Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Flm. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það var vakin athygli mín á því að þau tæki sem þeir þurfa að nota sem orðið hafa alvarlega sjónskertir eru mjög dýr, kosta á bilinu 170 -- 340 þús. kr. Þessi tæki eru auðvitað eingöngu ætluð þeim einstaklingum sem ekki geta notast lengur við önnur sjónhjálpartæki. Sjónstöð Íslands hefur fengið lítils háttar fé á fjárlögum til þess að kaupa og lána einstaklingum tæki af þessu tagi, fékk um 5 millj. kr. til þessara þarfa á því ári sem nú er að líða, en á hinn bóginn er búist við að um 30 -- 50 manns bætist við í þennan hóp á hverju ári. Það má nota þessi tæki, myndavél og skjá, fyrir fleiri en einn á dvalarheimilum.
    Þetta litla frv. sem ég hef lagt hér fram snýr eingöngu að því að virðisaukaskattur verði felldur niður af þessum tækjum. Til þess að málið liggi ljóst fyrir og gefi ekki efni til tortryggni eða misnotkunar er í frv. sérstaklega tekið fram að þessi tæki skuli vera skv. tollnúmeri 9008 3000. Ég hef rætt þetta mál við forstöðumenn Sjónstöðvar Íslands. Þeir telja að málið sé þarft og leggja áherslu á að mjög gott sé fyrir fólk og raunar nauðsynlegt að það geti fengið tæki af þessu tagi í hendur áður en sjónin hefur daprast of mikið, meðan viðkomandi hefur þrek og þrótt til að læra á tækin og nota þau sér til sem mests gagns.
    Ég vil leggja áherslu á að ég geri mér grein fyrir að undanþágur frá ákvæðum laga um virðisaukaskatt eiga að vera fáar um leið og ég hlýt að lýsa því yfir að slík prinsíp séu léttvæg gagnvart þeim sem eru að missa sjónina.
    Ég vil, herra forseti, leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. og biðja afsökunar á því að ég gleymdi að leggja til að frv. um breytingu á lögum um prestaköll yrði vísað til 2. umr. og allshn.