrir þeim málum.
    En það er e.t.v. rétt að rifja aðeins upp hvernig þessi mál hafa gengið hér á Alþingi og skal ég láta vera að fara mjög langt aftur í tímann en minnast á það þegar þau lög sem nú eru í gildi voru til umræðu hér á Alþingi,
þ.e. um áramótin 1987 og 1988 og hv. þm. höfðu þá mikinn áhuga fyrir málefnum smábátanna. Þá voru uppi hugmyndir um það að setja kvóta á sem flesta báta en mönnum leist ekki á að setja þar kvóta á hvert einasta horn og reyndu að binda sig við báta sem voru yfir 6 tonn. Aflanum skyldi skipt með tilliti til reynslunnar en meðalkvótar þeirra sem ekki höfðu reynslu skyldu ákveðnir þannig að það væri lífvænlegt.
    Sjútvrn. lagði til að þessir meðalkvótar væru tiltölulega lágir og í einhverju hlutfalli við þá reynslu sem af slíkri útgerð hefði fengist. Á það var ekki fallist hér á Alþingi og það má segja að margir hv. þm. hafi haft sigur í því máli að þoka upp allverulega meðalkvótum þessara báta. Sumir hafa getað náð þessum afla á undanförnum árum en flestir hafa ekki getað gert það, en fjárfestingin hefur verið mikil í þessum bátum. Og það hlýtur hver maður að sjá nú þegar verið er að skipta upp á milli u.þ.b. 2100 báta 45 þúsund lestum af þorski, að þar geta ekki allir verið ánægðir. Við skulum segja að menn gætu hugsanlega verið nokkuð ánægðir ef þessi afli væri aukinn um helming og meðalaflinn væri ekki tuttugu og eitthvað lestir heldur fjörutíu og eitthvað lestir, þá þyrfti að sjálfsögðu að ganga á hlut hinna skipanna í flotanum. Þetta hefur hv. þm. verið ljóst og sú nefnd, sem fjallaði um fiskveiðistjórnina og undirbjó þá löggjöf sem tekur gildi um nk. áramót, lagði það til að sett yrði löggjöf á sl. hausti sem stöðvaði fjölgun þessara báta. Það var reynt að koma þessu frv. hér fram á hv. Alþingi og vegna þess að hv. þm. Skúli Alexandersson sagði að sjútvrn. hefði ekkert gert til þess að koma því fram að fjölgun þessara báta yrði stöðvuð, þá hlýt ég að minna hann á það að þingflokkur Alþb. neitaði því að slíkt frv. yrði flutt sem stjfrv. hér á hv. Alþingi.
    Landssamband smábátaeigenda sætti sig mjög illa við það að aflaheimildir þeirra báta, sem kæmu til veiða á árinu 1990, yrðu dregnar frá heildarafla smábátanna. Það var óásættanlegt af þeirra hálfu. Um það var fjallað hér á hv. Alþingi og víðar og niðurstaðan varð sú að það skyldi ekki gert og aflaheimildir þeirra báta, sem bæst hafa inn í flotann á árinu 1990, sem eru því miður 140 talsins, skyldu dragast frá heildinni. Þetta var aðalkrafa Landssambands smábátaeigenda og hún fékkst fram við meðferð málsins.
    Við undirbúning þeirrar reglugerðar, sem hefur verið í vinnslu síðan löggjöfin var samþykkt hér á hv. Alþingi og hefur tekið allt of langan tíma og reynst miklu vandasamara verk en nokkur gat séð fyrir, þá hafði Landssamband smábátaeigenda uppi kröfur um ýmis atriði samkvæmt bréfi sem frá því kom. Það hefur verið fallist á öll þessi atriði við setningu reglugerðarinnar. En það er ekki þar með sagt að allir sem eiga hlut að máli séu þar með ánægðir. Það er vegna þess að menn hafa ekki séð neina aðra leið og tekið þátt í þessu starfi af fullum heilindum vitandi það að ýmsir af þeirra félögum yrðu ekki ánægðir með niðurstöðuna en vitandi það jafnframt að það að auka afla hjá einum yrði til þess að það drægi úr afla hjá öðrum.
    Þeir hv. þm. sem hér hafa talað hafa að sjálfsögðu rætt margar aðrar leiðir til stjórnar fiskveiða. Ég skildi hv. þm. Kristin Pétursson þannig að hann segði einfaldlega: Þetta er helbert kjaftæði. Útreikningurinn á sóknarþunganum er helbert kjaftæði. Ég vona að ég hafi rétt eftir hv. 5. þm. Austurl. Ef þetta er rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. --- og ég vona það af mikilli einlægni að þetta sé rétt, en ég hef hins vegar sannfæringu fyrir því að svo sé ekki, án þess að ég ætli að fara nánar út í útskýringar á því sem mundi taka alllangan tíma. En niðurstaða hans er einfaldlega sú að það eigi bara að veiða meira og þar með sé allur heimsins vandi leystur í þessu landi. Það væri ánægjulegt að geta tekið slíkar ákvarðanir og það væri vonandi að sá tími kæmi í okkar landi að menn gætu leyft sér að taka slíka ákvörðun og trúa því að þetta sé nú allt saman spurningin um veðráttuna, vindana og hafísinn. Vissulega hafa náttúruöflin mikið að segja en það vill nú svo til að það hafa verið miklar tækniframfarir í landinu og það sem menn kalla smábáta í dag voru hér á árum áður stórir vertíðarbátar. Og jafnvel ekki eldri menn en ég og hv. 5. þm. Austurl. munum eftir þeirri umræðu að slíkir bátar, sem í dag eru mældir u.þ.b. 9,9 tonn að stærð þóttu afar góðir, stórir bátar hér á árum áður. Menn þurfa því ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá þessar breytingar.
    Aðrir hv. þm. hafa komið inn á þær leiðir sem þeir vilja fara og sú leið sem sker sig úr eru þær tillögur sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson hefur verið uppi með hér á Alþingi. Hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur í því svo lengi sem ég man í þessari umræðu og ég kannast við allt það sem hann sagði. Það er hins vegar svo að hv. þm. lagði þó til að hluta

af aflanum yrði skipt með kvótakerfi, t.d. loðnu, síld, rækju og humri. En botnfiskinum skyldi ekki skipt með þeim hætti, til þess að koma í veg fyrir miðstýringu, eins og hann segir svo gjarnan.
    En hvernig á þá að stjórna veiðunum? Jú, það á að stjórna sóknarþunganum. Það á að stjórna því hvað skipin geta sótt mikið, hvernig þau skulu búin, hversu stórar vélarnar skulu vera, hvernig tækin skulu vera um borð, hvernig veiðarfærin mega vera, hvenær skipin mega róa o.s.frv. eins og ég skil hv. þm. Ég hef hins vegar ekki skilið það hver skuli vera upphafspunkturinn í þessu kerfi og hvaða skip skuli fá að róa, í hversu marga daga og með hvaða veiðarfærum.
    Það má segja að þetta sé e.t.v. svipað kerfi og er víðast hvar í Efnahagsbandalagslöndunum og hv. þm. Skúli Alexandersson gerði hér að umtalsefni. Þar er ekki kvóti á hvert einstakt skip. Þar eru heildarkvótar og menn reyna að stýra sóknarþunganum. Sá maður sem ræður hvað mestu um það hvernig þessi sóknarþungi er situr í Brussel og heitir Manuel Marin, en hann þarf hins vegar að ná samkomulagi meðal sjávarútvegsráðherra aðildarþjóðanna. Og nú hefur hann verið uppi með hugmyndir um það að teknar verði upp nýjar sóknartakmarkanir með stækkun möskva og ýmsum öðrum friðunaraðgerðum. Það hefur ekki náðst samkomulag um það og ég óttast það að ef hér ætti að taka upp þá sóknarstýringu, sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson hefur komið með hugmyndir um hér ár eftir ár, þá þyrfti nú allmikið fyrir því að hafa að koma sér saman um slíka hluti. Og halda menn virkilega að það þyrfti enga miðstýringu til þess? Að það gæti allt byggst á frelsi, sjálfsákvörðunarrétti og öllum þeim fallegu orðum sem menn velja í þessari umræðu og maður les svo oft í Morgunblaðinu þessa dagana þegar þeir eru að ræða um það hvernig þetta skuli nú allt saman gert, annaðhvort í Reykjavíkurbréfi eða leiðurum sem ég ætla að koma aðeins að á eftir?
    Nei, auðvitað gengur þetta ekki upp. Og mér þykir leitt að segja það við Þorvald Garðar Kristjánsson þótt ég velji ekki þau sömu orð og hann viðhafði hér um það sem hann var sjálfur að leggja til. Hann sagði eitthvað á þá leið að flestir segðu að þetta gengi ekki upp og ég verð að taka undir það.
    Að öðru leyti hefur verið talað um kvótakerfi í einhverri mynd í þessari umræðu. Tveir af þingmönnum Sjálfstfl. hafa haft aðrar lausnir, þ.e. annar þeirra að láta veiða meira og hinn að stýra því með einhverjum undursamlegum hætti hvernig skipin skuli úr garði gerð. Og þá er nú gott að hafa góða Siglingamálastofnun til að vinna í því og þyrfti nú kannski eitthvað að fjölga þar. Hinir hafa verið að tala um kvóta sem skuli að vísu skipt með öðrum hætti.
    Fulltrúar Kvennalistans hafa eins og áður lagt það til að fiskveiðiheimildunum skuli skipt að miklu leyti á milli sveitarfélaganna og að sveitarfélögin skuli síðan hafa það verkefni að skipta þeim á milli annarra, og eins og hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir sagði hér, að þær skyldu hafa það hlutverk eða nefnd á vegum þeirra að skipta því á milli útvegsmanna og sjómanna

á viðkomandi stað. Það má vel vera að einhverjir trúi því að það verði betra fyrirkomulag að hafa það á vegum einhverrar nefndar í hverju sveitarfélagi. Ætli sú nefnd þurfi þá ekki að viðhafa einhverja viðmiðun? Ætli sú nefnd þurfi þá ekki að taka tillit til afla skipanna á undanförnum árum? Eða hvað hafa hv. þm. í huga? Ætli það mundi ekki reynast mörgum sveitarstjórnunum erfitt að marka stefnu í þeim málum og ætli sé nú ekki hætt við því að aðilar í viðkomandi sveitarfélögum mundu fljótt skipast í flokka eftir því hvort þeir ættu hagsmuna að gæta á togurum, trillum, bátum eða í fiskvinnslu? Ætli það yrðu ekki deilur þar um þessa hluti eins og víðast hvar annars staðar? Og er það rétt stefna að koma þeim málum inn til sveitarstjórnanna sem úrlausnarefni þeirra? Ég er andvígur því og tek ekki undir þau sjónarmið því að þá yrði nú fyrst ófriður í viðkomandi sveitarstjórnum í viðkomandi byggðarlögum.
    Síðan eru enn aðrir sem halda því fram að það sé miklu betra að skipta þessum afla upp á milli fiskvinnslunnar, annaðhvort að öllu leyti eða að hluta. Þar þarf nú væntanlega að hafa einhverja viðmiðun og það er allt annað en létt verk að finna þá viðmiðun hvernig þessu skuli skipt upp á milli fiskvinnslunnar. Og hvaða sjónarmið ætli fiskvinnslan mundi hafa í þeim efnum, að skipta því á milli þeirra aðila sem hefðu róið frá viðkomandi byggðarlagi á undanförnum árum? Ég hef miklar efasemdir um það. Ætli fiskvinnslan vildi ekki ná í aflann með sem ódýrustum hætti og láta þau skip veiða hann sem gætu gert það með sem minnstum tilkostnaði. Ég á von á því að þau sjónarmið yrðu ofan á hjá fiskvinnslunni og ég er andvígur slíkri uppskiptingu.
    Síðan koma enn aðrir og segja: Við skulum ekkert vera að vandræðast í þessu. Við skulum bara selja þetta og bjóða þetta upp og láta menn bjóða í. Það er jafnvel gengið svo langt þessa dagana á síðum Morgunblaðsins að þeir vilja nú fara að skattleggja allan afla án þess að hefta framsalsrétt og telja það vera lausn allra mála. Ég spyr: Er þetta að verða hin opinbera stefna Sjálfstfl.? ( Gripið fram í: Nei.) Það hefur verið mikill stígandi í þessari umræðu í Morgunblaðinu. Þeir segja hér í Reykjavíkurbréfi fyrir nokkru og vitna mjög gjarnan í eitthvert fyrirbæri sem heitir aldamótanefnd Sjálfstfl. sem ég hef skilið að sé eitthvert fyrirbæri sem hefur a.m.k. framtíðarsýn fyrir hönd þessa flokks og ætlar sér að vera þar við völd a.m.k. um næstu aldamót --- og það er vitnað í umræðu í þessari aldamótanefnd um þessi mál
og í Reykjavíkurbréfi segir að þar sé sumt fróðlegt í þeirri úttekt þó deila megi um niðurstöðurnar enda málið hið flóknasta og erfitt úrlausnar. Bent er á þá leið að stjórnvöld gefi upp heildarkvóta sem mætti veiða á tilteknu tímabili og yrðu þeir þá hlutskarpastir sem best kynnu til verka og mest úthald hefðu ef aðstæður væru ákjósanlegar við veiðarnar. Þessi leið væri hvetjandi og þykir það mikill kostur að sjálfsögðu. Dugnaður og áræði skipstjórnarmanna og sjómanna eigi að njóta sín á miðunum, nýta þurfi rækilega landkosti þeirra byggða sem næst eru bestu fiskimiðunum og helst væri ákjósanlegt að hætta öllum pólitískum afskiptum af framleiðslunni.
    Já, þetta er út af fyrir sig tillaga, að menn fari út í hömlulausa samkeppni á miðunum og hætti veiðum þegar menn hafa náð heildarkvótunum. Þá er nú betra að hafa sterk bein til þess að geta stöðvað flotann og skipað honum öllum í land. Ég er hræddur um að aldamótanefndin þurfi að undirbúa sig vel, jafnvel þótt hún hafi nokkur ár til stefnu, ef henni á að takast það mikla verk. Og það gæti vel verið að það væri gott að hafa einhverja vonda miðstýringarmenn í ballestinni a.m.k. til að hafa með í ráðum og hafa með í því hvernig ætti að koma, þó það væri ekki nema Vestfirðingum, í höfn, hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson. ( ÞK: Ég afskrifaði þessa leið.) Já, þú afskrifaðir hana, en ég er að benda þér á framtíðarsýn þíns ágæta flokks sem þú hefur nú trúað á hingað til.
    En það kemur líka fram í þessari ágætu grein, sem er nú ekki ágæt, þegar farið er að tala um það hvað höfundar Reykjavíkurbréfsins, sem hafa nú verið mjög mótandi um stefnu Sjálfstfl., ætla að gera. Þá er aðalniðurstaðan þessi: Núverandi kerfi hefur ekki leyst neinn vanda heldur kallað á margvíslega erfiðleika, brask og óhagkvæmni og augljóst --- og þá kemur lausnin --- að nauðsynlegt er að breyta til og finna lausn sem væri eðlileg, arðsöm og réttlát en þó umfram allt hvetjandi og verndandi en jafnframt hagkvæmari og arðvænlegri en þær reglur sem nú gilda. Það er fínt fyrir aldamótanefndina að hafa þessa leiðsögn frá leiðaraskrifurum og pólitískum forustumönnum, leyfi ég mér að segja, Sjálfstfl. því að Morgunblaðið er að sjálfsögðu hluti af stefnumótun Sjálfstfl. í þessu máli. En þó kemur niðurstaðan í leiðara sl. laugardag þar sem lagt er til með ýmsum orðum að selja öllum þeim og taka skatt af öllum þeim sem róa á miðin hér allt í kringum landið, hvort sem þeir eru á smábátum, togurum eða öðrum fleytum, og við það verði öllu réttlæti fullnægt. Þetta er undarleg framtíðarsýn. Það er fyrst og fremst haft á móti núverandi kerfi að heimilt sé að framselja afla milli skipa og þar komi stundum verð fyrir. ( HBl: Er ráðherrann hættur að lesa í Morgunblaðinu?) Ja, ég ætlaði að gera hlé á því, hv. þm., en það er ekki oft sem ég hef tafið umræðu hér um stjórn fiskveiða. Ég hef oftast þurft að eyða tíma mínum í það að hlusta á hv. þm. í þeim málum og hef reynt að gera það dyggilega þannig að ég vænti þess að hv. þm. geti hlustað á mig í nokkrar mínútur hér til viðbótar. ( HBl: Ég segi nú ekki að þetta sé svanasöngur, en ...) Ekki veit ég hvernig ég á að skilja orð hv. þm., hvort hann er sammála þessum upplestri, en ég vænti þess að hjá honum séu nú einhverjir strengir sem slá á móti þessum svanasöng Moggans í málinu þótt ég viti það að strengir sem þessir hafi mikil áhrif inn í flokkinn. Vonandi verður það ekki fyrr en um næstu aldamót.
    En aðalgagnrýnisatriðið er að það skuli vera heimilt að framselja afla á milli skipa. Menn kalla það brask, menn kalla að það sé verið að selja mönnum lífsbjörgina. Gott og vel. En ég spyr á móti: Er íslenski fiskiskipaflotinn of stór? Mín niðurstaða er sú

að hann sé of stór og skipin séu of mörg. Og það er ekkert vit í því að hafa svona mörg skip. Ef hv. þm. eru sammála því að skipin séu of mörg þá spyr ég: Hvernig ætla menn að fækka þeim? Hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson segir að það eigi að stýra sókninni en ég býst við því að það þurfi að fækka skipunum allmikið í upphafi. Og hver ætlar að bera þann kostnað? Eða halda menn að menn muni sætta sig við það, hvort sem um er að ræða smábátaeigendur eða aðra, að skipin verði einfaldlega tekin af þeim endurgjaldslaust eða lokuð inni í höfnum? Nei, það mun aldrei verða. Eru menn tilbúnir að leggja sérstaka skatta á almenning hér í landinu til að kaupa upp þessi skip og borga þau upp af ríkinu? Nei, menn eru ekki tilbúnir til þess. Og hvaða leið er þá eftir? Eina leiðin er sú að þeim sem í útgerð standa sé heimilt að færa þessar aflaheimildir á milli skipa og það verður ekki gert nema endurgjald komi fyrir. Er hægt að reikna með því að sá maður, sem hefur e.t.v. rétt til þess að veiða 30 tonn af fiski, láti þessi réttindi endurgjaldslaust og sitji uppi með bát sem hefur engar veiðiheimildir og skuldirnar á honum? Eða má reikna með því að það sé einfaldlega hægt að taka þessar heimildir af bátunum, afhenda þær fiskvinnslunni eða sveitarfélögunum í fullkominni óvissu um það hvað skuli gerast næst? Nei, að sjálfsögðu mundi aldrei verða sátt um það. Því er það eina leiðin að skipta þessum rétti upp á milli skipanna, að hafa þennan rétt framseljanlegan og aðilar verða að hafa frelsi til að semja um það sín í milli, með ákveðnum takmörkunum þó.
    Það liggur alveg ljóst fyrir að ef menn taka þá ákvörðun að selja þetta allt saman frá sér, eins og sumir hafa verið að láta skína í að fólk t.d. í Grímsey mundi gera, þá getur enginn komið slíku byggðarlagi til bjargar. En hafa menn trú á því að þeir sem hafa þetta að aðalatvinnu, hafa haft þetta að atvinnu og vilja hafa af þessu atvinnu hugsi um það eitt að losa sig við þessi réttindi? Nei, svo er alls ekki. Þeir eru hins vegar áhyggjufullir yfir sinni framtíð, telja sig þurfa meira og það eru eðlilegar áhyggjur sem þessir aðilar hafa. En ætli það sé nú samt ekki betra að hafa þó ákveðin réttindi á skipunum og hafa heimild til þess að slá sér saman og gera út með hagkvæmari hætti? Auðvitað væri best að allir gætu fengið meira, hvort sem það eru togarar sem hafa verið í sóknarmarki, smábátar eða ýmsir aðrir. Þeir sem trúa því að það sé hægt að leysa þetta allt með því að veiða meira, það eru menn sem eru bjartsýnir. Og ef menn trúa á slíkt, þá ættu menn að sjálfsögðu að halla sér að slíkum skoðunum.
    Ég vil svo að lokum segja að það var vissulega erfitt skref að stíga að fara út í það að skipta öllum afla upp á milli smábátanna og það hefði verið gott að geta komist hjá því. Ég vil hins vegar benda á það að menn eiga þann kost að velja svokallaðar krókaveiðar og þar hafa menn allmikið frelsi. En það er hins vegar hætta á því að aflinn fari umfram viðmiðunarmörk á næstu þremur árum í þeim flokki og því hafa menn reynt að hafa strangar reglur um það hverjir gætu tekið þátt í veiðunum í þeim flokki, svo strangar að mörgum mislíkar það. Það er einfaldlega vegna þess að bæði ég og margir aðrir sem að þessu koma telja það mjög mikilvægt að geta haft slíkan almennan flokk þar sem hver og einn bátur er ekki nákvæmlega skilgreindur, hvað hann megi veiða. Vonandi verður það svo í framtíðinni að við getum haft slíkan almennan flokk, en það verður því aðeins hægt að vel verði haldið utan um það hverjir geti þar verið.
    Ég vil svo ítreka að þótt hér sé um svokallaða tilraunaúthlutun að ræða, þá er sú úthlutun vissulega mjög sterk vísbending um það hverju hver og einn getur átt von á. Við vitum að þar eru ýmsar villur og þar eru atriði sem þarf að skoða betur. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu að sú nefnd, sem að þessu máli hefur unnið, hefur unnið mjög gott starf og hún hefur skilað samhljóða niðurstöðu. Þessi mál hafa verið unnin í eins góðri samvinnu við hagsmunaaðila og nokkur kostur hefur verið.
    Menn geta út af fyrir sig gert lítið úr því og haldið því fram, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson, að með því að sjútvrn. hefur samvinnu við Landssamband ísl. útvegsmanna þá sé verið að fara í einu og öllu að þeirra óskum. Svo er alls ekki. Hins vegar hefur tekist ágæt samvinna við þau samtök. Og það sama á við um Landssamband smábátaeigenda. Það hefur verið ágæt samvinna við þau samtök nú að undanförnu. Ég er ekki þar með að segja að þeir séu ánægðir með alla hluti eða kasta einhverri ábyrgð yfir á þá. Langt í frá. Auðvitað hvílir ábyrgðin á ráðuneytinu og undan henni skal ekki vikist. Það er hins vegar mikilvægt að reyna að leysa þessi mál í sem bestri samvinnu við aðila og fundirnir með sjútvn. voru af okkar hálfu a.m.k. heiðarleg tilraun til þess að hafa góða samvinnu við sjútvn. þingsins um málið þótt við reiknuðum ekki með því að þær væru sammála í einu og öllu því sem verið væri að gera. En nefndunum var skilmerkilega skýrt frá því á hvaða stigi vinnan væri, hvað væri búið að gera, hvernig málið liti út og þær voru beðnar um athugasemdir sem komu og það var a.m.k. að nokkru leyti orðið við þeim athugasemdum, enda er það svo að það koma að sjálfsögðu skynsamlegar tillögur frá þeim mönnum sem lengi hafa komið að þessu máli.
    Til mín hefur verið beint ýmsum fyrirspurnum í þessari umræðu en þeir þingmenn sem það hafa gert eru ekki lengur hér í salnum og ég sé því, virðulegur forseti, ekki ástæðu til að svara þeim. Ég vænti þess að fá tækifæri til þess síðar. Það er ekki skortur á vilja til að svara þessum hv. þm. en ég sé ekki ástæðu til að svara fyrirspurnum frá hv. þm. sem ekki eru hér lengur staddir.