Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég er auðvitað samþykkur því að Sementsverksmiðju ríkisins skuli að forminu til breytt í hlutafélag. Og séu öll hlutabréf í eigu ríkisins til að byrja með er ekkert við því að segja. Það má stíga þetta skref í tveim skrefum, að Sementsverksmiðjan skuli verða frjálst hlutafélag. Ég vil samt gera eina athugasemd í því sambandi. Mér finnst eðlilegt að þingið kjósi stjórn hlutafélags sem er í eigu ríkisins en ekki að ráðherrar fari að öllu leyti með stjórn slíkra félaga. Það er algjörlega óeðlilegt og út í hött ef sú er hugsun ráðherra og ég bið nefnd að athuga það.
    Ég vil í öðru lagi vekja athygli á því að mér finnst ekki eðlilegt til frambúðar að Akraneskaupstaður fái ekki sínar tekjur af Sementsverksmiðju ríkisins í gegnum aðstöðugjald eins og önnur sveitarfélög af þeim fyrirtækjum sem þar eru. Nú er ég að vísu ekki nógu kunnugur lögum um Sementsverksmiðjuna til þess að ég þori um það að segja hvort Akraneskaupstað sé það bætt upp með öðrum hætti.
    Ég vil í þriðja lagi taka undir það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan að vitaskuld er eðlilegt að brjóta upp Síldarverksmiðjur ríkisins, breyta þeim í hlutafélög. Kannski er eðlilegt að Siglufjörður sé þá sjálfstætt hlutafélag, Raufarhöfn sjálfstætt hlutafélag, Seyðisfjörður sjálfstætt hlutafélag og þar fram eftir götunum. Um það má auðvitað ræða og hafa skiptar skoðanir. Það er ekki kjarni míns máls en ég vonast til þess að ríkisstjórnin muni fylgja þessu frv. eftir með því að leggja fram frv. um það að einkavæða Síldarverksmiðjur ríkisins.
    Ég vil svo aðeins ítreka það sem ég sagði. Mér finnst óeðlilegt að ríkisstjórnir skipi að öllu leyti stjórnir þeirra fyrirtækja sem eru meiri háttar og að öllu leyti í eigu ríkisins.