Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Herra forseti. Frv. það sem við nú ræðum um er um það að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðju ríkisins í það horf sem hæfir best einkarekstri. Breyta rekstrarforminu í hlutafélagsform. Ég held að það sé eðlilegt að álykta sem svo að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt að færa Sementsverksmiðju ríkisins í einkaeign. Og það mun gleðja þá sem taka einkaeign fram yfir ríkiseign og ég held að sú þróun hljóti að gleðja hv. 3. þm. Vesturl. ef tekið er mið af því sem hann sagði um kosti einkareksturs fram yfir ríkisrekstur hér í ræðu sinni áðan. Það var mjög vel mælt og ég ætla að það mætti jafnvel segja að í þessu efni væri hv. 3. þm. Vesturl. kaþólskari en páfinn. Og er þetta ekki sagt hv. þm. til lasts.
    Þetta frv. sem við nú ræðum er gamall kunningi, eins og við vitum allir, frá síðasta þingi. Ég stóð þá að nál. hv. iðnn. sem mælti með samþykkt frv. En ég hafði fyrirvara að undirskrift minni undir þetta nál, m.a. varðandi skattamálin. Hæstv. iðnrh. kom aðeins inn á þann þátt þessa máls, þ.e. það sem þetta frv. felur í sér að Sementsverksmiðjan greiði ekki landsútsvar eins og verið hefur heldur aðstöðugjald. En hæstv. ráðherra þótti þetta atriði ekki þess eðlis að ástæða væri til þess að fjölyrða mikið um það. Hann sagði með öðrum orðum að þetta atriði ætti ekki að tefja umræður um þetta frv.
    En það er einmitt þetta atriði sem ég ætlaði sérstaklega að leyfa mér að gera að umræðuefni. Höfum það í huga að tilgangur þessa frv. er að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar, eins og fram er tekið í grg. með frv. Tilgangurinn er ekki sérstaklega að breyta reglum um skattgreiðslur Sementsverksmiðjunnar. Ef það hefði verið þá var hægt að gera það með hægu móti án þess að breyta rekstrarforminu. En spurningin er því hvers vegna er þetta gert? Hvers vegna er lagt til að breyta skattgreiðslum Sementsverksmiðjunnar?
    Um þetta atriði hafði ég fyrirvara á síðasta þingi þegar þetta frv. var rætt og lagði áherslu á að það væri spor aftur á bak að rýra tekjur Jöfnunarsjóðsins með þessum hætti vegna þess að landsútsvarið gengur eins og við vitum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en ekki aðstöðugjaldið. Það voru fleiri sem bentu á þetta og m.a. hefur hv. 4. þm. Vesturl. bent á þetta hér í þessum umræðum líka. Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Vesturl. hefur sagt um þetta efni.
    En þó að þessi breyting á skattgreiðslum fyrirtækisins næði fram að ganga á síðasta þingi þá er nú svo komið að það hlýtur að vera annað viðhorf í þessum efnum en var áður. Hvers vegna er það? Það er vegna þess sem skeð hefur frá þeim tíma og varðar skattamál almennt og fram kemur í lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt voru 20. maí sl., eftir að þessi hv. deild afgreiddi frv. um Sementsverksmiðju ríkisins á síðasta þingi. Ég legg áherslu á að þessi lög eru sett eftir að þessi hv. deild tók ákvarðanir sínar. Og hvers vegna er ég að leggja áherslu á þetta? Það er vegna þess að í þessum lögum eru tekin upp ný

ákvæði sem ekki voru í fyrri lögum og ekki voru í þeim lögum sem giltu um tekjustofna sveitarfélaga þegar við vorum að ræða þetta mál á síðasta þingi. Það hefur verið gerð breyting sem hæstv. iðnrh. ber ábyrgð á og stendur að vegna þess að breytingin er gerð skv. stjfrv. sem samþykkt var.
Hver er þessi breyting og af hvaða tilefni er þessi breyting orðin á?
    Þessi breyting er orðin til vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Um leið og ákveðin var ný skipan á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga voru gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til þess að efla sveitarfélögin gegnum Jöfnunarsjóðinn vegna hinnar nýju verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Þetta er beint tekið fram í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga. En hvað segir um þetta efni þar?
    Í 13. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga eru tveir liðir sem snerta sérstaklega þetta mál. Í fyrsta lagi liður sem kveður svo á að það skuli úthlutað sérstökum framlögum úr Jöfnunarsjóði til að aðstoða dreifbýlissveitarfélög til að standa undir auknum rekstrarkostnaði við grunnskóla vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Í öðru lagi segir í þessari grein að það skuli úthlutað sérstökum framlögum úr Jöfnunarsjóði til að bæta upp annan aukinn kostnað vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga.
    En það er ekki látið nægja að taka þetta svo skýrt fram sem raun ber vitni. Í 16. gr. laganna um tekjustofna sveitarfélaga er hnykkt á þessu. Hvers vegna? Af því að þetta var talið svo mikið atriði og litið á það sem forsendu fyrir niðurstöðunni um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að það yrði gætt stöðu dreifbýlissveitarfélaganna með sérstökum framlögum úr Jöfnunarsjóði.
    Í 16. gr. laganna um tekjustofna sveitarfélaga segir að framlögunum úr Jöfnunarsjóðnum skuli varið til þess að bæta dreifbýlissveitarfélögum upp aukinn kostnað vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem koma til framkvæmda samhliða lögum þessum. Enn fremur segir í sömu grein: ,,Framlögin skulu miðuð við að hagur þessara sveitarfélaga verði ekki lakari eftir breytingar á verkaskiptingunni en áður var.``
    Ég hygg að ég þurfi ekki að gera frekari grein fyrir þeirri breytingu sem hefur orðið í þessum efnum frá því að við vorum síðast að ræða um skattamál Sementsverksmiðjunnar.
    Látum svo vera að það hafi getað verið álitamál hvort ætti að gera á síðasta þingi þá breytingu á skattgreiðslum Sementsverksmiðjunnar sem þá var lögð til. En ég ætla, hvaða álit sem menn hafi þá haft á þessum málum, að það sé augljóst að eins og nú er komið geti það tæpast talist álitamál. Eða á að skilja það svo að það sé ekki meira lagt upp úr hinum nýju ákvæðum í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem ég hef hér verið að gera grein fyrir, heldur en að prentsvertan á lögunum sé naumast þornuð þegar má fara að svíkja þessi fyrirheit sem gefin voru um leið og ákveðin var ný verkaskipting ríkis og sveitarfélaga?

    Ég er ekki að segja að þau fyrirheit sem þá voru gefin verði öll svikin með breytingu á skattgreiðslum Sementsverksmiðjunnar en það munar um það. Það munar um allt í þessu efni. En umfram allt: Fær það staðist að menn geti og ríkisstjórnin geti leikið sér svo með þessa hluti, með loforð sín í þessu efni og með lagasetninguna, sem ég hef hér gert grein fyrir, að það megi láta í dag eins og þetta hafi ekki skeð?
    Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki megi líta svo á að hæstv. ráðherra sem er góður og skynsamur maður ... ( HBl: Enda Vestfirðingur.) Enda Vestfirðingur, segir hv. 2. þm. Norðurl. e. sem telur sér nú helst til gildis að eiga rætur líka á Vestfjörðum. Má ég ekki gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra vilji taka þetta til sérstakrar athugunar með tilliti til þess sem ég hef nú bent á vegna þess að við verðum að ganga út frá því að höfuðtilgangur með þessu frv., sem við nú ræðum, sé að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar en ekki skattgreiðslum?