Kostnaður við breytingar á Þjóðleikhúsi
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Það kemur ekkert á óvart að þetta skuli vekja nokkuð heitar tilfinningar hjá hæstv. ráðherra vegna þess að þetta er í eðli sínu hið versta mál. Þessu máli var haldið á leyndarstigi allt of lengi og þegar var verið að taka hér ákvörðun um endurbætur á Þjóðleikhúsinu, þá hygg ég, og kom raunar í ljós í umræðum um málið í fyrra, að fæstum þingmönnum hafi verið ljóst hvað það var sem gera átti. Það átti að byggja nýtt hús innan í því gamla. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að taka um þetta mál ítarlega umræðu við betra tækifæri. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að til þess er ekki ráðrúm í hinum knappa tíma sem mönnum er skammtaður af eðlilegum ástæðum í fyrirspurnatíma. Ég er honum svo hjartanlega sammála um stöðu embættis húsameistara ríkisins án þess að ég sé að leggja dóm á þá einstaklinga sem þar starfa. Það embætti á að leggja niður. Um það hefur Alþfl. flutt tillögur árum saman. Ég minnist þess ekki að þær hafi hlotið sérstakan stuðning eða atbeina Alþb. til þess að ná samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Um þetta erum við hæstv. ráðherra alveg hjartanlega sammála.