Jarðalög
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Mér finnst þetta frv., eins og mörg önnur, þess efnis að það er forvitnilegt. Og vafalaust er það rétt að hér sé hægt að finna ýmsar greinar sem eru jákvæðar. Ég verð að segja eins og er að mér líkaði vel málflutningur hv. 2. þm. Vesturl. og jafnframt skildi ég vel þau sjónarmið sem hér komu fram og taldi þann málflutning mjög góðan einnig sem hv. 9. Reykn. hafði hér í frammi. En hitt fannst mér þó koma mjög glöggt fram að menn vildu ætla sveitarfélögum misjafnan rétt í þessu landi. Sveitarfélög dreifbýlisins skyldu hafa minni rétt en sveitarfélög þéttbýlis. Og ég verð nú að segja eins og er að ég hef aldrei skilið þann hugsunarhátt sem liggur þar að baki.
    Frá elstu tímum Íslandsbyggðar hafa verið verulegar kvaðir á landi. Það er hægt að skoða Grágásarákvæði og skilja hinar ýmsu takmarkanir sem þar hafa verið á. Það var umferðarréttur um land. Það var réttur til að hvíla hesta og beita og það voru skyldukvaðir á landinu til sameiginlegrar starfsemi innan viðkomandi sveitarfélags, fjallskil og margt fleira. Ef menn eru að tala um eignarréttinn og að hann sé fótum troðinn þá er hægt að finna það í öðrum lögum. Mjög góð dæmi eru umferðarlög í þeim efnum. Skv. eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar má engan mann svipta eign sinni nema almannaheill krefji og fullar bætur komi fyrir. Nú getum við fallist á það að almannaheill krefjist þess að bíll sé tekinn af vegarbrún. En hann er fjarlægður og engar bætur boðnar fyrir. Hvar eru heimildir fyrir því í íslenskum lögum að hirða eignir af mönnum án þess að borga bætur fyrir? Ef Reykjavíkurborg hirðir bíla hér úti á götum og lætur flytja þá er það skýlaust ákvæði stjórnarskrárinnar að hún hafi heimild til að gera það vegna almannaheilla en jafnframt skyldug til að borga fullt verð fyrir bílinn. Það liggur í hlutarins eðli. Og ég vil nú skora á flm. þessa frv. að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að finna grófara dæmi um hvernig eignir eru hirtar af manni en í þeim tilfellum. Þetta geta verið bílar upp á milljón sem eru bara hirtir með dráttarbíl og fluttir inn í port og engar bætur. Hvernig stendur á því að forsvarsmenn einstaklingsframtaksins og sjálfstæði eignarréttarins taka sig ekki til og stoppa þetta? Hefur það gleymst að eignarrétturinn er til staðar líka hér í Reykjavík?
    Annað eignarréttarákvæði er náttúrlega mjög umhugsunarvert. Það var aðili sem átti sumarbústað og hafði hann á leigulandi. Eignarréttur mannsins á sumarbústaðnum var ótvíræður. Hinn átti landið. Sennilega hefur nú sumarbústaðurinn verið mun verðmeiri en landið sem undir honum stóð en hann var dæmdur til að fjarlægja bústaðinn og eign hans þar með að engu eða litlu gerð. Það er því margt hægt að finna sem bendir til þess að það megi deila um hvernig við verjum eignarréttinn. Bæjarfélög hér á þessu svæði hafa hiklaust skipað mönnum að fjarlægja húseignir og þannig raunverulega gert eign sem áður hafði verðmæti verðlausa. Er hér ekki verið að fótum troða eignarréttinn?

    Hvers vegna flytja menn ekki heildstætt frv. þar sem tekið er á þessu máli ef hugsunin er sú að við séum að brjóta stjórnarskrána og eignarréttinn? Ég veit að það er hægt að finna dæmi þess að menn hafi misnotað það vald að sveitarstjórnir hafa leyst til sín jarðir til þess að ráða því hver yrði ábúandi á jörðinni og selt svo öðrum aðila sem hefur síst orðið til þess að bæta um betur. Ég veit um dæmi um það að íslenskir menn hafa af þessum sökum orðið af því að eignast jörð sem hefur lent í eigu útlendinga fyrir vikið. Þessi dæmi eru til. En það breytir engu um það að sú meginregla að sveitarstjórnirnar eigi að hafa þennan forkaupsrétt er byggð á svo gildum viðhorfum að ég tel alveg fráleitt að fara að breyta því.
    Það kom fram hjá Árna Gunnarssyni, hv. 3. þm. Norðurl. e., að þetta ákvæði um erfðaskrárnar væri alveg fráleitt. Ég hygg að það hafi verið eitt vinsælasta viðfangsefni hér fyrr á öldum að hafa jarðir af deyjandi gamalmennum með því að láta þau skrifa undir yfirlýsingar á erfðaskrám. Á Vestfjörðum lifir nú enn málshátturinn: Gefur hann enn guðsmaðurinn, Engidal undir Holt. Og ég hygg að það sé hægt að finna fleiri dæmi um þetta. Ég ætla ekki að bera það á kirkjuna í dag að svona vopnaburður sé viðhafður. En ég hef spurt sjálfan mig um trúarsöfnuði sem hafa fengið að starfa í þessu landi og hafa allt í einu getað komið því þannig fyrir að ákveðnir menn hafa arfleitt þá að jörðum. Hvort það hafi allt verið með felldu sem þar var gert. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að taka þetta ákvæði út. Og ég gæti nafngreint jarðir og menn í því sambandi.
    Ég sé ekkert athugavert við það að ýmis ákvæði laga séu gerð skýrari eins og hér hefur komið fram að getur verið varðandi hvernig eigi að bjóða forkaupsrétt. Hins vegar hygg ég að það blasi líka við og mætti vera ærið umhugsunarefni af því að það eru lögfr æðingar sem flytja þetta. (Gripið fram í.) Að hálfu. Mér sýnist að að hefði verið nær hjá þeim að fara í smiðju til lögfræðinga og afla sér upplýsinga um hvernig þeir hinir klóku menn hafa nú fari ð í kringum þetta en að standa í þessu puði. Svo get ég ekki tekið undir það vonleysi sem felst í ákveðinni setningu á bls. 3, með leyfi forseta:
    ,,Að lokum má minna á að í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar frá 8. júlí 1987 eru ákvæði um endurskoðun jarðalaga. Segir þar að ,,jarðalögin verði endurskoðuð í því augnamiði að auðvelda eigendaskipti á bújörðum.`` Ekkert sambærilegt ákvæði er í málefnasamningum þeirra ríkisstjórna sem setið hafa frá árinu 1988 og er flm. ekki kunnugt um nein áform í þessa veru af hálfu núv. ríkisstjórnar. Er því ljóst að eina leiðin til að fá þessum málum hreyft er sú að flytja þingmannafrv. eins og það sem hér er kynnt.`` Það er eins og þeir hafi gersamlega tapað trúnni á því að hugsanlegt væri að Þorsteinn Pálsson myndaði nýja ríkisstjórn. Mér finnst nú svona mikið vonleysi varla eiga rétt á sér hjá þessum mönnum og það rétt fyrir kosningar.