Kostnaður við breytingar á Þjóðleikhúsi
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er spurt: Hve hárri fjárhæð nam kostnaður við breytingar á Þjóðleikhúsi Íslendinga 31. okt. 1990: a. hönnunarkostnaður, b. kostnaður við verklegar framkvæmdir?
    Kostnaður við hönnun, stjórn, eftirlit, nýtingaráætlun og mælingar nemur 140,7 millj. kr. og er hönnunarkostnaðurinn yfirgnæfandi meiri hluti þess kostnaðar. Þetta var svar við a - lið og svar við b - lið er: Kostnaður er 242,8 millj. kr.
    Í öðru lagi er spurt: Hvernig samræmast þessar kostnaðartölur áætlunum um framkvæmd verksins? Svarið er að samkvæmt áætlun sem gerð var 26. júlí 1990, sem er í raun og veru hin endanlega verkáætlun, var talið að kostnaðurinn yrði 456 millj. kr. við þessa lotu. Þá var ljóst að miðað við fjárveitingar sem lágu fyrir og sömuleiðis við fjárveitingar í fjárlagafrv. fyrir árið 1991 vantaði 29 millj. kr. Í viðbót við þá tölu hefur síðan komið fram kostnaður upp á 35 millj. kr., þ.e. í viðbót við 456 millj. kr. Þannig fáum við heildartöluna 491,2 millj. kr. Viðbótin, 35 millj. kr., skiptist þannig að í fyrsta lagi eru það 17 millj. vegna þess að núna hefur verið tekinn hluti af annarri lotunni. Í öðru lagi eru það 14 millj. vegna breyttra aðstæðna. M.a. komu fram skemmdir á lofti sem ekki voru fyrirsjáanlegar, vissar skemmdir í kjallara sem ekki voru fyrirsjáanlegar og fleira. Og í þriðja lagi er um ræða kostnað vegna flýtingar upp á 4 millj. kr. Þannig fáum við þessa tölu, 35 millj. Frá áætluninni 26. júlí mun kostnaður því fara 7,6% fram úr áætlun.
    Í þriðja lagi er spurt: Hvaða áætlanir eru uppi um framhald verksins? Það er gert ráð fyrir því að ljúka þessari fyrstu lotu núna í marsmánuði 1991. Varðandi framhaldið hafa engar endanlegar ákvarðanir verið teknar. Það mál er í höndum Alþingis og fjvn. eða kannski frekar fjvn. og síðan Alþingis, en það er talið af byggingarnefndinni að heppilegt væri að ljúka því sem eftir væri í sumarlokunum 1991 og 1992. Byggingarnefndin hefur tjáð mér að kostnaður við þessa viðbót í framkvæmdunum geti verið upp á u.þ.b. 300 millj. kr.
    Í fjórða lagi er spurt: Er fjármagn tryggt til verkloka? Það er ljóst að fjármagn til fyrstu lotu hefur verið tryggt fyrir utan 64 millj. kr. sem vantar miðað við fjárlagafrv. ársins 1991, en fjármagn til framhaldsins hefur hins vegar ekki verið tryggt. Það er verkefni fjvn. og Alþingis að fjalla um það.
    Þegar fsp. barst mér frá hv. 3. þm. Vesturl. skrifaði ég byggingarnefnd Þjóðleikhússins bréf og frá formanni byggingarnefndarinnar barst svar. Það sem ég hef hér sagt, virðulegi forseti, er í raun og veru útdráttur úr því svari sem ég vænti að sé skýrt, en ég er tilbúinn til þess að láta hv. þm. hafa svarið til frekari glöggvunar eins og það kom frá byggingarnefndinni.
    Varðandi málið að öðru leyti vil ég segja þetta: Þjóðleikhúsið er og hefur verið ein af þeim byggingum sem umdeildastar hafa verið í menningarsögu íslensku þjóðarinnar alveg frá upphafi. Þjóðleikhúsið lá undir stórkostlegum skemmdum. Viðhaldskostnaður hafði ekki verið mikill við það hús áratugum saman og það blasti við að húsið var að eyðileggjast og það þurfti að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það. Ég held að þjóðinni sé í raun og veru skylt að gera ráðstafanir til að húsnæði af þessu tagi eyðileggist ekki og á þeim forsendum var tekin ákvörðun um það að endurbæta Þjóðleikhúsið. Ég vona að það takist.
    Það sem er hins vegar ævinlega umdeilanlegt í þessum efnum er það hvernig og hversu miklum fjármunum ber að verja á hverjum tíma í svona verkefni. Það er auðvitað alltaf umdeilanlegur hlutur og ekki nema gott um það að segja að menn ræði um það hér á hv. Alþingi. Það sem hins vegar þarf kannski að skoða í framhaldi af þeim umræðum, sem fram hafa farið um málið síðustu daga, er það að hve miklu leyti það er eðlilegt að ríkið sé að reka fyrirtæki sem heitir ,,Húsameistari ríkisins`` til þess að annast þjónustu af því tagi sem hér er um að ræða og hægt er að fá hjá fjölda aðila út um allt land. Það er mál sem þarf að ræða undir öðrum dagskrárlið.