Jöfnunargjald
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um jöfnunargjald. Í frv. er gert ráð fyrir lækkun jöfnunargjaldsins í áföngum á næsta ári og er lagt til að gjaldið verði fellt úr gildi hinn 31. des. 1991.
    Jöfnunargjaldið hefur verið lagt á innfluttar iðnaðarvörur sem keppt hafa við íslenskar frá því á árinu 1978. Gjaldinu hefur verið ætlað að jafna þá röskun sem þátttaka Íslands í fríverslun hafði í för með sér, þ.e. minnkandi tollvernd á íslenskar iðnaðarvörur og af því að virðisaukaskattur hafði verið tekinn upp í helstu viðskiptalöndum okkar á meðan töluverð uppsöfnun söluskatts hafði orðið í innlendri iðnaðarframleiðslu.
    Með upptöku virðisaukaskatts hér á landi um síðustu áramót varð mikil breyting á samkeppnisskilyrðum iðnaðarins. Íslensk iðnfyrirtæki sitja nú að mestu leyti við sama borð og helstu keppinautar þeirra að því er varðar uppsöfnun opinberra gjalda í framleiðslu þeirra. Þó eru sterk rök fyrir því að jöfnunargjaldið verði ekki afnumið í upphafi næsta árs eins og rætt hefur verið heldur það lækkað í áföngum á árinu og verður horfið í upphafi ársins 1992.
    Í grg. með frv. þessu er að finna grg. um þau uppsöfnunaráhrif sem söluskatturinn hefur enn í rekstri íslenskra iðnfyrirtækja. Í frv. eru lagðir til ákveðnir áfangar á þessari braut í að lækka gjaldið og afnema það á næsta ári. Það getur út af fyrir sig komið til greina að hafa aðra áfanga í þeirri lækkun og mætti skoða það mál í meðferð þess í nefnd, en ég tel ekki ástæðu til þess að hafa frekari orð um þetta mál hér og nú, enda er það vel kunnugt þingmönnum, og mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn.