Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það mun vera mikið verk að rannsaka hið geysistóra skjalasafn leyniþjónustu Þýska alþýðulýðveldisins, en
samkvæmt nýlega birtum upplýsingum hafði þessi leyniþjónusta, STASI, í sinni þjónustu 85 þúsund manns í fullu starfi en 500 þúsund manns í aukastörfum. Kostnaður við rekstur hennar á ári hverju nam sem svaraði 1 milljarði Bandaríkjadala. Hingað til hafa um 2000 manns af þessum herskara verið afhjúpaðir.
    Nú er þess að geta að skjalasafn STASI er undir lás og slá í austurhluta Þýskalands og er öllum lokað þar til kjörið þing sameinaðs Þýskalands hugsanlega ákveður annað. Það var kosið hinn 2. des. en enn hefur ekkert gerst að því er þetta varðar.
    Þá er þess að geta að margir málsmetandi Þjóðverjar í öllum stjórnmálaflokkum hafa opinberlega hvatt menn til sáttfýsi og skilnings. Menn vitna gjarnan til frægrar ritsmíðar Vaclavs Havels um að oft hafi verið mjótt á mununum milli geranda og þolanda í lögregluríkinu. Hins vegar eru menn sammála um það að hreinum glæpamönnum beri refsing og að fórnarlömb ofbeldisaðgerða þessarar leyniþjónustu eigi vissulega fullan og ótvíræðan rétt á því að mál þeirra fáist upplýst og að réttlæti nái fram að ganga. Engu að síður er sú almenna skoðun ríkjandi að forðast beri ,,Hexenjagd`` eða nornaveiðar í þessu sambandi. Það verður því að teljast óljóst á þessari stundu hvort eða hvenær þing Þýskalands, sem kjörið var 2. des., ákveður að opna skjalasafn STASI.
    Svar mitt við fsp. hv. þm. er því þetta: Við munum fylgjast með framvindu mála í Þýskalandi og taka afstöðu í framhaldi af hugsanlegri opnun þessa skjalasafns.