Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins sem er á þskj. 144. Þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi og hlaut afgreiðslu í þessari hv. deild, Ed. Við þinglausnirnar á sl. vori var það til meðferðar og reyndar á lokastigi í iðnn. Nd., en hlaut þar ekki afgreiðslu vegna tímaskorts. Frv. er hér flutt eins og það var afgreitt frá hv. Ed. á síðasta þingi.
    Tilgangurinn með frv. er, eins og kemur fram í heiti þess, að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar í hlutafélag. Frv. er að stofni til byggt á frv. sem samið hafði verið í iðnrn. á árinu 1987 en þó á þeim drögum gerðar nokkrar breytingar. Ég mun reyna að lýsa meginefni frv. í stuttu máli í sex liðum.
    1. Lagt er til að sérstök matsnefnd meti eignir Sementsverksmiðjunnar og að þetta mat verði haft til hliðsjónar við ákvörðun fjárhæðar hlutafjár í hinu væntanlega félagi.
    2. Lagt er til að stofnað verði hlutafélag um Sementsverksmiðjuna og að hlutverk félagsins verði gert nokkru víðtækara en Sementsverksmiðjunnar í gildandi lögum. Þá verði félaginu heimilað að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum eða sameignarfélögum með skýrum og ótvíræðum hætti.
    3. Lagt er til að ekki verði heimilt að selja hlutabréfin í Sementsverksmiðjunni hf. nema samþykki Alþingis komi til með lagabreytingu.
    4. Lagt er til að við verksmiðjuna starfi sérstök samstarfsnefnd starfsmanna og stjórnar og að lögbundið samráð verði haft við Akraneskaupstað um málefni félagsins.
    5. Lagt er til að skipuð verði sérstök undirbúningsnefnd til þess að undirbúa stofnun félagsins er yfirtaki rekstur verksmiðjunnar í ársbyrjun 1992.
    6. Lagt er til að stofnfundur félagsins verði haldinn eigi síðar en 31. des. 1991 og hið nýja hlutafélag taki við rekstrinum miðað við þau áramót.
     Með lögum nr. 35/1948 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að reisa hér á landi verksmiðju til vinnslu sements. Á grundvelli þessara laga var síðan reist Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi sem sérstakt ríkisfyrirtæki. Verksmiðjan tók til starfa árið 1958 og hefur starfað óslitið síðan.
    Alþingi kýs nú fimm menn í stjórn Sementsverksmiðjunnar til fjögurra ára í senn. Iðnrh. skipar einn úr hópi stjórnarmanna sem formann.
    Við umræður um þetta mál á síðasta þingi benti ég á nauðsyn þess að tryggja þyrfti betur tengsl starfsmanna og stjórnenda þar sem starfsmönnum væri gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um aðbúnað og hagkvæmni í rekstri og fleira sem lýtur að daglegri starfsemi í verksmiðjunni. Þetta er gert í 6. gr. frv.
    Í öðru lagi vék ég þá að því vegna þess hversu mikilvæg Sementsverksmiðjan er fyrir Akranes og grannbyggðirnar að nauðsynlegt væri að ræða stofnun félagsins ítarlega við fulltrúa bæjarins og kanna

áhuga þeirra á einhvers konar lögbundnu sambandi eða samráði milli bæjarins og fyrirtækisins. Þessar viðræður fóru fram og reyndar er tryggt til frambúðar með tillögum í frv. við 7. gr. hvernig haga skuli slíku föstu, lögbundnu samráði.
    Í þriðja lagi taldi ég hyggilegt að kveða skýrt á um það hvernig framkvæma skyldi matið á eignum verksmiðjunnar sem lagt yrði til grundvallar við stofnun félagsins og ákvörðun hlutafjár. Við mat á eigum Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg þegar henni var breytt í hlutafélag var farin sú leið að biðja yfirborgardómarann í Reykjavík að tilnefna oddamann í matsnefnd en Félag löggiltra endurskoðenda einn og Fjárlaga - og hagsýslustofnun annan. Þetta var framkvæmdarvaldsákvörðun til þess að tryggja að nefndin sem gerði matið hefði sem óháðasta stöðu þannig að ekki risu síðar deilur um það hvernig að matinu hefði verið staðið. Með þessi sjónarmið í huga tel ég nú hyggilegt að það sé tekið fram í lögunum hvernig standa skuli að matinu. Þetta er gert með tillögunni í b - lið 1. gr. frv. þar sem lagt er til að bæjarfógetinn á Akranesi skipi þriggja manna matsnefnd þar sem a.m.k. einn nefndarmanna sé löggiltur endurskoðandi. Með þessu á að vera tryggt að nefndin hafi óháða stöðu gagnvart því sem meta skal.
    Í fjórða lagi taldi ég heppilegt að skipa undirbúningsnefnd til þess að undirbúa félagsstofnunina og annast nauðsynlega samningagerð fyrir hönd hins væntanlega félags og leggja drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið.
    9. gr. í þessu frv. kveður á um undirbúningsnefndina og hennar verkefni. Þetta var gert með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga um að greiða verði helming hlutafjár við stofnun hlutafélagsins. Hlutafjárframlagið er hins vegar fyrst og fremst í formi eigna verksmiðjunnar og því eðlilegt að hlutafélagið verði stofnað samtímis því er yfirtakan á rekstrinum á sér stað.
    Í fimmta lagi bendi ég svo á að í 8. gr. er kveðið skýrt á um það að ríkissjóður geti ekki boðið hlutabréfin í Sementsverksmiðjunni til sölu nema fyrir liggi samþykkt Alþingis með beinni breytingu á b - lið 1. gr. frv.
    Ég vík svo nokkrum orðum að skattamálum fyrirtækisins. Í núgildandi lögum um Sementsverksmiðju ríkisins er kveðið á um skattagreiðslur verksmiðjunnar, en þau ákvæði mundu niður falla verði þetta frv. að lögum og þá mundi verksmiðjan greiða skatta eins og hvert annað hlutafélag í landinu. En verksmiðjan greiðir nú landsútsvar í stað aðstöðugjalds. Verksmiðjan greiðir fasteignaskatta en er að öðru leyti undanþegin skattskyldu. Ef þetta frv. verður að lögum verður meginbreytingin á greiðslu skattanna sú að verksmiðjan mun eftirleiðis greiða aðstöðugjald, eignarskatt og væntanlega tekjuskatt eftir rekstrarafgangi. Ég get nefnt það hér að hlutdeild Akraneskaupstaðar í landsútsvari Sementsverksmiðjunnar miðað við skattárið 1989, rekstrarárið 1988, var 3,5 millj. kr. en alls greiddi þá verksmiðjan 14 millj. í landsútsvar. Hefði verksmiðjan greitt aðstöðugjald eftir þágildandi reglum mundu tekjur Akraneskaupstaðar hafa orðið um 7

millj. kr.
    Við umræður um þetta mál hafa komið fram hugmyndir um það að eðlilegt geti talist að aðstöðugjöld eða hliðstæð gjöld af fyrirtækjum sem að öllu leyti eru í eigu ríkisins, landsfyrirtækjum, renni í sameiginlega sjóði, Jöfnunarsjóð eða Byggðasjóð, en ekki í sveitarsjóð heimasveitarfélags fyrirtækisins. Þessar hugmyndir tengjast að sjálfsögðu umræðunum um framtíð aðstöðugjaldsins í heild sem m.a. hefur verið hreyft í nýframkominni skýrslu um breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Ég tel hins vegar ekki ástæðu til þess að þessar umræður eigi að tefja þetta frv., svo þarfar sem þær eru í sjálfu sér. Þetta frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðjuna stendur fyrir sínu óháð þessum umræðum.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu frv. Mér virðist það vera mikið framfaramál bæði fyrir verksmiðjuna sjálfa en ekki síður það byggðarlag þar sem hún er staðsett. Ég tel að forsendurnar sem í upphafi voru góðar og gildar fyrir því að reka fyrirtækið á ríkisins ábyrgð sem ríkisfyrirtæki séu nú ekki lengur til staðar og heppilegra sé í nútímanum að reka það með takmarkaðri ábyrgð hlutafélags. Sértilhögunin sem þá var ákveðin helgaðist fyrst og fremst af því að þá var um að ræða sannkallað stórfyrirtæki á íslenska vísu. Stofnun fyrirtækisins og rekstur hafði í upphafi í för með sér mjög miklar breytingar á atvinnuháttum á Akranesi. En nú er fyrirtækið svo sannarlega orðið að grónum borgara í byggðarlaginu og því eðlilegt að það taki þátt með öllum réttindum og skyldum venjulegs atvinnufyrirtækis í atvinnurekstri bæjarins eins og önnur atvinnufyrirtæki gera þar um slóðir.
    Ég vil mælast til þess, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. þessarar deildar.