Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. desember 1990


     Flm. (Sigrún Jónsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég hafði eiginlega búist við því að heilbrrh. yrði viðstaddur. En ég vil leyfa mér hér að vekja athygli á því að á flokksþingi Framsfl. sem haldinn var 16. -- 18. nóv. sl. var m.a. samþykkt ályktun þar sem segir að stefnt verði að því að fæðingarorlof verði í áföngum lengt í eitt ár og foreldrar hafi heimild til að skipta því á milli sín. Þetta hlýtur að vekja vonir um að heilbrrh., sem því miður er ekki viðstaddur, beiti sér sérstaklega í þessu máli í vetur. Með því að samþykkja það frv. sem hér er til umræðu gæti hann stigið eitt skref í þá átt. Og það má einnig benda á, fyrst við erum að minna hér á samþykktir flokksþinga, að í stjórnmálaályktun 41. flokksþings Alþfl. segir m.a. í kafla um fjölskyldustefnu að áfram verði unnið að lengingu fæðingarorlofs. Þarna hafa því tveir ríkisstjórnarflokkar tekið undir þau sjónarmið sem koma fram í hugmyndum okkar kvennalistakvenna. Þrátt fyrir þetta hefur ekki komið fram frv. frá ríkisstjórninni á yfirstandandi kjörtímabili um lengingu fæðingarorlofs og það er ekki langur tími til stefnu.
    Að lokum vil ég ítreka fyrri orð mín um mikilvægi þess að öllum foreldrum sé gert fjárhagslega kleift að eignast börn og annast þau á fyrstu mánuðum ævi þeirra. Við skulum horfa til framtíðar. Börnin og æska þessa lands eru það dýrmætasta sem við eigum. Veitum þeim allt það besta sem við getum boðið. Aðeins þannig getum við vænst bjartrar framtíðar fyrir land og þjóð.