Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er óskandi að þetta ráð verði ekki ein silkihúfan ofan á aðra í öllu því nefndafargani sem til er hér á landi. Eigi að síður er ég sannfærð um það að ef hægt er að koma einhverri þeirri skipan á að samstarf milli sjúkrahúsanna yrði eflt og samvinna bætt, væri það af hinu góða. Ég vildi mjög gjarnan gera þessa tilraun því mér skilst á ráðherra að þetta sé tilraun til úrbóta.
    Það er fyrirsjáanlegt að það þarf að endurbæta húsakostinn og það þarf að breyta og efla starfsemi sjúkrahúsanna á næstu árum. Til þess að heilbrigðisþjónusta sé góð þarf ekki bara góðan húsakost og góð verkfæri. Það þarf líka góða starfskrafta sem eru sæmilega ánægðir með sín kjör og sæmilega ánægðir með það hvort þeirra raddir fá að heyrast innan þess starfs sem fólkið á að inna af hendi. Því lít ég svo á að þessi samstarfsnefnd ætti að vera dálítið öðruvísi skipuð en hér er gert ráð fyrir. Ég álít að í fyrsta lagi ættu að vera a.m.k. tveir fulltrúar í þessari nefnd sem væru fulltrúar starfsfólks, ekki bara formenn stjórnanna heldur fulltrúar starfsfólks á sjúkrahúsunum. Þeir gætu örugglega komið með afskaplega mikið af praktískum og gagnlegum ráðleggingum í sparnaðarátt. Ég er alveg sannfærð um að væri meira hlustað í öllum stofnunum á starfsfólkið og leitað eftir ráðum frá því mundi það geta haft verulega hagræðingu og sparnað í för með sér. Því lít ég svo á að það ættu a.m.k. að vera tveir fulltrúar starfsmanna þarna.
    Auk þess álít ég að það gæti verið til bóta, vegna þess að þessir spítalar sem um er að ræða eru allir hérna á Reykjavíkursvæðinu, að Reykjavíkurborg ætti sinn fulltrúa í þessari nefnd. Þau mál sem þetta ráð á að fjalla um varða svo mjög allt líf og starf hér í Reykjavík að ég held að Reykjavíkurborg ætti að eiga sinn fulltrúa í þessu ráði. Þá væri ráðið auðvitað orðið átta manna en ekki fimm. Stærri stjórnir eru alltaf þyngri í vöfum en þær minni, en ég held samt sem áður að þetta yrði til slíkra bóta að það væri ástæða til þess fyrir ráðherra að skoða þetta mál betur.