Jarðalög
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Eins og fram hefur komið er frv. þetta sem flutt er af hv. þm. Geir H. Haarde og Friðriki Sophussyni ekki flutt sem flokksmál af sjálfstæðismönnum. Í þingflokki sjálfstæðismanna gilda þær reglur að einstökum þingmönnum er heimilað að flytja mál þótt þingflokkurinn sem heild standi ekki á bak við þau. Það eru þess vegna eins og fram hefur komið skiptar skoðanir um málið í þingflokki sjálfstæðismanna.
    Jarðalögin voru sett árið 1976 og þeim hefur verið breytt lítillega nokkrum sinnum síðan. Þrátt fyrir þær breytingar kann að vera ástæða til þess að endurskoða þessi lög og um það hefur oft verið rætt. Ég vil þó taka fram varðandi það frv. sem hér liggur fyrir að það gengur nokkuð lengra en ég get sætt mig við.
    Í frv. felast tvær meginbreytingar. Í fyrsta lagi að fella niður afskipti sveitarstjórna og jarðanefnda af ráðstöfun lands í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Og í öðru lagi, og þá sem fylgir kannski þessu aðalatriði, að fella niður kauprétt sveitarfélaga.
    Það er rétt að gera sér grein fyrir því að jarðanefndir voru settar á laggir til þess að aðstoða sveitarstjórnir, í litlum sveitarfélögum einkanlega, í ljósi þess að stundum hafði reynst erfitt fyrir sveitarstjórnir í slíkum sveitarfélögum að fjalla um mál af þessu tagi vegna nábýlis við þau málefni sem um var að tefla þar sem sveitarstjórnarmenn voru kannski annað tveggja næstu nágrannar þess aðila sem var að ráðstafa sínu landi eða sinni jörð eða þá mjög náskyldir. Þess vegna var það tekið upp að setja á laggir svokallaða jarðanefnd sem hefði betri aðstöðu til að taka á málum án slíkra tengsla. Skal ég ekkert um það segja nema ástæða sé til að endurskoða þau ákvæði og raunar sum af þeim ákvæðum er lúta að afskiptum sveitarstjórnar og jarðanefndar af ráðstöfun lands. Það hefur t.d. verið gagnrýnt sem heimilt er samkvæmt jarðalögum, að jarðanefndir og sveitarstjórnir óski eftir mati á landi eða jörð ef sýnt þykir af hálfu þessara aðila að verð sem gefið er upp sé óeðlilega hátt ellegar að skilmálar séu ósanngjarnir.
    Nú veit ég ekki til að þessu hafi nokkru sinni verið beitt en þetta ákvæði er eigi að síður í lögum og var sett þar á sínum tíma sem eins konar öryggisatriði gegn því að gefið væri upp allt of hátt verð til þess að bola forkaupsréttarhafa frá að neyta kaupréttar síns þrátt fyrir það að hin raunverulega greiðsla væri önnur.
    Að mínum dómi væri eðlilegt að öll þessi ákvæði kæmu til endurskoðunar. Þá kem ég að hinu aðalatriði málsins sem er forkaupréttur sveitarfélaga sem hér er numinn brott. Hann vil ég varðveita með líkum eða sama hætti og hv. síðasti ræðumaður. Lög um forkaupsrétt sveitarfélaga eru gömul og ég held að þau standi á það grónum merg eða fyrir þeim lagaákvæðum séu það gildar ástæður að óskynsamlegt væri að nema þau brott. Ég er þess vegna algerlega andvígur þeim þætti þessa máls sem fjallar um að nema brott

forkaupsrétt sveitarfélaga.
    Nú tek ég eftir því að hv. flm. hafa ekki lagt til að fella á brott ákvæði um hugsanlegt mat á jörð eða landi ef það lítur þannig út að forkaupsréttarhafa eigi að bola frá að neyta kaupréttar síns, sem
í þessu tilviki samkvæmt lagafrv. væri leiguliði, og þær breytingar sem eru á þessum ákvæðum í frv. sýnast mér vera til bóta, t.d. orðalagið á 8. gr. frv., sem er breyting á 34. gr. laganna. Ég get lesið það, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir að 1. mgr. 34. gr. laganna orðist svo: ,,Nú er forkaupsréttarhafa boðið að neyta forkaupsréttar en kaupverð er ranglega tilgreint of hátt eða skilmálar ranglega tilgreindir of íþyngjandi í því skyni að halda forkaupsréttarhafa frá því að neyta réttar síns. Forkaupsréttarhafi getur þá, að fengnu samþykki jarðanefndar krafist mats dómskvaddra manna um hæfilegt söluverð jarðarinnar og skilmála. Er honum þá heimilt að neyta forkaupsréttar síns á því verði.``
    Mér sýnist sú breyting sem hér er lagt til að gerð verði á þessu ákvæði sé til bóta. Þessi ákvæði eru skýrari og gleggri en er í lögunum sjálfum. Þó ég sé andvígur því megininntaki þessara laga að fella niður kauprétt og þar með öll afskipti sveitarfélaga af ráðstöfun lands eða jarðeigna þá er t.d. þessi grein, að mér sýnist, í frv. til bóta. Önnur atriði frv. eru þess efnis að það er eðlilegt að um þau fari fram umræða og þau atriði skoðuð mjög nákvæmlega í þingnefnd.
    Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frekar. Málið gengur væntanlega til nefndar sem ég á sæti í, þ.e. landbn. þessar hv. deildar, og þar verður það vitaskuld tekið til meðferðar með eðlilegum hætti.