Fjáraukalög 1990
Þriðjudaginn 04. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjáraukalaga hvað varðar yfirdráttarheimild fjmrh. í Seðlabankanum. Í 6. gr. fjárlaga er heimild um yfirdrátt svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að stofna til tímabundins yfirdráttar á viðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum á árinu 1990 vegna árstíðabundinna sveiflna í fjármálum ríkisins og semja ef með þarf um greiðslu yfirdráttarskuldar og um lánskjör.`` Mín brtt. felst í því, hæstv. forseti, að við þennan texta bætist: ,,enda verði yfirdrátturinn gerður upp fyrir áramót samkvæmt heimildum í lánsfjárlögum þannig að viðskiptareikningur ríkissjóðs verði í jafnvægi.``
    Hæstv. forseti. Þessi tillaga er flutt í framhaldi af umræðu sem oft hefur orðið hér í þinginu. Ég vil minna hæstv. fjmrh. á það að fyrir tveimur árum og einum mánuði betur lét ég kalla hann hér inn í þessa hv. deild til að spyrja hann að því hvort hann væri kominn fram úr heimildum eða kominn á ,,fittið`` eins og kallað er. Það var einmitt á þeim tíma sem hæstv. forsrh. vissi ekki hvað þetta ,,fitt`` var og hann hafði lýst því yfir á fundi á Hótel Sögu. Þetta er mér minnisstætt. En það er þannig að þegar einstaklingar og fyrirtæki fara fram úr heftinu í bankanum, þá fá þeir svona gula miða senda heim. Það væri æskilegt, alla vega lágmarkskrafa, að þegar fjmrh. fer fram úr heimildum á fjárlögum þá fái hann og Alþingi væntanlega afrit, einhverja gula miða, til þess að vita hvort hann er kominn fram úr heimildum eða ekki. En án gamans, þessi tillaga er flutt í þeim tilgangi að Alþingi staðfesti í alvöru að þau fjáraukalög sem liggja fyrir séu raunverulega marktæk því með samþykkt þessara fjáraukalaga hefur Alþingi samþykkt allar fjárveitingabeiðnir sem hæstv. fjmrh. hyggst nota á árinu 1990. Samþykkt fjáraukalagafrv. af þessu tagi heimilar því fjmrh. ekki að greiða meira úr ríkissjóði en hann hefur aflað sér heimilda til því hann er að afla sér heimilda, hæstv. forseti, til fjáraukalaga og við verðum að vænta þess að hann sé að afla þeirra heimilda sem nauðsynlegar eru. Um þetta eru skýr ákvæði í stjórnarskrá landsins, 41. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``
    Hæstv. forseti. Þessi ákvæði stjórnarskrárinnar eru alveg skýr. Fjmrh. er óheimilt að inna greiðslur af hendi nema samkvæmt heimild í fjárlögum. En eins og orðalagið er í dag í áðurnefndri opinni yfirdráttarheimild er það í reynd framsal á valdi sem Alþingi Íslendinga hefur. Alþingi Íslendinga hefur ekki leyfi til þess að framselja vald sem það hefur í hendur ráðherra. Það er í hæsta lagi leyfilegt að Alþingi framselji vald ef það er með takmörkunum. Tímabundinn yfirdráttur vegna árstíðabundinna sveiflna er t.d. eðlileg heimild en þá þarf að vera hámark á þessari heimild og um áramót verður heimildin að detta út. Slíkar heimildir eru eðlilegar og í samræmi við stjórnarskrána. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því einu sinni enn: Af hverju leggur hann ekki greiðsluáætlun

fram með fjárlögum og fjáraukalögum? Af hverju liggur ekki hér fyrir Alþingi greiðsluáætlun, nákvæmlega hvað hann þurfi mikið af peningum til 31. des. til þess að geta lokað fjárlagaárinu með sæmd, til þess raunverulega að geta rekið þetta eins og á að gera það? Ef þessi fjáraukalög duga ekki, af hverju aflar hæstv. fjmrh. sér þá ekki bráðabirgðaleyfis? Hann á að fá leyfi hjá Alþingi til þess að greiða fjármuni úr ríkissjóði. Og ef það er einhver vandræðagangur í kringum þetta á hæstv. fjmrh. að fá bráðabirgðaleyfi. Ég væri fyrir mitt leyti tilbúinn að láta hann hafa það með ákveðnum skilyrðum, með þeim skilyrðum að þessum hlutum yrði komið í lag. Greiðsluáætlun með fjárlagafrv. fyrir árið 1991 ætti t.d. ekki að vera flókið mál. Það er ekkert flókið mál að deila með 12 í rekstur ríkisstofnana.
    Öll önnur málsmeðferð í sambandi við fjármál er bara sukk og ekkert annað. ( Gripið fram í: Er bara hvað?) Sukk. Botnlaus yfirdráttarheimild er ólög með vísan til stjórnarskrárinnar. Þá er verið að ómerkja fjárlögin sem verið er að gera. Það er verið að samþykkja fjárlög, en jafnframt er verið að ómerkja þau með botnlausri yfirdráttarheimild.
    Ég tel, hæstv. forseti, að fjármálaákvæði stjórnarskrárinnar séu jafngild mannréttindaákvæðum. Allt tal um hefð í þessu sambandi tel ég vera algerlega út í hött. Ég spyr: Getur hæstv. dómsmrh. öðlast hefð til þess að fangelsa fólk án dómsmeðferðar með því að gera það nógu oft? Það er fráleitt. Þetta er nákvæmlega sama málið. Hæstv. dómsmrh. getur ekki öðlast hefð til að setja fólk í tugthúsið eftir geðþótta. Og hæstv. fjmrh. getur ekki öðlast hefð til að eyða peningum og borga með gúmmítékkum úr ríkissjóði án heimilda. Hefðarréttur í sambandi við þetta eða venjuréttur getur átt við einhverja venju sem ekki stangast á við stjórnarskrá landsins. Það er þessi misskilningur sem er í málinu. Hefðarréttur getur aldrei orðið þegar hann brýtur í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.
    Í þessu sambandi vil ég minna hér á hæstaréttardóm sem var kveðinn upp 27. febr. 1986 þar sem fjmrh. landsins var með reglugerð leyft, hæstv. forseti, að leggja á þungaskatt án takmörkunar. Og í dómsorði segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í lagagrein þessari er ráðherra veitt heimild til að ákveða með reglugerð að ökumæla skuli setja í bifreiðar sem nota annað eldsneyti en bensín og greiða skuli sérstakt gjald fyrir hvern ekinn km samkvæmt mælum þessum í stað árlegs þungaskatts. Ekki er að finna í lögunum ákvæði er takmarki heimild ráðherra til ákvörðunar á gjaldstigum eða breytinga á þeim.`` Síðan kemur dómsorð, hæstv. forseti: ,,Fallast ber á það með áfrýjanda að jafnvíðtækt framsal löggjafans á skattlagningarvaldi og hér um ræðir brjóti í bága við 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, nr. 33 frá 17. júní 1944, og skatttaka því eigi gild að lögum.``
    Þetta er dómsorð Hæstaréttar Íslands. Þetta eru náskyld mál. Þau eru sama eðlis. Þau eru um framsal á valdi sem Alþingi hefur.
    Af því að hæstv. viðskrh. er svo vænn að vera hjá okkur núna vil ég minna hann á að hann er æðsti yfirmaður seðlabanka þjóðarinnar. Ég tel hann skyldan til þess að stöðva yfirdráttarheimild í Seðlabankanum sem æðsta yfirmann bankamála í landinu samkvæmt þessari tilvitnun sem ég var að vitna hér í áðan. Annaðhvort fer Alþingi með fjárveitingavaldið eða einhver annar. Það getur ekki verið bæði og.
    Hæstv. forseti. Yfirdráttarheimild af því tagi sem hér um ræðir er heimild Alþingis til seðlaprentunar eða millifærslu á fjármunum sem hvergi eru til. Og það er einmitt þessi yfirdráttarheimild sem er ógæfuheimild þessarar þjóðar. Við ættum að breyta orðinu í ógæfuheimild. Þessi heimild gefur hæstv. fjmrh. heimild til þess að búa til verðbólgu og háa vexti og sukka með peninga á vegum ríkissjóðs án umboðs Alþingis.
    Vill Alþingi Íslendinga koma í veg fyrir vaxtahækkanir í alvörunni? Vill Alþingi Íslendinga raunverulega taka á þeim vanda sem við er að glíma í efnahagsmálum, sukki í ríkisrekstrinum og óreglu af því tagi sem hér um ræðir? Mér finnst Alþingi Íslendinga vera skyldugt til þess að gera þjóðarsáttina að veruleika í framtíðinni með því að virða grundvallaratriði. Fjármálaákvæði stjórnarskrárinnar eru grundvallaratriði í meðferð fjármuna. Eins og máltækið segir: Það sem höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. Og allt þjóðfélagið fer á eyðslufyllirí á eftir. Ég tel að ekkert mál sé jafnmikilvægt í dag og að koma á reglu í ríkisrekstrinum. Hæstv. fjmrh. hefur mörg orð haft um það að koma þeirri reglu á. Mér finnst hann því skyldugur til þess að standa við það með því að samþykkja að yfirdrátturinn verði tekinn af honum sjálfum. Hæstv. fjmrh. er búinn að fá allar þær heimildir sem hann hefur beðið Alþingi um. Hvað þarf hann meira? Hvers vegna þarf hann að hafa yfirdráttarheimild ofan á allt annað sem hann er búinn að fá? Hæstv. fjmrh. er búinn að koma með tvenn fjáraukalög á þessu ári. Hann er búinn að fá nákvæmlega allt sem hann hefur beðið um. Af hverju þarf að vera botnlaus framsalsheimild til útborgunar peninga fyrir utan þessi tvenn fjáraukalög?
    Ég minni í þessu sambandi á frv. hv. fjvn. frá síðasta ári. Hv. fjvn. lagði öll fram mikilvægasta lagafrv. sem hefur verið lagt fram þann tíma sem ég hef verið á Alþingi, einmitt um þessi mál, um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Hv. fjvn. er stærsta nefnd þingsins, níu manna nefnd, og níu manna nefnd flutti einum rómi frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði á síðasta ári sem var svæft í nefnd hér í þinginu, hæstv. forseti, svæft af formanni hv. fjh. - og viðskn., formanni þingflokks Framsfl. Það hefur verið eitthvað í þessu frv. sem ekki var nógu gott til að geta stundað hrossakaup áfram hér í þinginu. Ég vil minna hv. formann fjvn. og Ólaf Þ. Þórðarson á þeirra ræður hér í fyrra í sambandi við þetta frv. Standi þeir nú við það sem þeir sögðu þá. Nú er tækifærið.
    Á sama hátt hefur hæstv. fjmrh. ekki umboð Alþingis til þess að undirrita kjarasamninga nema þeir rúmist innan ramma fjárlaga. Hæstv. fjmrh. hefur umboð til þess að starfa í samræmi við þau fjárlög sem hafa verið ákveðin. Þetta eru skýr ákvæði í stjórnarskrá landsins. Og það er engum greiði gerður, flestum þegnum landsins tjón, með því að virða þau ekki. Hæstv. fjmrh. hefur ekki fjárveitingavaldið. Það er Alþingi Íslendinga sem hefur fjárveitingavaldið. Og kjarasamningur sem ekki rúmast innan ramma fjárlaga á að koma til atkvæðagreiðslu hér í þinginu sem fjáraukalög. Þá verður hæstv. fjmrh. að sýna fram á það hvernig hann ætlar að afla tekna fyrir auknum útgjöldum. Þetta er sú vinnuregla sem á hér að koma.
    Ráðherrar skuldbinda ríkissjóð í umboði Alþingis, alveg sama um hvaða mál ræðir. Ef ráðherrar undirrita samninga, alveg sama af hvaða tagi þeir eru, sem ekki er leyfi fyrir hjá Alþingi þá eiga þeir að gera það með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þetta er vinnuregla í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem hefur oft verið fótum troðin hér í þinginu en á ekki að gera.
    Ég fullyrði að ef gúmmítékkasukk í fjmrn. verður ekki stöðvað verður þessi þjóð ekki fjárhagslega sjálfstæð mörg ár í viðbót. Og ég vil ítreka það að vilji hæstv. fjmrh. ekki samþykkja þessa tillögu þá er hann sjálfur að segja að hans eigin fjáraukalög séu vitlaus nema hann rökstyðji þá hvers vegna hann þarf að hafa heimild umfram þau. Það er hlutverk alþingismanna að stöðva peningasukk hjá hinu opinbera. Fjárlög eru alvörumál og seðlaprentun er þjófnaður af fyrirtækjum og borgurum landsins og stjórnarskrá landsins er alvörumál. ( Forseti: Forseti vill leyfa sér að spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. Samningar höfðu tekist milli hæstv. forseta Nd. um að þessum fundi Sþ. lyki ekki síðar en kl. 4. Ég vildi spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt mál eftir.)
    Hæstv. forseti. Ég á ekki langt mál eftir. Ég skal ljúka þessari ræðu. En ég ítreka það, hæstv. forseti, að hér er alvörumál á ferðinni. Hér erum við að tala um grundvallaratriði varðandi fjármál í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Þeir sem ekki vilja samþykkja þessa tillögu um að yfirdráttarheimildin detti út um áramót eru að samþykkja það að fjmrh. skuli heimilað að stela verðmætum með seðlaprentun.