Jarðalög
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram um frv. til laga um breytingu á jarðalögum vekur mjög réttmæta athygli á nauðsyn þess að endurskoða jarðalög. Við lestur á frv. kemur í ljós að það eru ýmsir meinbugir á þeim jarðalögum sem við búum við núna. Ég segi það sem mína skoðun að ég get fallist á þær röksemdir sem koma fram í þessu frv. að úr lögunum, eins og þau eru nú, falli brott ákvæði um að ekki megi selja eða ráðstafa fasteignaréttindum utan skipulagðra þéttbýlissvæða nema með samþykki sveitarstjórna og jarðanefnda. Ástæðan fyrir því að ég er mótfallinn því ákvæði núverandi jarðalaga að ráðstöfunarréttur landeiganda sé skertur á þennan hátt er í meginatriðum sú að ég hygg að á undanförnum árum hafi það gerst æ ofan í æ að landeigendur, m.a. bændur, hafi orðið að þola það að verðmæti eigna þeirra hafi verið stórlega skert vegna þessara ákvæða jarðalaganna. Og ég hygg að það sé nauðsynlegt að endurskoða þennan þátt jarðalaganna, þannig að a.m.k. væri hægt að skjóta málum til einhvers annars yfirvalds sem gæti úrskurðað í átakamálum af þessu tagi sem komið hafa upp.
    Ég er hins vegar mótfallinn því að breyta forkaupsréttarákvæðinu í jarðalögunum. Tel það ekki skynsamlegt vegna þess að ég hygg, eins og hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, að það geti stórskaðað t.d. sveitarfélög sem vilja halda því landi sem þau hafa í baráttu gagnvart öðrum.
    Í þriðja lagi vil ég nefna, herra forseti, 9. gr. frv. sem ég er algjörlega sammála að þurfi breytinga við. Það nær ekki nokkurri átt og getur auðvitað ekki gengið að eigendur landeigna og jarða hafi ekki heimild í erfðaskrá til þess að ráðstafa eignum sínum til annarra en skyldmenna. Núverandi jarðalög koma í veg fyrir það að landeigendur geti ráðstafað eignum sínum til annarra en skyldmenna, eða eins og segir: ,,... barna, barnabarna, kjörbarna, fósturbarna, systkina eða foreldra.`` Ef landeigendur vilja ekki ráðstafa eignum sínum til skyldmenna eða ættingja þá geti hreppsnefnd átt forkaupsrétt að eigninni. Þetta getur ekki gengið. Ég tel að þetta sé andstætt stjórnarskránni vegna þess að eignarrétturinn er helgur og sá sem á eignina, sá sem á landið, hann hlýtur að hafa algjöran rétt á því hvernig hann ráðstafar eign sinni að sér látnum. Auðvitað er bara aftan úr forneskju að setja slík ákvæði í lög. Ég fæ ekki skilið hvaða tilgangi þetta þjónar. Þess vegna tel ég að full ástæða sé til þess í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur orðið og í þeirri nefnd sem fær þetta frv. til meðhöndlunar, hvort sem það verður hv. allshn. eða hv. landbn., að þar verði undinn bráður bugur að því að jarðalögin verði endurskoðuð. Á þeim eru ýmsir ágallar og ég er viss um að flestir hv. þm. viðurkenna það og viðurkenna að það ber brýna nauðsyn til þess að endurskoða jarðalögin. Ef þetta gæti orðið fyrsta skrefið í þá átt er vel af stað farið með þá endurskoðun.