Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég taldi að ég hefði svarað hv. 4. þm. Vestf. Það hefur greinilega ekki verið nógu beinlínis gert. Ég get endurtekið það sem var meiningin að gengi fram af mínum orðum.
    Ég tel ekki ástæðu til að ræða sérstaklega skattalög og tekjustofna sveitarfélaga vegna þessa máls. Ég tel að sú umræða sem hefur verið vakin upp um framtíð aðstöðugjaldsins, um tekjustofna Jöfnunarsjóðsins og ég tala nú ekki um það hlutverk hans, sem hv. 4. þm. Vestf. hér nefndi, að tryggja hag dreifbýlissveitarfélaganna sem hafa fengið erfiðari hlut vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga sé mál sem svo sannarlega þarfnast óskoraðrar athygli þingmanna. En ég held að það sé ekki heppilegt að tengja þessi mál saman og endurtek það sem ég sagði að tilgangur þessa frv. er alls ekki sá að breyta þar um. Og ég veit reyndar, eins og þingmenn þekkja, að verði það sem ég vona, að við náum samningum við erlenda viðsemjendur okkar um byggingu nýs álvers á Íslandi mun líka hagur þeirra sem vilja efla atvinnu um allt land og fjárhag sjóða sem jafna aðstöðu byggðanna í landinu vænkast mjög því þá verður miklu fé varið til þeirra mála.
    Þetta vildi ég nefna. En vegna þess sem kom hér fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. þá dáist ég sem fyrr að húsbóndahollustu hans en held að hann sé eiginlega orðinn helst til ,,ivrig i tjenesten`` því þetta atriði er nú ágreiningslaust eins og það var afgreitt hér frá deildinni í fyrra. Ég bendi á það að fáir eru ráðherrar til eilífðar og ekki frekar en aðrir við hér sem nefndir vorum og gegnum störfum fjmrh. og iðnrh. Ég bið menn að athuga þetta mál út frá einhverjum allt öðrum sjónarhól.